Bitur í áratugi eftir skilnað

„Konur eiga ekki auðveldara með að tala um tilfinningar sínar,
„Konur eiga ekki auðveldara með að tala um tilfinningar sínar," segir Anna Sigríður Pálsdóttir en hún hefur frá 1997 haldið námskeið fyrir fólk sem er að fara í gegnum skilnað. Eggert Jóhannsson

Séra Anna Sigríður Pálsdóttir. ráðgjafi og fyrrverandi Dómkirkjuprestur, ákvað fyrir um fimmtán árum að halda námskeið fyrir fólk sem gengur í gegnum skilnað.

Um síðustu aldamót fór fyrsta námskeiðið fram í Langholtskirkju en Laugardaginn 14. mars næstkomandi mun nýtt námskeið fara fram í húsnæði Lausnarinnar í Síðumúla 13.

Það var hennar eigin skilnaður fyrir mörgum árum sem hvatti Önnu til að fara af stað með námskeiðið en eftir að hafa fengið sáttavottorð frá presti upplifði hún óvissu, var ráðvillt og fann þörf fyrir fleiri úrlausnir. 

„Fólk er mjög oft ringlað á þessum tíma. Margir glíma til dæmis við eigin fordóma, upplifa að hugtök eins helgarpabbi eða einstæð móðir séu neikvæð og finnst sárt og erfitt að vera komin í þessa stöðu,“ segir Anna Sigríður og bendir á að námskeiðið auðveldi mörgum að átta sig í þessum erfiðu aðstæðum. 

Fólk er að upplifa það sama

„Margir upplifa sömu erfiðleikana og sömu vonbrigðin. Til dæmis eru margir sem ætla sér að verða unglingar aftur. Byrja að stunda skemmtistaðina af kappi í þeirri von að geta kynnst nýrri manneskju, myndað tengsl og átt gefandi samskipti. Svo verða þetta bara vonbrigði þegar það kemur á daginn að skemmtanalífið er ekki sterkur vettvangur fyrir fullorðna til að mynda alvöru sambönd,“ segir Anna Sigríður en sjálf ætlaði hún að bæta um betur og skrá sig í Jöklarannsóknafélagið eftir að hún varð einhleyp og þetta hugsaði hún í hvert sinn sem hún kom heim af næturlífinu. 

„Svo fór ég á árshátíð félagsins en þar var auðvitað alveg sama fylleríið og annarstaðar,“ segir hún og skellir upp úr. 

Misskilningur að kalla þetta vináttu

Margir kannast við að ætla sér að vera vinir fyrrum maka eftir skilnað. Anna segir þetta yfirleitt ekki ganga upp því eðlilegur vinskapur er ekkert í líkingu við ástarsamband eða hjónaband. 

„Það er ekki að ástæðulausu að fólki er ráðlagt að sofa ekki hjá vinum sínum til að eyðileggja ekki vinskapinn. Raunverulegur vinskapur verður ekki endurheimtur í þeirri mynd sem áður var ef fólk fer saman í rúmið, þó það sé allt bara í góðu gamni. Það er því misskilningur að kalla fyrrum maka vin sinn. Það er æskilegra að tala um vinsemd og vinsamleg samskipti. Barnanna vegna er nauðsynlegt að fólk komi kurteislega fram við hvort annað eftir að sambandinu líkur en eðli málsins samkvæmt ætti það heldur að þróast út í samband sem líkist meira kunningsskap en vinskap. Annað væri óeðlilegt. Við eigum flest bara fáa góða vini sem við ræðum einkamálin við. Hinsvegar eigum við marga kunningja sem við ræktum ekki trúnaðarsamband við. Fyrrum maki ætti því kannski að vera líkari kunningja.“ 

Hugsa sig út úr hjónabandinu 

Spurð að því hver sé algengasta orsök skilnaða segir Anna þær geta verið mjög mismunandi. Rótin sé þó oft trúnaðarbrestur í einhverri mynd. Stundum vaxi fólk einnig frá hvort öðru, sérstaklega eftir að hafa verið saman frá unglingsaldri og að algengara sé að sátt ríki milli fyrrum hjóna þegar slíkir skilnaðir verða.

Trúnaðarbresturinn þurfi þó ekki að vera framhjáhald til að orsök skilnaðar megi tengja við brestinn. Það sé fjarlægðin sem myndast í sambandinu við að fara á bak við makann sem sé orsökin í þeim tilfellum. 

„Með því að fara á bak við maka sinn er fólk að grafa undan sambandinu sem það er í. Framhjáhald kemst reyndar yfirleitt alltaf upp og sprengir allt í loft upp en þá blasir það auðvitað við að annar einstaklingurinn hefur verið með hugann utan við hjónabandið í langan tíma,“ segir Anna.  

Samskipti á netinu grafa undan samböndum

„Þetta getur líka gerst þó ekki komi til framhjáhalds, það dugar að fólk sé óánægt en þá byrjar það að hugsa sig út úr sambandinu og tilkynnir svo bara einn daginn að það vilji skilja. Þá er viðkomandi oftast alveg búin að gera upp hug sinn. Svo eru dæmin þegar sífellt er verið að hóta skilnaði og þá reynir sá aðili sem verður fyrir hótuninni að bæta sig þar til viðkomandi fær nóg og segir bara allt í lagi þegar næsta hótun kemur, jafnvel án þess að vilja raunverulega skilja,“ segir Anna og bendir líka á að ákveðnar athafnir geri það að verkum að fjarlægð myndist. 

„Til dæmis þegar fólk spjallar á netinu og vill ekki að makinn komist að því. Jafnvel þó að þú hittir aldrei viðkomandi þá dugar þetta oft til að grafa undan sambandinu sem þú ert í. Um leið og fólk byrjar að leiða hugann í aðra átt þá er verið að opna glufu. Svo hafa peningamál oft verið orsök skilnaða, til dæmis þegar annar aðilinn fer illa með peninga sem báðir hafa aflað. Misnotkun á áfengi og vímuefnum er jafnframt mjög algeng orsök fyrir því að fólk treystir sér ekki lengur í hjónabandið.“

Konur eiga ekki auðveldara með að tala um tilfinningar sínar

Anna segir konur hingað til hafa verið í meirihluta á námskeiðunum en að karlar hafi líka tekið þátt og verið duglegir að vinna í sínum málum þó oftast séu þeir í minnihluta.   

„Það er oft talað um að konur eigi eitthvað auðveldara að tala um tilfinningar sínar en samkvæmt minni reynslu er það ekki rétt. Konur eiga reyndar auðveldara að tala um tilfinningar annarra í fjölskyldunni, en ekki endilega um sínar eigin tilfinningar,“ segir hún og kímir.

Anna Sigríður segir jafnframt að það hafi reynst mjög vel að hafa bæði kynin saman á námskeiðum því þannig heyri fólk sjónarmið úr beggja kynja.

„Fólkið sem kemur á svona námskeið er að styrkja sig og gera sitt besta svo að framhaldið verði gott. Allir sem tengjast hjónum sem skilja finna fyrir því en þó sérstaklega börnin. Samskipti eftir skilnað ættu því að snúast fyrst og fremst um börnin en til að þeim líði vel er nauðsynlegt að foreldrar þeirra sýni hvort öðru vinsemd og kurteisi.“

Komast aldrei yfir skilnaðinn

Anna segist í gegnum tíðina hafa kynnst fólki sem hefur aldrei komist yfir skilnað sinn frá fyrri maka. Það eyði áratugum í reiði, gremju og biturleika án þess að velta því fyrir sér hvort slíkt sé að skerða lífsgæði þeirra eða bæta þau. Jafnframt geti fólk glímt við skilnað foreldra sinna langt fram á fullorðinsár.

„Einu sinni hringdi í mig kona. Foreldrar hennar höfðu skilið þegar hún var barn en bæði lifðu vel yfir nírætt og öll ævi þessarar konu fór í að sjá til þess að mamma hennar og pabbi myndu ekki mætast á mannamótum og fara að rífast. Hún var með öðrum orðum alla tíð á milli foreldra sinna.  Þessi kona var svo ánægð að heyra að það væri hægt að nota aðrar leiðir til samskipta. Þetta þyrfti hreinlega ekki að vera svona.“

Draugur í rúminu

Anna Sigríður leggur ríka áherslu á að fólk greiði úr sálarflækjum sínum eftir skilnað. Fyrst og fremst fyrir sjálft sig, til að bæta lífsgæði sín til frambúðar og auka jafnvel líkur á góðu sambandi. 

„Það er ákveðið grundvallarskilyrði að læra að lifa í sátt við sjálfan sig til að vera góður maki. Fólk þarf líka að vinna úr fyrri samböndum til að fara ekki með viðbrögð, væntingar og fleiri tilfinningar inn í næsta samband. Ef það er ekki gert má líkja þessu við draugagang. Fyrrverandi er enn á staðnum þó hann eða hún sé raunverulega löngu farinn,“ segir Anna og bætir við að stundum gangi fólk þó jafnvel of langt til að losna við allt sem tengist fyrra sambandi. 

„Þetta á sérstaklega við þegar fólk hefur staðið í framhjáhaldi. Þá fer sá brotlegi oft út af heimilinu og tekur ekkert með sér. Svo koma börnin á nýja heimilið og það er ekkert sem minnir á þau eða tengir við fyrra líf. Allt er orðið nýtt í lífi pabbans eða mömmunnar, ný húsgögn, nýr maki, ný börn jafnvel,“ segir hún en tekur um leið fram að með þessu sé hún ekki að segja að fólk eigi að hafa brúðarmyndirnar uppi.

„Það væri skrítið en það er æskilegast að hafa myndir af börnum á nýja heimilinu. Slíkt er mikið betra fyrir þau því annars er hætt við að börnunum finnist mamma eða pabbi hreinlega hafa skilið við sig í leiðinni,“ segir Anna en sjálf gaf hún sonum sínum bréf frá fyrrverandi eiginmanni sem var skrifað þegar þau voru á góðum stað í sambandinu. Þetta var áratugum eftir þau skildu. 

„Þeim þótti mjög vænt um þetta því þeim fannst svo gott að hugsa til þess að einu sinni hafi ríkt friður og jafnvægi hjá foreldrum þeirra.“

Að lokum spyrjum við séra Önnu Sigríði hvort einhver pör hafi orðið til á námskeiðunum. 

„Já, ég veit um að minnsta kosti eitt par sem kynntist á námskeiði hjá mér. Það eru yfirleitt ekki fleiri en tíu einstaklingar á hverju námskeiði og svo heldur fólk oft hópinn á eftir. Nú hef ég ekki fylgst með þeim öllum, enda þekki ég svo mikið af fólki, en ég get allavega sagt að það varð til eitt par. Hvort þau eru enn saman veit ég þó ekki.“

Hér má lesa meira um þetta námskeið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál