Peningamál leiddu til skilnaðar hjá þeim

Það hafa mörg hjónabönd farið í vaskinn vegna peningavandræða.
Það hafa mörg hjónabönd farið í vaskinn vegna peningavandræða. Getty images

Það er löngu vitað að fjármál valda gjarnan vandræðum í samböndum og hjónaböndum. Þessar frásagnir eru frá fólki sem skildi hreinlega vegna erfiðleika sem tengdust peningum á einn eða annan hátt. Samantektin er af vef Womenshealthmag.

„Við vorum rekin á sama tíma“

„Ég og minn fyrrverandi fórum í hjónabandsráðgjöf vegna þess að við rifumst stanslaust um peninga. Við vorum rekin á sama tíma og þurftum að vinna láglaunastörf í smástund. Við gátum varla borgað reikningana. Þetta var svo erfitt og leiddi til þess að við skildum að lokum. Við gátum ekki lagað hjónabandið vegna þess að við vorum heltekin af því að rífast um fjármálin,“ segir hin 31 árs Tracey.

„Skuldirnar leiddu til þunglyndis“

„Ég var skuldug þegar við giftum okkur. Þegar við höfðum verið gift í tvö ár var þetta orðið þunglyndislegt. Ég var mjög skuldug en hann hafði það gott fjárhagslega. Allt sem við keyptum var skráð á hans nafn og ég gat ekkert fjárfest sjálf. Þetta hafði áhrif á sambandið og mér fannst við ekki vera jafningjar. Við skildum eftir þriggja ára hjónaband. Ég náði mér ekki upp úr þunglyndinu sem fylgdi því að vera svona skuldug,“ segir ein 33 ára.

„Peningar voru það eina sem við töluðum um“

„Ég man ekki eftir að hafa rætt um neitt annað en peninga. Allt sem okkur langaði að gera snerist um hvað það myndi kosta og hvort við hefðum efni á hinu og þessu. Við vorum gangandi exel-skjal. Þetta gerði sambandið þreytandi. Ég ákvað að sækja um skilnað því það vantaði alla ástríðu og ást,“ segir hinn 34 ára Casey.

„Ég eyddi of miklu“

„Ég var með slæman ávana að maxa kreditkortið mitt. Ég var kaupalki í laumi en það komst upp um mig þegar bankinn var farinn að hringja heim. Þáverandi maðurinn minn komst svo í reikningana mína eftir að hafa verið grunlaus. Hann var svo reiður þegar hann komst að því að ég hafði gert okkur skuldug upp fyrir haus og sótti um skilnað,“ segir hin 42 ára Marissa.

„Ég þénaði meira en hann“

„Á þeim tíma sem ég gifti mig var ég í hlutastarfi í fatabúð. Maðurinn minn var forstjóri hjá tæknifyrirtæki, hann sá um að halda okkur uppi fjárhagslega. Svo byrjaði ég að huga að starfsferli. Eftir tvö ár var ég farin að þéna helmingi meira en hann. Honum mislíkaði það. Hann vildi vera sá sem þénaði meira í sambandinu. Við rifumst stanslaust um þetta og það var niðurlægjandi,“ skrifar ein 38 ára.

„Hann var ekki að þéna neitt lengur“

„Fyrrverandi maðurinn minn var rekinn. Hann sótti ekki um nýtt starf. Öll fjárhagsleg ábyrgð var sett á mig en launin mín nægðu ekki til að halda uppi tveimur einstaklingum. Ég hvatti hann til að sækja um vinnu en hann gerði það ekki. Eftir að hann var búinn að vera atvinnulaus í tvö ár sótti ég um skilnað,“ skrifar ein 29 ára.

Sparnaður er kúnst sem reynist mörgum hægara sagt en gert.
Sparnaður er kúnst sem reynist mörgum hægara sagt en gert. Getty images
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál