Frá vonleysi til vonar

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

Í rúm 20 ár hef ég tekið að fullu þátt í lífinu og gengið vel. Unnið við það sem ég menntaði mig í og haft gaman af og m.a. ferðast víða um heiminn tengt mínum vinnum. Það eru vissulega viðbrigði að hafa lent í „burn out (kulnun)“ og orðið það andlega veikur og var hársbreidd frá því að kveðja tilveruna. Í dag er ég að hefja starfsendurhæfingu með það að markmiði að ná fyrri styrk og andlegri heilsu. Ég er líka að þiggja tekjur úr sjúkrasjóði stéttarfélags og Sjúkratrygginga. Staðan mín núna er viðbrigði frá því sem áður var. Ég skammast mín ekki fyrir það. Það er góð tilfinning,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli á Smartlandi Mörtu Maríu: 

Í þessum pistli vil ég deila reynslu minni að hafa „komið mér á lappir“ og komast í þá stöðu sem ég er í dag. Það er búið að taka mig 7 mánuði að ná nægjanlega góðri heilsu til að geta hafið formlega starfsendurhæfingu.

Sumarið 2015 var erfiðasti tími lífs míns og hreinasta martröð. Hluti af atburðarás sem hófst við skyndileg slit á trúlofun í mars 2015. Ég vissi ekki þá en hafði frá sumri 2013 þróað veikindi en einhvern veginn staðið mína plikt í vinnu og á heimilinu.

Í lok ágúst 2015 gafst ég upp eftir tveggja ára baráttu sem kostaði mig, fyrir utan slit á trúlofun, rúmlega aleiguna, húsnæðisleysi, peningaleysi, bílleysi, atvinnuleysi, geta ekki hýst börnin mín og orðinn andlega fárveikur. Ofsakvíða- og hræðsluköstin voru nokkur á dag og að gera út af við mig. Ég ákvað að binda enda á þjáninguna. Þetta er banvæn röskun/sjúkdómur sem ég barðist við. Hvað bjargaði mér er „moment“ sem ég mun aldrei geta úrskýrt. Né „heppnina“ að vera með símanúmer hjá sálfræðingi í símanum sem ég hafði strax samband við í örvæntingu. Þarna var ég staddur við upphaf bataferlisins í byrjun hausts 2015.

Af hverju varð ég „skyndilega“ veikur? Ég lenti í erfiðum áföllum í barnæsku sem mótuðu mig. Ég upplifði gríðarlegan sársauka sem ég hafði byrgt inni alla ævi. Sem barn þróaði ég með mér sjúklegan ótta við höfnun og meðvirkni. Ofsakvíði og -hræðsla voru mínar „default“ tilfinningar.

Hvernig stendur á því að áratugum seinna að ég veikist vegna áfalla barnæskunnar? Er það sanngjarnt? Mér leið líkt og ég hefði fengið tvöfalda refsingu. Fyrir að gera ekki neitt. Bara að vera til? Þetta hugsaði ég í upphafi bataferlisins

Ég hóf meðferð hjá sálfræðingi ásamt því að minn læknir vildi fylgjast með.

Hann greindi mig með „króníska áfallastreituröskun“ og „burnout (kulnun)“. Til viðbótar hafði meðvirknin og höfnunaróttinn frá barnæsku blossað upp í sjúklegt ástand. Ofsakvíði og -ótti voru megineinkennin mín. Síðar kom í ljós að ég hafði glímt við þunglyndi öll þessi ár.

Áfallastreituröskun er tvíþætt. Hefðbundin (Post Traumatic Stress Disorder-PTSD) og það sem má kalla króníska (Complex Traumatic Stress Disorter – C-PTSD). Munurinn er að þeir sem lenda í einstöku áfalli eiga hættu á að fá hefðbundna röskun en þeir sem hafa lent í síendurteknum áföllum (ofbeldi) eru í áhættuhópi að fá króníska röskun. Í þeim hópi er ég. Krónísk er mun erfiðari við að eiga og óvíst hversu mikið hægt er að ná til baka.

Að fá greiningu var léttir en ég trylltist svo af reiði. Hafði setið undir, að mér fannst, óbilgjarnri dómhörku af aðilum sem hefðu getað áttað sig á að ekki var allt allt í lagi hjá mér. Sálfræðingurinn var hreinskilinn. Myndi taka mig marga mánuði að ná mér að því leyti sem hægt væri að ná til baka. Ég væri að glíma við veikindi upp á líf og dauða og skildi ekki hvernig ég hafði þraukað þennan tíma.

Ég átti mjög erfitt að sætta mig við stöðuna. Sveið mig svo að geta ekki haft tök á stærra húsnæði og veita börnunum mínum skjól. Það var ömurlegra en orð fá lýst! Var því margt sem ég varð að sætta mig við í fyrstu bataþrepunum. Einnig að ná tökum á reiði út í fólk. Það gerði ég og að auki var ég svo illa farinn að það var ekki til skömm í mér. Hafði í veikindunum verið opinskár á t.d. Facebook svo þetta var ekki að trufla mig.

Sálfræðingurinn bað mig að ímynda mér að ég væri með gifs upp að mjöðm á báðum fótum og ætti að haga mér samkvæmt því fyrstu tvo mánuðina. Fyrr væri ég ekki tilbúinn í neina úrvinnslu. Markmiðið var að ná ró á huga, líkama og sál. Ég hafði ekkert þol gagnvart spennu, venjulegu dægurþrasi hvað þá að taka þátt í deilum við fólk. Kúplaði mig úr vinnu og gerði sem mér var ráðlagt. Var kippt úr samskiptum við ákveðið fólk sem aðrir sáu um. Ég var dauðhræddur á fyrstu skrefunum. Það var lán í óláni að ég var tengdur inn í 12 spora mannræktarsamtök og hafði gott „net“ í kringum mig. Hjálpaði mér mikið á batabrautinni. Ég hef alltaf verið orkubolti, ör, hvatvís og drifið í hlutunum. Það var stórmál að breyta. Í stað þess að vakna á morgnana og „tjúna“ sig upp fyrir vinnudaginn, þurfti ég að „tjúna“ mig niður. Ég byrjaði dagana að spila á gítarinn, skrifa, semja ljóð og lög. Það virkaði róandi á mig. Fann það. Ég hætti að horfa á fréttir. Tók út allt neikvætt og spennuvaldandi. Á hverjum degi fór ég út í náttúruna í göngur. Þar lærði ég að sækja orku og stilla hugann á ró. Á mér prívatstað við sæinn sem er eins og „hleðslustöð“ fyrir mig. Til að byrja með skipti ég deginum í þrjá parta. Morguninn, hádegi til kvölds og kvöldið. Gat þá fagnað litlum sigri á hverjum degi. Ég hef svo hitt sálfræðinginn reglulega í stöðumati. Geng alltaf ríkari út frá honum. Strákur fór að róast. Ég var búinn að ná árangri.

Sálfræðingurinn „tók af mér gifsið“ eftir tvo mánuði. Þá fékk ég fyrsta „kikkið“. Áþreifanlegur árangur. Ég varð svo glaður.

Nýtt prógramm til áramóta. Halda áfram og ljúka við eitt verkefni. Ég mátti ráða því. Ég var alltaf að skrifa og semja ljóð og nærtækt að taka eitthvað þannig. Ég átti erfitt með að einbeita mér að einu í einu. Hann bað mig að hætta því. Einbeita mér að einu verkefni og klára það. Þetta fannst mér mikil áskorun.

Ég valdi að skrifa. Ég hafði um vorið skrifað pistla og fengið birta. Fengu ágæt viðbrögð. Ég hafði ekki snert þetta síðan. Missti sjálfstraustið. Ég ákvað að prófa að skrifa pistil fyrir sjálfan mig og sjá hver yrði útkoman. Þá kom „breakthrough moment“. Ætti ég? Langaði en þorði ekki. Hvað ef einhver „drullar“ yfir pistilinn? Ég tók sénsinn og sendi á Heiðu Þórðar á spegill.is. Vonaði að henni myndi ekki líka við. Nei aldeilis ekki. Hún er skörp og skelegg og drífur í hlutunum. Birtum! Viðbrögðin voru undantekningalaust yndisleg. Tilfinningin var frábær. Steig inn í óttann og fékk það vel borgað til baka. Jók sjálfstraustið og -ímyndina mína.

Ég hélt áfram að skrifa pistla sem hafa birst víðar. Í dag skrifa ég reglulega pistla hjá Smartlandi Mörtu Maríu og mbl.is. Ég fór að rækta hluti sem ég hafði aldrei gefið mér tíma til en blundaði í mér. Að semja ljóð, skrifa og gutla við tónlist. Blundar einhver listamaður í mér. Á orðið bunka af ljóðum og „lögum“. Ég samdi ljóð í angist í veikindunum. Hjálpaði mér greinilega. Mér hefur liðið svo illa að ég get ekki munar hvenær ég samdi sum ljóðin!

Upp úr áramótunum fór ég að vinna markvisst í meðvirkninni í mér með hjálp 12 spora samtaka og er að vinna reynslusporin í samvinnu við trúnaðarmann.

Eftir 7–8 mánaða bataferli er himin og haf á milli stöðunnar minnar nú og í upphafi. Samt á ég töluvert í land. Sálfræðingurinn sagði að þetta tæki marga mánuði. Ég leyfði mér í bjartsýni að gæla við að ég yrði góður með vorinu 2016. Það er ekki að gerast. Ég sótti því um endurhæfingu hjá VIRK. Þar var mér úthlutaður ráðgjafi frá mínu stéttarfélagi og saman bjuggum við til þriggja mánaða endurhæfingaráætlun, til að byrja með. Það var góð ákvörðun og ég finn fyrir miklu öryggi að vera kominn undir handleiðslu aðila sem ég finn að vilja hjálpa og ég get treyst. Það er mikil úrvinnsla fram undan. Fer óhræddur í hana. Eftir að hafa upplifað algjört vonleysi er yndisleg tilfinning að finna að ég er tilbúinn að leggja allt á mig til að ná bata. Að ná bata er maraþonhlaup. Allt mitt líf hefur verið spretthlaup. Ég er að læra ótrúlega margt um mig og lífið svona aukreitis. Og nota tækifærið til þess.

Ég hef gætt mín að spá ekkert í hvenær ég geti farið að vinna. Ég hef gríðarlega mikla þekkingu og reynslu í því sem ég var að gera. Ætla ekkert að spá í þetta strax. Eitt er víst að ég ætla að gera það sem mig LANGAR en ekki það sem ég ÞARF. Ég hef uppgötvað hæfileika í mér sem ég hef aldrei ræktað fyrr en nú. Það er þessi þörf í mér að skapa. Eitthvað „listamannseðli“ sem vill brjótast fram.

Ég hugsa bataferlið í áföngum og næsti tímalega séð er út sumarið. Þótt ég verði í föstu prógrammi þá mun ég hafa rúman tíma. Á ég að skrifa bók um sjálfan mig? Þessi spurning byrjaði að glamra í hausnum á mér í haust. Ég fór oft á „hleðslustaðinn“ minn og spekúleraði. Var eitthvað sem sagði mér að nota tækifærið. Ef ég frestaði myndi ég aldrei gera það. Bókin yrði mín lífsreynslusaga. Svo tók ég ákvörðun. Já ég ætla að byrja og athuga hvað ég kæmist langt. Þetta yrði mitt uppgjör við fortíðina. Það er núna. Annars týnist tíminn.

Að vera með krónískan sjúkdóm þýðir að hann getur blossað upp aftur. Ég þarf að vanda mig og setja skýr mörk. Bæði gagnvart fólki og aðstæðum. Hef breytt lífsstílnum og -taktinum. Mikilvægt til að halda við batanum. Ég hef kynnst því ljótasta og fallegasta í fari fólks. Ég get samt ekki boðið mér upp á að lifa í reiði og gremju út í fólk. Ég þarf að fyrirgefa þeim sem mér fannst koma illa fram við mig. Þó að viðkomandi biðji mig ekki afsökunar. Þetta geri ég til að öðlast frelsi. Ég er að byggja allt mitt líf upp frá grunni. Í byrjun júní 2016 er ég staddur hér í dag. Sáttur og þakklátur. Minni mig sífellt á stöðuna í lok ágúst 2015. Þá vildi ég ekki vera hér!

Hamingjusamur maður er glaður í sinni og hjarta. Það er ekki tabú að verða andlega veikur. Þvert á móti. Hefur breytt mér til hins betra. Ef ég verð betri manneskja en ég var, er tilganginum náð. Þá var allur sársaukinn þess virði að fara í gegnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál