11 einkenni kynþokkafullra karlmanna

„Það er ekkert kynþokkafullt við mann sem þykist annar en …
„Það er ekkert kynþokkafullt við mann sem þykist annar en hann er. Það er ekkert sexý við mann sem skortir dýpt á tilfinningasviðinu.“ Instagram/Erica Jagger
Erica Jagger er 51 árs fráskilinn bloggari og pistlahöfundur á Huffington Post. Eftir tuttugu ára hjónaband kom hún aftur á markaðinn, sannfærð um að konur yfir fertugu væru löngu komnar yfir síðasta söludag, enda hafa slík skilaboð verið skýr í fjölmiðlaheiminum um árabil.

Reynsla Jagger varð hinsvegar önnur. Hún komst að því að kona sem fagnar kynþokka sínum, sama hversu gömul hún er, býr yfir ómældum krafti sem laðar aðra að. Af þessu tilefni, og til að breiða út fagnaðarerindi sitt, byrjaði hún með bloggsíðuna www.asexywomanofacertainage.com og í kjölfarið hóf hún að skrifa pistla á Huffington Post.

Jagger heldur jafnframt úti Instagram síðu þar sem hún fagnar erótíkinni og lögulegum líkama sínum en nýlega barst henni spurning við eina myndina. 
„Hvað er það í fari karlmanns sem fangar athygli þína?“ 

Jagger segist hafa velt svarinu fyrir sér um hríð og komist að þeirri niðurstöðu að það væri sannarlega ekki eitthvað eitt sem heillar skvísuna. 
Hún segir það fyrst og fremst vera andleg áhrif sem hafa yfirhöndina og skera úr um hvort karl býr yfir kynþokka eða ekki. Gildi, heilindi, húmor, karakter og sjálfsöryggi hafi alltaf yfirhöndina yfir útlitinu, metnaði í atvinnulífinu eða hvað þeir kunna mörg trix og leiðir til að tæla konur. 

1. Styrkur -- Ég er ekki að tala um hvað hann getur tekið í bekk, þó að sterkir handleggir séu alltaf góðir, ég er að tala um innri styrk. Styrkur sem segir „Ég veit fyrir hvað ég stend. Ég veit hver ég er.“ Það er ekkert kynþokkafyllra en karlmaður sem er á jörðinni og hefur náð stjórn á hvatvísinni sem réði honum á yngri árum. Af honum geislar hljóðlátt sjálfsöryggi en ekki vottur af hroka. Hann þarf ekkert að sanna. 

2. Berskjöldun -- Það er ekki hægt að sýna styrk nema sýna veikleikana á móti. Hann getur alltaf sagt þér hvernig honum líður, hvernig þú lætur honum líða, hvað hann hefur gert af sér áður og hvernig hann bætti fyrir það, hvað óttast hann. Án gagnsæis og heiðarleika verður aldrei til raunveruleg nánd. Nándin er það sem gerir kynlífið æsandi þegar fólk kemst yfir nýjabrumið sem fylgir samböndum á fyrstu stigum. 

3. Heilindi -- Þessi eiginleiki aðskilur drengi og karlmenn. Þeir eru kannski heillandi til að byrja með, flagararnir, lygararnir og sjálfhverfu sjónverfingamennirnir. Þeir nota ódýrar aðferðir til að blekkja og heilla aðeins til að fullnægja eigin skrítnu þörfum. En það er ekkert kynþokkafullt við mann sem þykist annar en hann er. Það er ekkert sexý við mann sem skortir dýpt á tilfinningasviðinu og er algjörlega sama þó hann skilji eftir sviðna jörð hvar sem hann drepur niður fæti. Ég myndi velja Atticus Finch, lögmanninn blíða umfram menn eins og Don Draper, alla daga, alltaf. 

4. Greind -- Greind er kynþokkafull. Há greindarvísitala er góð en tölurnar segja ekki allt. Það þarf meira til. Óseðjandi þorsti eftir meiri þekkingu, hæfileikinn til að tjá sig, gera sig skiljanlegan, skapa. Menn sem hafa góð tök á þessu eru ómótstæðilegir. Mér er sama hversu laglegur hann er í útliti; ef hann nær ekki að heilla mig með hugsunum sínum þá er ekkert að gerast, þá verður aldrei kynferðislegt kemistrí. 

5. Kímnigáfa -- Karl sem skortir kímnigáfu er eins og köld sturta á tveimur jafnfljótum. Mér er algerlega ómögulegt að tengjast manni sem grafalvarlegur og hlær sjaldan. Fyrir mér eru húmor og gáfur óaðskiljanleg fyrirbæri. Gáfað fólk les aðstæður og sér það fyndna út úr hlutunum. Og svo skiptir öllu máli hvernig húmorinn er. Þó mér finnist maðurinn sjóðheitur. Ef hans útgáfa af því sem er fyndið samræmist ekki minni þá er ekki líklegt að við séum að fara að ná mikið saman. 

6. Góðmennska -- Það er ótrúlega erfitt og þreytandi að reyna að tengjast einhverjum sem er búinn að múra sig á bak við veggi. Samkennd, hluttekning, bros og hláturmildi og eiginleikinn til að tengjast öðrum. Þessir eiginleikar afvopna mann í bestu merkingu þess orðs. Blíða og góðmennska er kynæsandi. Það er bara þannig. 

7. Gjafmildi -- Níska er hrikalega ósexý. Ekki aðeins þegar kemur að peningum heldur líka tilfinningum. Að kasta til peningum og tilfinningum getur raunar verið einkenni þeirra sem hafa litla stjórn og/eða sjálfsvirðingu en þegar fólk telur aurana og vill ekki gefa af sér þá bendir það til þess að fólkið setji hluti ofar manneskjum. Það er ekki sexý að stunda kynlíf með fólki sem heldur aftur af sér og vill ekki gefa af sér, líkamlega og tilfinningalega. 

8.  Ástúðleg snerting -- Að sýna blíðu og ást í verki. Koss aftan á hálsinn, lófi sem leggst yfir gatið á hnénu á buxunum mínum. Leggja höfuðið á brjóstkassa minn til að sýna að þarna líður honum vel. Maður sem elskar snertingu bara af því hún er snerting en ekki upphaf á kynmökum, - það er kynæsandi.   

9. Núvitund -- Það er ekki langt síðan ég laðaðist að mönnum sem höfðu svo mikinn metnað að maður hélt þeir væru vélmenni, knúnir af mótor. Nú hef ég komist að því að slíkur "metnaður" er oftast bara gríma fyrir óöryggi, reiði og ágirnd en allt eru það síður eftirsóknarverðir eða kynæsandi eiginleikar í fari karlmanna. Núvitund, hæfileikinn til að dvelja í núinu og njóta líðandi stundar er hæsta stig metnaðar að mínu mati af því þetta kallar á gríðarlega skuldbindingu sem er ekki fyrir byrjendur. Maður sem sendir frá sér yfirvegað sjálfsöryggi og getur haldið ró sinni þó sitthvað gangi á, slíkur maður gerir mig veika í hnjánum. 

10. Jafnræði -- Eini staðurinn sem ég vill láta ráðskast með mig er í svefnherberginu og meira að segja þar kallar það á mitt samþykki fyrirfram. Á öllum öðrum sviðum lífsins vil ég mann sem gerir ekkert til að reyna að ná stjórn á mér. Ég vil jafnræði, gagnvirkni, samskipti, málamiðlanir og virðingu. Ég hef hvorki tíma né þolinmæði fyrir menn sem leika leiki og reyna að stjórna kvenmönnum svo að þeim líði meira eins og karlmönnum. 

11. Kynferðislegt sjálfsöryggi -- Kynferðislegt sjálfsöryggi hefur ekkert að gera með reðurstærð, mjúkar hreyfingar eða hvað hann kann margar stellingar í rúminu. Kynferðislegt sjálfsöryggi karlmanns verður áberandi fyrir mér þegar hann skynjar þarfir mínar án þess að það sé rætt. Þegar hann áttar sig á hvernig líkami minn og andardráttur bregst við honum og því sem hann gerir. Þegar hann kallar fram löngun hjá mér til að vera til staðar í augnablikinu, undirgefin og bljúg. Kynorkuhlaðinn karlmaður sem hefur fullkomna stjórn á aðstæðum og hvílir vel í kynferðislegri tjáningu sinni breytir mér í andstutta, undirgefna dís á augabragði. 

„Mörg af þessum 11 atriðum voru ekki á listanum þegar ég var um tvítugt,“ skrifar Erica að lokum og bætir við að á þeim aldri hafi hún heillast af gleiðgosalegum viðskiptajöfrum sem gengu saman í hópum og áttu flotta bíla. „Það er reyndar ekkert að slíkum mönnum en þegar innihaldið er ekki til staðar til að fylla upp í pakkann þá fer ímyndin fyrir lítið,“ segir þessi flotta dama að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál