Stór mistök að undirbúa sig ekki vel fyrir skilnað

Sigrún Júlíusdóttir.
Sigrún Júlíusdóttir.

Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, er formaður stjórnar Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd og hefur rekið meðferðarþjónustuna Tengsl frá 1982. Sigrún hefur unnið fjölmargar rannsóknir um íslenskar fjölskyldur, hjónabönd og skilnaðarmál og mun hún flytja erindi á mybaby2016-ráðstefnunni í Hörpu sem fer fram um helgina, en þar verður boðið upp á almenna fræðslu, uppákomur og tilboð. Á fyrirlestri sínum á ráðstefnunni mun Sigrún meðal annars fjalla um skilnaði, kynhlutverk og börn.

Að sögn Sigrúnar hefur orðið mikil breyting í þróun skilnaðarmála á síðustu áratugum, hún telur hraðann í nútíma samfélagi vera meðal þess sem þar hafi haft áhrif. „Þetta er áhyggjuefni, hvernig rótið og hraðinn gerir fólki í vestrænum samfélögum oft erfitt að mynda djúp og náin tengsl. Á okkar tímum er líka algengt að fólki standi ógn af hugsuninni um að skuldbinda sig. Það á líka við um ákvörðunina um að eignast barn. Þess vegna er svo mikilvægt að undirbúa ungt fólk fyrir hugsanlega fjölskyldumyndun og veita fræðslu um hvað felst í fjölskylduábyrgð og hvernig er hægt að haga málum á góðan hátt. Hér þarf menntakerfi og velferðarþjónusta að styðja betur við verðandi foreldra og undirbúa þá fyrir þá miklu breytingu og hlutverkaumbrot sem verða þegar fyrsta barnið kemur í heiminn. Og margir vinnustaðir eru farnir að huga að þessu með eigin fjölskyldustefnu sem auðveldar fólki að samræma einkalíf og starf. Um þetta mun ég tala í erindi mínu á ráðstefnunni mybaby2016. Við sem stofnuðum verkefnið 1001 dagur verðum líka með bás með margvíslegu kynningar- og fræðsluefni og við viljum nota þetta tækifæri til að gefa kost á umræðu um mikilvægi þess að styrkja fyrstu tengsl og búa börnin okkar þannig betur undir að mæta því róti og hraða sem ég hef kallað sviptivinda samtímans. Ungbörn þurfa að geta reitt sig á traust og vernd foreldra sinna og ná þannig að mynda sterkan eigin innri kjarna sem bægir frá þeim kvíða og óöryggi um sjálf sig og aðra. Til þess þurfa foreldrar tíma, þekkingu og skilning,“ útskýrir Sigrún.

„Mikilvægast er að hafa ígrundað ákvörðun sína vel og unnið úr þeim tilfinningum sem tengjast slíku uppgjöri,“ segir Sigrún, spurð hvað sé það helsta sem fólk þurfi að hafa í huga ákveði það að skilja. „Það er misjafnlega snúið og fer eftir lengd og þróun sambandsins. Miklu skiptir hvort parið á barn eða börn saman, og einnig skiptir aðdragandi og orsök miklu. Parið þarf að ræða þetta vel saman því algengt er t.d. að annar sé ekki staddur á á sama stað og hinn í ferlinu, þ.e. gagnvart ákvörðun um skilnað. Þá er mjög gott, og stundum nauðsynlegt, að leita sér aðstoðar. Það á við hvort sem þau eiga saman börn eða ekki. Foreldrar þurfa að huga að börnunum, taka tillit til aldurs þeirra og þarfa og þá reyna að stilla saman strengina sem foreldrar. Það skiptir máli að velja heppilegan tíma fyrir samtal við börnin, hvernig þau eru undirbúin og hvernig foreldrarnir hafa hugsað sér fyrirkomulagið eftir þessa breytingu í lífi þeirra.“ Sigrún segir jafnframt að ein helstu mistök sem foreldrar geri í skilnaði sé að undirbúa sig of lítið. „Þá rekur fólk sig fljótlega á ýmsar hindranir og erfiðleika sem mögulega hefði verið hægt að komast hjá.“

Fólk orðið óhræddara við að leita sér hjálpar

Sigrún tekur þó eftir þeirri jákvæðu þróun að fólk leitar sér ráðgjafar frá fagfólki í auknum mæli. „Það leitar sér ráða bæði um sjálfa ákvörðunina og um hvernig sé hægt að eiga „góðan skilnað“. Mér finnst mjög ánægjulegt að foreldrar leita nú í vaxandi mæli fjölskylduráðgjafar um hvernig best sé staðið að skilnaðinum gagnvart börnunum, hvernig sé heppilegast að tala við þau um erfið mál og hvaða forsjár- og samskiptaform henti svo best.“

Spurð út í mál stjúpforeldra segir Sigrún stjúptengsl verða æ algengari, auðsýnilegri og viðurkenndari í okkar samfélagi heldur en áður var. „Slík tengsl eru hins vegar alltaf flóknari en fólk gerir ráð fyrir. Það gildir hér sem í öðru þegar um mannleg tengsl er að ræða, það er að gefa sér tíma, tala saman og fá aðstoð til að spegla eigin stöðu og rata heppilegustu leiðirnar. Rannsóknir hafa sýnt að ráðgjöf fyrir stjúpfjölskyldur, oft bara nokkur viðtöl, skila gjarnan hlutfallslega góðum árangri,“ segir Sigrún.

Sigrún segir alltaf æskilegt og oft nauðsynlegt að leita sér hjálpar fjölskylduráðgjafa við skilnað. „Fólk er orðið opnara og jákvæðara gagnvart því að fá ráðgjöf hjá viðeigandi aðila,“ segir Sigrún en þetta eru m.a. niðurstöður rannsókna og er nánar greint frá þeim í bók hennar og Sólveigar Sigurðardóttur, Eftir skilnað, sem kom út árið 2013. „Skilnaður er ekki sjúkdómur, truflun eða geðflækja heldur viðkvæmt tilfinninga- og samskiptamál, og það þarf skilning og þekkingu til að höndla þessi mál á uppbyggilegan og þroskavænlegan hátt. Fjölskylduráðgjafar hafa viðeigandi menntun til að veita pörum og fjölskyldum upplýsingar og leiðbeinandi ráðgjöf, en ekki síst eru þeir heppilegustu fagaðilarnir til að vinna úr erfiðum tilfinningum með fólki og fara með því í gegnum það þroskaferli sem skilnaður getur verið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál