Hvað kostar þú?

mbl.is/ThinkstockPhotos

„Það er ólíklegt að margir hafi reynt að svara þessari spurningu á rökréttan hátt enda erum við sennilega langt flest þannig skrúfuð saman að við teljum okkur alls ekki til sölu óháð því verði sem upp er sett. Samt gerist það oftar en margan grunar að við setjum á okkur ótrúlega lágan verðmiða. Ég hef oft séð það í mínu starfi sem hjónabandsráðgjafi að einstaklingar sem eru algerlega ómetanlegir eru búnir að setja sig á brunaútsölu án þess að hafa gert sér nokkra grein fyrir því. Í þessari grein ætla ég að fjalla aðeins um hvernig við verðleggjum okkur sjálf í ljósi fyrirgefningar,“ segir Theódór Francis Birgisson félagsráðgjafi hjá Lausninni í nýjum pistli:

Ég hef áður skrifað greinar um fyrirgefningu enda er hún afar mikilvægur þáttur í að aðstoða fólk við að byggja upp rómantísk samband og til að laga samband þar sem upp hefur komið framhjáhald eða annar þess háttar trúnaðarbrestur í sambandinu (Gordon, Baucom, & Snyder, 2005). Fyrirgefning er mjög misskilið fyrirbæri og oft heyri ég hjá fólki að það telji sig vera að samþykkja ranglætið sem það verður fyrir ef það fyrirgefur. Í þessu felst eðlislæg rangtúlkun á raunverulegri fyrirgefningu. Það sem raunverulega gerist í fyrirgefningu er að við leysum þann sem olli okkur særindum frá „skuld“ sem myndaðist við brotið þrátt fyrir að sá hinn sami eigi það alls ekki skilið.

Ég hef setið með mjög mörgum einstaklingum sem brotið hefur verið á með einum eða öðrum hætti. Makar sem haldið hefur verið framhjá, börn sem upplifa svik foreldra sinna við sig og foreldrar sem upplifa að börnin hafi komið illa fram við sig og þannig mætti lengi telja. Það sem ég hef tekið eftir er að óháð eðli brotsins er sársaukinn alltaf sama eðlis. Einstaklingar upplifa að ekki sé hægt að bæta fyrir brotið og að fullkomlega vonlaust sé að treysta þeim að nýju sem hefur brugðist. Þá kemur líka undantekningarlítið upp sú tilfinning að ef einhver fyrirgefi þá sé með þeim gjörningi verið að gera lítið úr brotinu, láta eins og þetta skipti ekki neinu máli. Ég sé það aftur og aftur hjá mínum skjólstæðingum að þessi hugsun er það sem oftast heldur fólki frá því að vilja fyrirgefa. Með því að fyrirgefa ekki fær sársaukinn næði til að vaxa og skyggja um leið meira og meira á lífsgæði og lífsgleði þess sem ber sársaukann. Með fyrirgefningu er sársaukanum gefið vel skilgreint pláss og síðan er unnið með hann í ferli lækningar og endurreisnar (Fincham, 2006).

En hvað er þá fyrirgefning og hvernig fyrirgefum við einhverjum. Fyrirgefning er hvort tveggja ákvörðun og ferli. Til að geta tekið ákvörðun um að fyrirgefa þarf viðkomandi að vilja fyrirgefa. Ég spyr mína skjólstæðinga iðulega hvort þeir vilji fyrirgefa og síðan hvort þeir telji sig geta fyrirgefið. Mín reynsla er sú að fyrra skrefið er erfiðara en það síðara. Það að vilja fyrirgefa vefst mjög oft fyrir fólki vegna fyrrnefndrar rangtúlkunar á því hvað fyrirgefning er. Skoðum þetta aðeins aftur. Sá sem brýtur á einhverjum myndar við það ákveðna „skuld“. Til að geta greitt tiltekna skuld þarf að vita hversu há hún er og í hvaða gjaldmiðli á að greiða hana. Ef við til dæmis tökum fyrir einstakling sem heldur fram hjá maka sínum. Viðkomandi myndar þar tilfinningalega skuld sem þarf að gera upp. Þar komum við að kjarna málsins: HVAÐ KOSTAR ÞÚ? Hvað þarf sá sem heldur framhjá maka sínum að borga mikið til að gera upp slíka skuld. Ætli 100.000 krónur dugi? Eða 100.000 evrur? Eða 100.000 pund? Eða 100.000.000 krónur?? Við finnum að sjálfsögðu aldrei gjaldmiðil né upphæð sem réttlætir slíkt brot. Það er ekki hægt að borga sig frá þeim vanda. Eina leiðin út úr þessu er því að fá sakaruppgjöf. Að skuldin sé afskrifuð. Sá sem fyrirgefur er þannig að gefa óverðskuldaða gjöf til þess sem brotið hefur gegn honum (Enright, Freedman, & Rique, 1998). Þannig má leiða umræðuna að því að sá sem ekki vill fyrirgefa sé í raun að segja „þú skalt borga fyrir skaðan“. Með því er líka verið að segja að skaðinn sé metanlegur. Ég hef aldrei á ferli mínum hitt mann, hvorki karl né konu, sem hefur getað metið slíkt til fjár. Reyndar er það svo að flestir sem ég hef hitt á starfsferli mínum gera sér alls ekki grein fyrir því hvað þeir eru dýrmætir. Ég hef heyrt og lesið að stór hluti meðferðaraðila hafa sömu reynslu. Það er sorglegt hversu algengt er að fólk talar sjálft sig niður og metur sig alls ekki að verðleika.

Það væri fjarri mér að gera lítið úr þeim sársauka sem þeir ganga í gegnum sem brotið er á. Ég trúi því hins vegar einlæglega að sé ekkert gert í sársaukanum valdi hann bæði líkamlegum og andlegum skaða sem einfalt er að komast hjá. Þar er hins vegar mikilvægt að ruglast ekki á hugtökunum einfalt og auðvelt, því að margt af því sem er einfalt er langt frá því að vera auðvelt. Þar kemur til leiðsögn faglærðra einstaklinga sem hafa persónulega reynslu af því sem þeir leiðbeina öðrum í slíku ferli. Slík leiðsögn gæti gert gæfumuninn og hjálpað þér að yfirstíga óttann við að fyrirgefa og komið þér á sporið í fyrirgefningarferlinu. 

Heimildir:

Enright, R. D., Freedman, S., & Rique, J. (1998). The psychology of interpersonal forgiveness. In R. D. Enright & J. North (Eds.), Exploring forgiveness (pp. 46-62). Madison: University of Wisconsin Press.

Fincham, F.D., Hall, J., Beach, S.R.H. (2006). Forgiveness in Marriage: Current Status and Future Directions. Family Relations, 55.4: 415-427.

Gordon, K., Baucom, D. H., & Snyder, D. K. (2005). Forgiveness in couples: Divorce, infidelity, and couples therapy. Í E. L. Worthington (ritstjóri), Handbook of forgiveness (pp. 407-422). New York: Routledge.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál