Fögnuðu brúðkaupinu með tveggja mánaða reisu um Asíu

Þau Helena Björk Valtýsdóttir og Guðni Þór Björgvinsson gengu í hjónaband í júní 2015. Veislan var frekar lítil, þar sem allra nánustu fjölskyldu og vinum þeirra var boðið að sögn Helenu. En nokkrum dögum síðar tók heljarinnar tveggja mánaða ferðalag um Asíu við. Á ferðalagi sínu kynntust þau nýjum vinum og fengu innsýn í öðruvísi menningu. Þau segja minningarnar úr ferðinni vera þeim afar dýrmætar. 

Helena og Guðni fengu aðstoð við skipulag ferðarinnar hjá ferðaskrifstofunni Kilroy. „Þau sáu um að finna fyrir okkur flug og bókuðu fyrir okkur ferð með GAdventures sem heitir Indochina Discovery, það er 30 daga hringferð sem byrjar og endar í Bangkok í Taílandi og farið er í gegnum Kambódíu, Víetnam og Laos. Restina af ferðinni ætluðum við að plana upp á eigin spýtur,“ segir Helena.

„Frá Íslandi flugum við til Bangkok í gegnum Kaupmannahöfn og Doha í Katar. Þar hittum við ferðafélagana og leiðsögumanninn sem við áttum eftir að ferðast með næstu 30 dagana. Áður en við lögðum af stað vorum við smeyk við að fara að ferðast með hópi sem við þekktum ekki en eftir ferðina erum við mjög glöð að hafa gert það því við bæði sáum og gerðum hluti sem okkur hefði aldrei tekist að gera ein. Svo kynntumst við í leiðinni skemmtilegu fólki sem við erum enn í sambandi við.“

Kynntust fljótt fátæktinni

„Frá Bangkok fórum við strax til Kambódíu, þar sem við skoðuðum gömul musteri, lærðum um þjóðarmorðin og fengum fyrsta skammtinn af óreiðunni og fátæktinni sem einkennir sum svæði í SA-Asíu. Þaðan var ferðinni svo heitið til Víetnam, þar sem við fórum á matreiðslunámskeið, til klæðskera, lærðum um Víetnamstríðið frá öðru sjónarhorni, fórum á kajak um Halong-flóa og kynntumst menningunni,“ útskýrir Helena. Þá var förinni heitið til Laos. „Hápunkturinn þar var tveggja daga sigling upp Mekong-ána, sem hefði verið frekar leiðinleg ef hefði ekki verið fyrir lítið þorp sem við stoppuðum í yfir nótt. Þar fengum við að sofa í húsunum hjá íbúunum, strákarnir í sér húsi og stelpurnar í sér húsi, og um kvöldið komu allir krakkarnir í þorpinu til að tala við okkur.“

„Við komum svo til Chiang Mai í Taílandi, sem er nokkurs konar höfuðstaður norðursins hjá þeim. Svipað og Akureyri er fyrir okkur sem búum á suðvesturhorninu. Allavega jafn kósí. Þar fórum við á matreiðslunámskeið sem var alveg hrikalega gott því við fengum á einum eftirmiðdegi að fara á alvöru markað, kaupa í matinn og kennslu á því hvaða brögð verða til með hvaða kryddum og jurtum í taílenskum mat. Þetta ásamt öllum mismunandi stöðunum sem við borðuðum á var stór hluti af ferðinni því við erum mikið matfólk og finnst gaman að elda. Þegar við vorum búin að vera í Chiang Mai ákváðum við að yfirgefa hópinn okkar einum degi fyrr og flugum til Singapúr til að komast aðeins í smá vestræna menningu áður en við fórum aftur til Taílands og vorum restina af tímanum okkar á lítilli eyju sem heitir Koh Tao. Eyjan er þekkt fyrir að vera höfuðstaður köfunar á þessu svæði, ógrynni af köfunarskólum býður þjónustu sína þarna til að fá köfunarréttindi og margir flottir köfunarstaðir eru nálægt eyjunni,“ segir Helena. Hún og Guðni nældu sér í köfunarréttindi á eyjunni og eru sammála um að köfun sé eitt það skemmtilegasta sem þau hafi gert.

Fegin að komast aftur í kuldann

„Frá eyjunni fórum við svo aftur til Bangkok, þaðan sem við flugum aftur heim til Íslands í gegnum Katar og Svíþjóð með daglöngu stoppi í Stokkhólmi. Þegar við löbbuðum út úr flugvélinni í Stokkhólmi var súld og kalt og það var svo góð tilfinning af því að hitinn hafði eiginlega aldrei farið undir 30 gráður alla ferðina. Okkur þykir ótrúlega vænt um minningarnar okkar úr þessari ferð. Fólkið þarna er heilt yfir mjög gestrisið og við höldum að allir hafi gott af því að fara í ferðalag fjarri okkar vestræna heimi, bæði til að skilja það að það fæst ekki allt með peningum eða hlutum og að við sem búum hér á vesturlöndunum höfum það töluvert betra en okkur finnst stundum.“

Helena og Guðni héldu úti ferðabloggi á reisu sinni. Undir slóðinni www.thisisthestoryof.us má lesa nánar um ævintýrið og skoða myndir. „Við vorum alltaf dugleg að nýta dauðan tíma í rútum, lestum eða á kvöldin til þess að skrifa inn á síðuna okkar jafnóðum,“ segir Helena að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál