Harkan sex á stefnumótasíðu fallega fólksins

Tawnie Lynn lét breyta sér töluvert til að fá aðgang …
Tawnie Lynn lét breyta sér töluvert til að fá aðgang að stefnumótasíðu fyrir fallegt fólk. mailonline.com

Stefnumótasíðan BeautifulPeople.com hefur haft slæm áhrif á sjálfsmynd ótal einstaklinga en um 3.000 einhleypum einstaklingum hefur verið hent út af síðunni fyrir að leyfa sér að drabbast niður. Heimasíðan sérhæfir sig nefnilega í að koma fallegu fólki saman en þeir sem eru ekki nógu fallegir fá ekki inngöngu á síðuna. Þeim sem eru fallegir en verða ófríðari með tímanum að mati stjórnenda síðunnar er þá hent út.

Bandarísk kona að nafni Tawnie Lynn var svo heppin að fá inngöngu á síðuna. Lynn fékk reyndar ekki aðgang að síðunni strax í upphafi heldur gekkst hún fyrst undir nokkrar fegrunaraðgerðir og lét „laga“ eitt og annað. Það var þá sem Lynn, sem var tilbúin að gera hvað sem er til að fá inngöngu, fékk jákvætt svar.

„Ef stjórnendur síðunnar myndu ekki viðhalda gæðunum þá myndu flestir fara. Þá væri BeautifulPeople.com bara eins og hver önnur stefnumótasíða,“ segir Lynn sem er alls ekki bitur út í stjórnendur síðunnar fyrir að hafa meinað henni aðgang í byrjun.

Þyngdaraukning ekki í boði

Fólkið á bakvið síðuna eru hjónin Greg og Genevieve Hodge en það fylgir ekki sögunni hvort þau séu falleg eða ekki. Þegar fólki er hent út af stefnumótasíðunni umdeildu er þyngdaraukningu oftar en ekki um að kenna. Stjórnendur síðunnar segjast vilja senda mjög skýr skilaboð út til fólks. „Það er ekki nóg að vera fallegur, þú þarft að halda þér fallegum,“ segir í lýsingu síðunnar. „Mörgum þykir þetta harkalegt en svona rekum við fyrirtækið,“ segir þá Genevieve Hodge í viðtali sem birtist á heimasíðu Daily Mail.

Heimasíðan var sett á laggirnar árið 2003 en síðan þá hefur nokkrum milljónum manna verið meinaður aðgangur að síðunni. Og eins og áður sagði þá hefur um 3000 einstaklingum verið hent út eftir að hafa tapað fegurðinni. Þeir einstaklingar sem er hent út fá þá bréf þar sem þeir eru hvattir til að sækja aftur um þegar þeir hafa öðlast fegurð sína á nýjan leik. 

Genevieve Hodge segist ekki njóta þess að henda fólki út af síðunni en hún segir það vera nauðsynlegt. „Ef við myndum leyfa ljótu fólki að ráða ríkjum á síðunni myndum við fórna hugmyndinni sem síðan byggir á.“

Á stefnumótasíðunni BeautifulPeople.com eru núna um 800.000 meðlimir frá 190 löndum. Allt á þetta fólk það sameiginlegt að vera fallegt í augum hjónanna Greg og Genevieve Hodge.

Ófrítt fólk fær ekki aðgang að stefnumótasíðunni www.BeautifulPeople.com.
Ófrítt fólk fær ekki aðgang að stefnumótasíðunni www.BeautifulPeople.com. www.beautifulpeople.com.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál