Keli fékk nýtt líf eftir illa meðferð

Hundurinn Keli fékk slæma meðferð.
Hundurinn Keli fékk slæma meðferð. Ljósmynd/Katrín Alexandra

Katrín Alexandra Helgudóttir segir magnaða sögu af hundinum Kela sem öðlaðist nýtt líf eftir að hafa sætt hræðilegri meðferð en Kela fann hún í gegnum auglýsingu á Bland.is

„Ég fékk Kela til mín í hræðilegu ásigkomulagi. Þegar ég fékk myndina af honum fyrst þá var ekkert sem benti til þess að hann væri svona illa á sig kominn en ég ætla ekki að lýsa því hvaða tilfinningar ég upplifði þegar ég tók á móti honum,“ segir Katrín. 

Lyktin var ógeðsleg

„Hann var sendur til mín með flugi utan af landi. Ég tók við búrinu sem var allt brotið og límt saman og í því lá hann, í eigin saur og þvagi alveg dauðskelkaður. Fýlan var alveg ógeðsleg og hann hafði greinilega legið svona í langan tíma því harðnaður saurinn var fastur í feldinum á honum,“ segir Katrín Alexandra.

„Þegar við tókum hann úr búrinu sá ég að hann var líka allur í sárum og skrámum, með allskonar bletti um allt. Hann grét og grét og vissi ekkert hvað var að gerast en þegar við komum heim þá bara missti hann undan sér fæturna, fór undir borð og veinaði af hræðslu,“ segir Katrín og bætir við að hann hafi verið hrikalega hræddur við karlmenn, þá sérstaklega hávaxna. 

Var laminn eins og harðfiskur

„Það þarf ekki að kunna að leggja saman tvo og tvo til að átta sig á því að hann var greinilega laminn eins og harðfiskur á fyrra heimili. Það mátti enginn halda á löngum hlut eins og spýtu eða priki án þess að hann færi að væla. Hann var líka logandi hræddur við krakkana okkar, eða réttara sagt lætin í þeim og ég sá fljótlega að þetta myndi ekki ganga,“ segir Katrín en í dag er fjölskylda hennar með Border Collie Labrador á heimilinu. 

Er hamingjusamur í dag

„Ég hafði samband við hunda atferlisfræðing og við vorum að því kominn að það þyrfti kannski bara að svæfa hann þegar vinur minn og systir hans buðust til að taka Kela að sér. Þau höfðu kjöraðstæður á heimilinu, búa saman í einbýli og vinna á sitthvorri vaktinni þannig að það er alltaf einhver heima.“

„Eftir að Keli fékk þá ást og umhyggju sem hundar þurfa, ásamt réttu magni af aga, þá tók hann alveg stakkaskiptum og er allur annar í dag. Hann er reyndar enn pínu hræddur við hávaxna karlmenn en þetta er ekki sami hundur og ég tók við á flugvellinum fyrir fjórum árum,“ segir hún. 

Spurð að því hvort hún hafi heyrt um fleiri svona dæmi um illa meðferð á hundum hér á landi segist Katrín ekki vita til þess. 

„Þetta er eina dæmið sem ég veit um en kannski er eitthvað um þetta. Ég varð svo reið út í þetta fólk sem sendi okkur hann að mér datt ekki einu sinni í hug að hafa samband við þau eða leita svara. Ég er bara svo glöð að hann hafi fengið nýtt líf hann Keli. Hann er hamingjusamur í dag. Það er það sem skiptir máli,“ segir Katrín Alexandra að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál