Andleg veikindi tabú innan íþróttahreyfingarinnar?

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

„Ég hreifst með íslenska karlalandsliðinu í fótbolta á EM í Frakklandi. Að baki liggur þrotlaus vinna allra sem að liðinu starfa. Við eigum fleiri tæknilega góða fótboltamenn en áður. Það er eitthvað sem segir mér að það sé vel hugsað um andlega þáttinn í kringum landsliðið. Það er verðugt rannsóknarefni fyrir menn um víða veröld að komast til botns í því hvernig 330.000 manna þjóð hafi komist í 8 liða úrslit og slegið út England sanngjarnt. Ég ætla að fjalla um andleg veikindi innan íþróttahreyfingarinnar og/eða -félaganna. Ekki sem stóra sannleik heldur eins og mín upplifun er í dag og deili reynslu míns knattspyrnuferils,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli á Smartlandi Mörtu Maríu. 

„Það vakti athygli er nokkrir þekktir íþróttamenn opinberuðu reynslu sína af að glíma við andleg veikindi á síðasta ári. Ég upplifði að mörgum væri brugðið, eins og það væri ólíklegt að svona kappar gætu orðið andlega veikir! Í kjölfarið skapaðist umræða um hvernig íþróttahreyfingin sé að sinna þessu. Það voru fá vandræðaleg svör.“

„Þá spurði ég mig hversu margt íþróttafólk er eða hefur verið andlega veikt en aldrei sagt frá? Einnig hvað hafa margir bráðefnilegir íþróttamenn flosnað úr íþróttum þessu tengt? Hefur einhver spáð í þetta? Ég myndi gera það ef ég væri starfsmaður ÍSÍ, sérsambandanna eða íþróttafélaganna! Vonandi eru einstök íþróttafélög að sinna þessu vel en ljóst að „regnhlíf“ íþróttahreyfingarinnar, ÍSÍ, hafði til ársins 2015 ekki sýnt frumkvæði! Því er freistandi að draga þá ályktun að litið hafið verið á andleg veikindi sem „tabú“ innan íþróttahreyfingarinnar. Eitthvað sem skiptir ekki máli og leysist bara. Einhvern veginn! Reynslusögur fyrrnefndra íþróttamanna sönnuðu þetta. Þeir földu veikindin sín. Ástæðan er sú sama og hjá öðru fólki. Skömm og ótti við álit annarra! Af hverju er ég að skipta mér af þessu? Jú, mér er málið skylt. Langar að gefa af minni reynslu ef ske kynni að hún geti hjálpað og/eða sem framlag til að opna umræðuna.“

Mín fótboltareynslusaga

„Sem barn glímdi ég við kvíða, ótta og þunglyndi og byrgði inni í mér mikinn sársauka. Íþróttirnar voru minn „bjargvættur“ í gegnum barnæsku fram á unglingsár. Ég var mjög efnilegur í mörgum íþróttagreinum en fótboltinn nr. 1. Ég átti mér þann draum að verða atvinnumaður í fótbolta. Þótt mér gengi vel í fótboltanum þá leið mér illa! Ég lærði sem barn að fela það og leika hlutverk til að enginn sæi hvernig mér liði! Ég skammaðist mín fyrir mína líðan! Svona náði ég að komast í gegnum yngri flokka.“

„16 ára tók ég djarfa ákvörðun, að skipta úr Þór í KA! Sumarið á undan leið mér og gekk illa. Ég var strax tekinn inn í meistaraflokk KA sem spilaði í efstu deild. Ég spilaði alla leiki á undirbúningstímabilinu og varð fúll að sitja á bekknum í fyrsta leik Íslandsmótsins á móti Val á Laugardalsvelli. Þetta lýsti hugarfarinu. Metnaður en á móti óþol gegn „mótlæti". Ég var valinn í unglingalandsliðið og allt gekk upp þetta sumar. Hápunkturinn var að spila á móti Manchester United á Akureyrarvelli fyrir framan 4 þúsund manns. Spila í sama liði og George Best og hetjan mín Arnór Guðjohnsen. Mér gekk frábærlega í leiknum og leið eins og stjörnu eftir hann. Aldrei grunaði mig að þarna væri hápunktinum á fótboltaferlinum náð! Hvað gerðist?“

„Kaldhæðnislegt að kynnast áfengi í gegnum íþróttir! Í fyrsta sinn leið mér vel! Ég varð að vera undir áhrifum til að geta verið gaur og ófeiminn við t.d. stelpur! Ég lék mér að eldinum þetta sumar og komst upp með það. Undir lok sumars kom fyrsti „bömmerinn“. Ég var að spila með unglingalandsliðinu í Færeyjum og kem heim á föstudegi. Vissi að það var leikur daginn eftir. Náði ekki síðustu æfingu fyrir leik en venjan var að hringja í þá sem áttu að vera í hópnum. Ég var í mikilli djammþörf og vonaðist til að eiga ekki að spila. Þarna komu fyrstu einkenni fíkilsins fram. Djammið togaði meira í mig en að spila leik í efstu deild. Var ábyggilega reynt að ná í mig en ákvað ekkert að athuga hvort ég væri í liðinu. Fór á djamm um kvöldið. Daginn eftir uppgötva ég (auðvitað) að ég átti að spila og fékk sjokk. Á næstu æfingu las þjálfarinn mér pistilinn fyrir framan hópinn. Ég brjálaðist, fannst ég niðurlægður. Í þessu reiðikasti skipti ég aftur í Þór sem ég dauðsá eftir þegar reiðin rann af mér! Svona var ég. Þetta er klassíkt dæmi um hvernig þunglyndið, kvíðinn og óttinn stjórnuðu mínu lífi algjörlega. Notaði síðan reiðina til að breiða yfir vanlíðan og mótlæti. Þessi ákvörðun var upphafið að endinum.“

„Íþróttirnar voru minn „bjargvættur“ í gegnum barnæsku fram á unglingsár,“ …
„Íþróttirnar voru minn „bjargvættur“ í gegnum barnæsku fram á unglingsár,“ segir Einar Áskelsson. Getty images

„Ég skrölti í 4–5 ár í viðbót en var orðinn svo þunglyndur, kvíðinn og með lélegt sjálfstraust að ég náði aldrei að sýna eðlilega getu. Var í leikmannahópi Þórs sem spilaði í efstu deild. Því verr sem mér gekk þeim mun meira sökk ég í fen þunglyndis. 19 ára hætti ég að mæta á æfingar á miðju sumri og lokaði mig af í vanlíðan. Ég var niðurbrotinn. Ég man ekki til þess að neinn hafi tékkað sérstaklega á mér eftir þetta. Tvö tímabil þar á eftir „seldi“ ég mig út á land að spila. Fyrra sumarið komst ég í vandræði vegna neyslu og flúði á endanum! Þjálfarinn þar hóf að þjálfa annað lið sumarið á eftir. Hann sá alla fótboltagetuna í mér og fékk mig aftur þó að þetta hafi gerst. Þar stóð ég mig betur þar til ég meiðist illa og missi lungann úr sumrinu. Ég spilaði ekki meiri fótbolta. Ferillinn var að klúðrast sem varð mér stórt áfall. Ég ákvað það ekki né vildi.“

„Eina leiðin sem ég kunni til að deyfa tilfinningar var að drekka. Á stuttum tíma var ég kominn á kaf í neyslu. Ég leit í spegil og sá fótboltatöffara. Spegillinn sýndi það ekki. Hann sýndi ungan mann í tómu tjóni. Það tók mig 2–3 ár að komast í svaðið. Ég fór í meðferð.“

„Eftir hana komst ekkert annað að en komast í fótboltann aftur! Ég mætti á æfingar með Þór. Meiðist í hnénu og beint undir hnífinn. Stuttu síðar var hitt hnéð skorið. Mér sagt að gleyma öllu sem heitir keppnisíþróttir! Þetta var annað áfall. Ég dró mig í skel. Ég gat ekki horfst í augu við staðreyndir. Ég féll í enn harðari neyslu. Mín viðbrögð við sársauka! Ég var þjáður af kvíða, ótta, þunglyndi og alkóhólisma. Öll sjálfsvirðing mín var bundin við fótboltastrákinn sem var. Gaurinn sem spilaði á móti Man.Utd! Ég gat ekki horfst í augu við sjálfan mig sem persónu. Ég fór djúpt niður andlega. Fyrir mér var lífið búið á þessum tímapunkti!“

„Kvíði, ótti og þunglyndi, og síðar alkóhólismi, voru ástæðan fyrir að minn ferill fór í vaskinn. Andleg veikindi! Hefði verið hægt að grípa inn í? Já. Það var aldrei spurt hvernig mér liði. Ef þjálfarar hefðu verið vakandi yfir leikmönnum þá hefði verið augljóst að ekki var allt í lagi hjá mér. Samanber er ég hætti að mæta á æfingar á miðju sumri. Það var litið svo á að ég bæri ábyrgðina og bara nennti þessu ekki! Það tók mig mörg ár að komast yfir vonbrigðin og fyrirgefa sjálfum mér. Ég var bitur en fyrir löngu búinn að vinna úr því.“

Breytum viðhorfum

„Það er töluvert síðan mín saga gerðist. Flest breyst til batnaðar í fótboltanum. Nema, miðað við umræðuna, andlegt heilbrigði! Það stingur mig og ég skil ekki. Hvað er hægt að gera? Engin patentlausn en ég sé tvennt fyrir mér. Það fyrra snýr að fordómum og vanþekkingu sem virðist vera mikil. Í fyrsta lagi að forráðamenn íþróttafélaga, þjálfarar o.fl., afli sér þekkingar. Hitt að félögin fái til sín fagfólk til að fræða iðkendur. Ekki síst íþróttafólk sem getur miðlað af reynslu sinni. Það getur verið gríðarlega áhrifamikið. Ég veit að íþróttafélög eru meðvituð um eineltismál í barna- og unglingastarfi. Skiptir máli að börn fái upplýsingar sem fyrst. Læri að það sé ekki tabú að vera andlega veikur og enginn munur að glíma við andleg „meiðsli“ sem líkamleg! Íþróttafólk sem hefur greinst með andleg veikindi og fær viðeigandi hjálp getur náð góðum árangri sem aðrir. Þetta þurfa börn og unglingar að læra. Líka þeir fullorðnu sem eru smitberar rangra viðhorfa.“

Er aumingjalegt að verða andlega veikur?

„Í meistaraflokkum snýst allt um árangur. Sá sem slítur liðbönd fær aðstoð og skilning, og eðlilega ekki í standi til að keppa. Sá sem glímir við andleg veikindi, er hann hæfur til að stunda íþrótt sína af fullri getu? Mín reynsla var að því verr sem mér leið, minnkaði sjálfstraustið og ég gat ekki sýnt hvað ég gat. Það er staðreynd að andlegt ástand íþróttamanna hefur áhrif á getu. Leikmaður veikur af þunglyndi getur verið jafnóhæfur að spila eins og sá sem er með slitin liðbönd. Það sést bara ekki utan á honum. Viðbrögðin sem hann fær eru að hann er beðinn um að herða sig! Sá þunglyndi gerir það því hann þorir ekki annað. Þá kem ég með seinni tillöguna. Af hverju er ekki andlegt ástand leikmanna skimað reglulega líkt og líkamlegt? Flest félög eru með lækna og sjúkraþjálfara á sínum vegum fyrir líkamlegt heilsufar. Hvað með sálfræðinga og/eða geðlækna? Það þýðir ekki að varpa ábyrgð á íþróttafólkið og segja því að tjá sig. Þeir, sem líður illa, þora ekki að opinbera vanlíðan sína. Reyna allt til að fela hvernig þeim líður. Sumarið sem ég hætti að mæta á æfingar man ég vel eftir að hafa langað að tala við þjálfarann. Ég þorði það ekki. Mér sýnist að það hafi lítið breyst til batnaðar frá því ég hætti. Ég trúi því varla að þetta hafi ekkert breyst?“

Íþróttafólk eru manneskjur með tilfinningar

„Þeir sem verða andlega veikir eru þverskurður þjóðfélagsins. Staðreynd og íþróttafólk er ekkert undanskilið. Félögin ættu að vita að það eru líkur á að iðkendur séu að glíma við andleg veikindi og jafnvel ómeðhöndluð. Ávinningurinn af skimun á andlegu heilbrigði ætti að vera augljós.“

„Burtséð frá getu íþróttafólks skulum við aldrei gleyma að við erum að ræða um manneskjur með tilfinningar. Manneskjur í vanlíðan og það gæti verið um líf eða dauða að tefla. Það heyrast annað veifið fréttir af núverandi eða fyrrverandi íþróttamönnum sem taka eigið líf. Auðvitað vill enginn að það gerist hjá sínu félagi.“

„Í guðanna bænum ekki bíða eftir að það gerist áður en tekið er róttækt á málum,“ segir Einar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál