Er yfirmanni þínum annt um þig?

Brynja Bragadóttir doktor í vinnusálfræði.
Brynja Bragadóttir doktor í vinnusálfræði.

„Í síðustu pistlum mínum hef ég verið að skrifa um dökku hliðar lífsins, svo sem einelti á vinnustöðum, kulnun og streitu. Mig langar í þetta skipti að snúa blaðinu við og skrifa um björtu hliðarnar. Það sem þessi pistill fjallar um er umhyggja á vinnustað,“ segir Brynja Bragadóttir doktor í vinnusálfræði í sínum nýjasta pistli: 

Það er oft talað um að það sem greinir á milli góðra og slæmra yfirmanna sé það að góðir yfirmenn sýna starfsmönnum sínum umhyggju. Einnig er oft talað um að starfsmenn yfirgefi ekki störf sín eða vinnustaði sína heldur yfirmenn sína.   

Ég er sannfærð um að þetta er rétt. En hvað þýðir þetta orð - umhyggja? Umhyggja er í mínum huga það sama og góðvild. Þegar við sýnum öðru fólki umhyggju, þá erum við að sýna því góðvild. Umhyggja felur þó í sér fleira, svo sem virka hlustun og að sýna annarri manneskju einlægan áhuga. Umhyggja hlýtur líka að fela það í sér að hjálpa öðrum – af gleði.

Hvers vegna skiptir umhyggja máli? Umhyggja skiptir einstaklinginn að sjálfsögðu máli. En hún skiptir vinnustaðinn líka máli.

Rannsóknir sýna að umhyggja á vinnustað hefur jákvæð áhrif á hollustu, afköst og sköpunarmátt. Áhrif umhyggju á heilsu eru einnig þekkt, en umhyggja stuðlar að bættri heilsu, bæði andlegri og líkamlegri.

Á vinnustöðum þar sem umhyggja ríkir eru starfsmenn öruggir. Þeir vita til hvers er ætlast af þeim og þeir finna að störf þeirra skipta máli. Þeir finna það líka að yfirmönnum er annt um þá, bæði sem starfsmenn og einstaklinga. Umhyggja er ávallt mikilvæg en þó einkum á tímum breytinga. Breytingum fylgir oft óöryggi og streita og getur umhyggja dregið úr slíkum áhrifum.

Margt af því sem umhyggja felur í sér er einfalt í framkvæmd. Það er t.d. einfalt að hrósa og sýna öðrum áhuga. Það er líka einfalt að gleðjast með öðrum. Við vitum þetta öll en hversu dugleg erum við að iðka umhyggju? Ég skora á alla yfirmenn sem lesa þennan pistil að fjölga þeim skiptum sem þeir hrósa starfsmönnum sínum.

Um leið skora ég á alla að hrósa og sýna öðru fólki áhuga, hvort sem er í vinnunni eða annars staðar. Það gerir lífið léttara og skemmtilegra!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál