„Kynlífsdauðinn“ er að gera út af við hjónabandið

Kynlífsleysið veldur vandræðum í sambandinu.
Kynlífsleysið veldur vandræðum í sambandinu. mbl.is/GettyImages

Valdimar Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni, svarar spurningum lesenda Smartlands Mörtu Maríu. Hér fékk hann spurningu frá fimmtugri konu sem hefur enga löngun til að stunda kynlíf. 

Sæll.

Ég er fimmtug kona og búin með breytingaaldurinn. Margt hefur breyst við það, bæði gott og svo það sem er verra. Þetta verra er „kynlífsdauði“ - get ekki orðað það á annan hátt. Ég elska maka minn út af lífinu. Við höfum verið saman í yfir 30 ár. En vandamálið er að ég þarfnast hvorki kynlífs né mikillar snertingar. Ég er með þrjár tegundir af gigtarsjúkdómum. Kannski hefur það áhrif líka en ég er samt búin að vera með þennan sjúkdóm í 20 ár. Það er því eiginlega ómögulegt að kenna gigtinni um þetta.

En þessi „kyndauði“ er eitthvað sem ég hef verið að glíma við á annað ár núna. Maki minn er að gefast upp á mér, hann er mjög virkur. Hann upplifir höfnunartilfinningu. Segir að ég sé fjarræn, kuldaleg, ópersónuleg og fleira og fleira. Ég er orðin svolítið leið á því að þurfa alltaf að verja sjálfa mig. Er eitthvað sem þú getur ráðlagt mér með þetta?

Með kærri kvöl

B

Góðan daginn og takk fyrir að senda spurninguna.

Það er misjafnt hve mikilvægt kynlíf er fyrir hvern og einn. Það sem einum getur þótt lítið getur öðrum þótt of mikið. Það koma nokkrar hugleiðingar upp þegar einstaklingar tala um lítinn áhuga á snertingu og kynlífi og það fyrsta sem ég legði áherslu á er að skoða forsöguna. Hver hefur upplifunin verið af kynlífi almennt? Varst þú alltaf kynferðislega virk þangað til fyrir tveimur árum? Hefur þú alltaf haft þörf fyrir snertingu eða var það jafnvel ekki til staðar áður? Stundaðir þú kynlíf af persónulegri löngun eða gerðir þú það meira til að mæta þörfum maka þíns? Hvaða tilfinningar hefur þú gagnvart kynlífi, er það fallegt og jákvætt eða hefur þú upplifað eitthvað annað í tengslum við kynlíf, svosem sektarkennd eða skömm?

Fjölmargir hafa orðið fyrir erfiðri reynslu í tengslum við kynlíf einhvern tímann á lífsleiðinni. Það getur verið allt frá barnæsku eða unglingsárum, hvort sem um er að ræða óeðlileg kynni af kynlífi annarra, klámi, ótrúnaður og framhjáhöld eða kynferðislegt ofbeldi á einhvern hátt. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að það er mikilvægt að skoða afstöðuna til kynlífs almennt og ganga úr skugga um hvort fyrri áföll af þessu tagi hafi áhrif á hve vel gengur að mynda tilfinningalega nánd. Það er eitt að hafa minnkandi áhuga á kynlífi en annað að vilja síður snertingu eða nánd og í raun vekur það fleiri spurningar. Þessi atriði mæli ég með að þú skoðir með aðstoð fagaðila.

Ef ekki er um neitt af framangreindu að ræða er einfaldara að gera ráð fyrir að helsta ástæðan sé veikindi þín og sú líffræðilega breyting sem þú bendir á. Hvort sem um það er að ræða eða ekki þá er í öllu falli mikilvægt að tala um það við maka sinn hvaða væntingar maður hefur til kynlífsins, hvað það er sem maður vill og hvað ekki. Þannig geta hjón og pör unnið að samkomulagi hvað kynlífið varðar og reynt að koma á móts við þarfir hvort annars. Slíkt samkomulag þarf alltaf að byggjast á því að báðir aðilar geti sagt nei þegar þeir vilja ekki stunda kynlíf.

Ég mæli með því sem upphafspunkti að ganga úr skugga um hvort fyrri reynsla hafi einhver áhrif. Eins er mikilvægt að þú og maðurinn þinn ræðið saman þannig að þið skiljið betur hvort annað. Þá er hægt að athuga hvort náttúrleg lyf geti aukið kynkvötina eða ræða við heimilislækni um slíkt. Tilbreytingar geta líka ýtt undir jákvæða upplifun af kynlífi og það er nokkuð sem hægt er að bæta við í samtali við makann.

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

Valdimar Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál