Hvernig á að tækla fyrrverandi?

mbl.is/GettyImages

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni svarar spurningum lesenda Smartlands Mörtu Maríu. Hér er hann spurður út í erfiðar fjölskylduaðstæður og hvernig sé best að bregaðst við: 

Sæll.

Ég og faðir sonar míns, sem er 6 ára, skildum þegar hann var 2 ára. Þá fór pabbi hans af landinu og hefur ekki hitt hann síðan. Hann hefur haft mjög lítið samband við hann síðan hann fór og þeir tala ekki sama tungumálið. Þau fáu skipti sem hann hefur hringt þá er ég á milli sem túlkur og finnst það lítið vandamál og geri það eftir bestu getu. En þegar þeir tala saman eru samtölin mjög innihaldslaus og mér finnst eins og þau séu ekki að gera neitt fyrir son minn. Þetta er eitthvað eins og „hvað segir þú gott?“, „sæti minn“, „pabbi elskar þig“ og „pabbi kemur að hitta þig í sumar“ (hann segir þetta alltaf og hann kemur aldrei). Hann hefur hringt stundum með kannski 2 mánaða tímabili og allt  upp í 6 mánaða bil. Hann hefur verið óliðlegur með að fá forræði (gekk samt á endanum) og lögskilnað (sem fór á endanum í gegnum dómstóla) og hefur verið með hótanir og er mjög skapstór og fer úr góðu í brjálað á innan við einni sekúndu. Sonur minn er stressaður, vill stundum ekki tala við hann, er feiminn, skilur ekkert, og mér finnst þetta bara ekki vera að gera honum neitt gott. En mér finnst ég ekki hafa rétt á að hindra samskipti þeirra á milli.

Ég fékk símtal frá þáverandi eiginkonu hans fyrir um það bil ári sem sagði hann vera eftirlýstan af lögreglunni fyrir líkamsárásir og fíkniefnasölu.

Hvað er best fyrir son minn? Hvernig samskipti eru best fyrir hann? Á ég að setja pabba hans einhverjar reglur?

Kær kveðja, ráðþrota móðir

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

 

Góðan daginn og takk fyrir spurninguna.

Það er mikilvægt að hafa þarfir barnanna að leiðarljósi í svona málum. Það er ýmislegt í frásögn þinni sem gæti flokkast sem skaðleg samskipti fyrir son þinn, en erfitt að dæma um án frekari upplýsinga. Þú nefnir að fyrrverandi maður þinn hafi ekki stjórn á skapi sínu og fyrsta spurningin er hvort það beinist gegn syni ykkar eða bara í samskiptum við þig? Ef það bitnar á syni þínum þá gæti það flokkast undir ofbeldi og það er augljóslega ekki jákvætt. Ef slík framkoma kemur fyrst og fremst fram í samskiptum milli þín og fyrrverandi mannsins þíns er mikilvægt að setja honum heilbrigð mörk hvað það varðar. Hafandi sagt það þá er nauðsynlegt að hafa í huga mikilvægi þess að samband sonar við föður sé til staðar og að réttur beggja til að eiga í samskiptum, sé virtur. Þú segir að þér finnist sjálfri eins og samtölin séu ekki að gera neitt fyrir son þinn en spurningin er hvað syni þínum finnst eða hvernig honum líður með það Ef hann kvíðir ekki samtölunum þá er jákvætt að hann geti tengst blóðföður sínum á einhvern hátt, jafnvel þó það sé lítið.

Best væri ef þið foreldrarnir getið rætt saman um þessi mál og hvernig samskiptunum er háttað. Það getur reynt á ef ykkar persónulegu samskipti eiga það til að stranda. Ef föðurnum væri alveg sama um son sinn þá hefði hann líklega aldrei samband en þar sem hann hefur fyrir því að vera í sambandi þá ber það vott um væntumþykju, þó svo að samskiptin séu lítil. Stundum lofum við börnunum okkar einhverju þegar við erum sjálf með samviskubit eða sektarkennd. Því miður leiðir það yfirleitt til meiri sársauka því oft á tíðum gengur okkur illa að standa við loforðin og samviskubitið læknast ekki á þann hátt. Ef þið getið sammælst um að ræða saman út frá þörfum sonar ykkar þá gæti það hjálpað til við að horfa framhjá ykkar eigin samskiptahegðun. Þið gætuð rætt hvað það er mikilvægt að það sé einhver regla á því hvenær hann heyrir í föður sínum og að það sé ekki verið að lofa honum einhverju sem ekki er staðið við. Á meðan föðurinn kemur ekki illa fram við son sinn þá mæli ég með því að þeir geti átt í samskiptum. Hvað ykkar samskipti varðar þá mæli ég með að þú leitir þér aðstoðar með hjá aðila sem hefur þekkingu því að setja heilbrigð mörk í samskiptum.

Með bestu kveðju-

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál