Fimm ávanar sem hrekja fólk í burtu

Fæst viljum við hrekja fólkið í kringum okkur á brott.
Fæst viljum við hrekja fólkið í kringum okkur á brott. mbl.is

Fæst viljum við hrekja fólkið í kringum okkur á brott. Nokkrir skapgerðareiginleikar eru líklegri til þess en aðrir. Flest könnumst við við þá, en áttum okkur kannski ekki á að við séum sjálf sek um þessa neikvæðu hegðun.

Pistill um þessar leiðinlegu venjur, ásamt ráðum við þeim, birtist fyrst á Entrepreneur.

Þú ert niðurdrepandi
Öll þekkjum við svona fólk. Það kvartar, kveinar og kveinkar sér yfir því að líf þess gangi ekki sem skyldi og þráir ekkert heitar en að deila því með þér.

Hvernig veistu ef þú tilheyrir þessum hópi? Taktu eftir því hvað þú talar oftast um. Er það þitt fyrsta verk að tuða yfir umferðinni þegar þú mætir til vinnu á morgnana? Passar þú þig á að greina félögum þínum frá því hversu lítið þú hvíldist um nóttina, eða að þú sért að drukkna í verkefnum?

Ef þú kannast við þetta er að öllum líkindum kominn tími til að breyta svolítið út af vananum.

Hvað er til ráða? Þetta er ekki flókið, en samt engu að síður nokkuð snúið. Vendu þig af því að þusa um hluti sem reita þig, og aðra, til reiði. Í hvert sinn sem þú ert í þann mund að fara að tuða skaltu reyna að taka eftir einhverju jákvæðu, eða góðu.

Það má alltaf finna jákvæða punkta, finndu þá og breyttu um umræðuefni.

Þú talar út í eitt
Kannast þú við að vera í kringum fólk sem getur ekki, fyrir sitt litla líf, þagað. Fólk sem talar svo mikið að þú átt þér engrar undankomu auðið.

Getur verið að þú eigir heima í þessum hópi? Ef fólk tvístrast þegar þú nálgast eða svarar þér með stuttaralegum eins atkvæðis orðum í von um að hrinda ekki af stað orðaflaumi getur verið að þú þurfir að skoða þinn gang.

Hugaðu að líkamstjáningunni, ef fólk stendur oft þegar þú átt í samræðum við það getur það verið merki þess að það sé að reyna að komast undan.

Hvað er til ráða? Góðu fréttirnar eru að auðvelt er að laga þennan leiða ávana. Bara ekki tala svona mikið. Vendu þig á að hlusta á fólkið í kringum þig og gefðu því tækifæri á að koma skoðunum sínum á framfæri. Prufaðu til dæmis að telja upp að þremur í huganum áður en þú byrjar að gaspra, með því móti getur þú verið viss um að grípa ekki fram í fyrir neinum.

Þú ert utan við þig
Ert þú alltaf í símanum, hringjandi, sendandi SMS eða hangandi á Facebook þegar aðrir eru að reyna að eiga við þig orð, eða á fundum, eða jafnvel þegar þú ert úti að borða? Gettu hvað, það er hræðilega leiðinlegur ávani.

Hvernig veistu að þú tilheyrir þessum hópi? Ef þú hváir oft á dag: „ha, hvað sagðirðu?“ er það nokkuð augljóst merki þess að þú sért ekki að veita fólkinu í kringum þig næga athygli.

Ef þú verður fyrir stöðugum truflunum vegna rafmagnstækja getur verið sniðugt að skilja símann, eða spjaldtölvuna, eftir heima næst þegar þú bregður þér af bæ.

Það getur verið erfitt að venja sig af því að hangsa tímunum saman í netheimum, en það mun líklega bæta sambönd þín við fólk af holdi og blóði.

Þú ert yfirlætisfullur
Ef þú veist meira um ákveðið málefni en aðrir er vænlegra til árangurs að fræða þá, í stað þess að tala niður til þeirra. Yfirlæti er hræðilega leiður ávani, sem er vís til þess að hrekja fólk á brott.

Hvernig veistu að þú sýnir þessa glötuðu hegðun? Best er að líta á fólkið í kringum þig. Ert þú vanur að rétta fram hjálparhönd, eða áttu það til að tala niður til þess. Hversu margir leita til þín í leit að ráðleggingum, eða hjálp af einhverju tagi.

Taktu eftir því hvernig þú kemur fram við aðra. Ert þú ein/n af þeim sem býður fram ráðleggingar þegar fólk er ekki að leitast eftir þeim (sem er annað form yfirlætis)?

Í stað þess að predika óumbeðið yfir fólki skaltu rétta fram hjálparhönd þegar þú ert beðin/n sérstaklega um það. Verði einhverjum á í messunni skaltu bjóða fram aðstoð þína, í stað þess að skammast í viðkomandi.

Þú ert óeinlægur
Þú þarft ekki að vera sammála öllum. Það er vænlegra til árangurs að segja það sem hvílir þér á hjarta, í stað þess að segja það sem þú heldur að aðrir vilji heyra.

Tvær meginástæður er að finna fyrir skapgerðarbrestinum, margir hverjir sem af honum þjást eru annaðhvort óöruggir, eða yfirlætisfullir.

Ert þú hrædd/ur um að fólki muni ekki líka við þig ef þú ert því ósammála? Hefur þú miklar áhyggjur af áliti annarra? Sannleikurinn er sá að flestir kunna að meta það þegar fólk kemur hreint fram. Það er enginn að segja að þú þurfir að vera illkvittinn, eða að þú þurfir að þröngva skoðunum þínum upp á aðra.

Ef þú ert ósammála, en þorir ekki að segja það, getur verið gott að segja bara ekki neitt. Þegar þú hefur síðan byggt upp sjálfstraust þitt getur þú farið að segja fólki skoðun þína á öllu mögulegu.

Mikilvægast er að hætta að samsinna, eða samþykkja hluti sem þú ert mótfallin/n eða vilt alls ekki gera.

Fólk kann að meta jákvæðni!
Fólk kann að meta jákvæðni!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál