Ósætti verður til vegna tilfinninga

Elmar Hallgríms Hallgrímsson lektor við Háskóla Íslands, lögmaður og þjálfari …
Elmar Hallgríms Hallgrímsson lektor við Háskóla Íslands, lögmaður og þjálfari hjá Dale Carnegie. Kristinn Ingvarsson

Elmar Hallgríms Hallgrímsson er formaður Sáttar, sem er félag sáttamiðlara. Félagið fagnar 10 ára afmæli um þessar mundir en í samfélagi eins og okkar veitir víst ekki af sáttamiðlun.

„Sáttamiðlun er leið til þess að leysa úr ágreiningi á milli aðila. Í sáttamiðlun felst að hlutlaus þriðji aðili hjálpar deiluaðilum sjálfum að komast að lausn deilunnar. Það er afskaplegt mikilvægt að hafa í huga að í sáttamiðlun er það ekki í höndum annars eins og t.d. dómara að ákveða hver niðurstaðan eigi að vera heldur komast deiluaðilar sjálfir að samkomulagi með aðstoð sáttamiðlara,“ segir Elmar.

Það vakna ýmsar spurningar þegar orð eins og sáttamiðlun er nefnt. En er hægt að sætta alla?

„Það er mikilvægt að þeir sem taka þátt í sáttamiðlun hafi það viðhorf að vilja ná saman enda er þetta þeirra „show“. Ef aðilar mæta með neikvætt viðhorf til sátta í sáttamiðlun er líklegt að hún verði ekki árangursrík. Ef það er deila til staðar þá hlýtur að vera æskilegt að vilja koma að lausninni í stað þess að einhver annar ákveði hana án aðkomu deiluaðila. Hér getur því reynt á sannfæringarkraft sáttamiðlara við að mála þessa mynd upp fyrir deiluaðila þar sem aðilum getur verið nokkuð heitt í hamsi.“

Hvað trix eru vænlegust þegar kemur að því að sætta fólk?

„Árangursríkur sáttamiðlari þarf að vera öflugur í mannlegum samskiptum, búa yfir góðri spurningatækni, vera meðvitaður um mikilvægi virkrar hlustunar og umfram allt vera tilbúinn að takast á við ýmsar tilfinningar deiluaðila.“

Hvernig hugsið þið sáttamiðlun fyrir viðskiptalífið?

„Í raun má segja að sáttamiðlun nýtist með tvenns konar hætti fyrir viðskiptalífið. Annars vegar getur sáttamiðlun komið til þegar fyrirtæki eru að deila sín á milli, t.d. varðandi ágreining um efni samnings. Hins vegar þegar deilur eiga sér stað innan fyrirtækja, t.d. vegna skipulagsbreytinga innan fyrirtækja.“

Er mikið ósætti á milli fólks í viðskiptalífinu?

„Ég myndi kannski ekki segja að það sé mikið ósætti á milli fólks í viðskiptalífinu. Það er þó merkilegt að horfa til þess að mörg fyrirtæki eiga aðild að alls konar dómsmálum sem án efa mætti leysa með sáttamiðlunarleiðinni. Hér er ég sér í lagi að horfa til deilumála sem hægt væri að kalla minniháttar.“

Hvað er það sem gerir það oftast að verkum að fólk verði ósátt?

„Við erum öll mannverur með tilfinningar. Það er einmitt sú staðreynd sem leiðir til þess að deilur verða til. Við verðum sár, reið eða finnst okkur vera hafnað eða ekki metin að verðleikum. Þá er það líka ansi oft misskilningur sem leiðir til þess að ósætti kemur upp enda sjáum við oft hlutina með ólíkum hætti.“

Er einhver ein staðsetning betri en önnur sem fundarstaður þegar kemur að því að sætta fólk?

„Mér finnst alltaf mikilvægt að sáttamiðlun fari fram á hlutlausum stað. Það þarf að vera algjört traust þegar sáttamiðlun á sér stað og hlutlaus staðsetning er mikilvægur þáttur í því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál