Framhjáhald ekki endilega endalok

Þórhallur Heimisson hefur staðið fyrir hjóna- og paranámskeiðum í fjöldamörg …
Þórhallur Heimisson hefur staðið fyrir hjóna- og paranámskeiðum í fjöldamörg ár. mbl.is / Árni Sæberg

„Galdurinn við þetta námskeið er að það er fyrir alla. Það hefur nýst vel fyrir þá sem eiga í vandamálum og líka fyrir hina sem langar að fá nýja sýn á lífið og nýjar hugmyndir um hvernig má gera gott hjónaband eða samband betra,“ segir Þórhallur Heimisson, prestur og ráðgjafi, en hann mun standa fyrir para- og hjónanámskeiði í janúar.

Þórhallur er enginn nýgræðingur þegar kemur að hjónanámskeiðum enda hefur hann haldið fjölmörg slík í gegnum tíðina, en hvers vegna ákveður fólk að skrá sig á námskeið hjá honum?

 „Það er alls konar fólk sem skráir sig. Ungt fólk og gamalt fólk sem er búið að vera lengi í sambúð. Sumir hafa átt í erfiðleikum og aðrir vilja krydda tilveruna. Ef það er eitthvað eitt sem einkennir þetta fólk er það kannski að fólk hefur gleymt sambandinu sínu. Það áttar sig jafnvel á því að það þarf að hlúa betur að sambandinu en það hefur gert hingað til,“ segir Þórhallur og bætir við fólk þurfi alls ekki að vera feimið við að mæta.

„Ég er oft spurður að því hvort fólk þurfi að tjá sig þegar það mætir á námskeiðið, standa upp og segja „ég heiti Jón Jónsson og hjónabandið mitt er í rúst,“ en það er ekki þannig. Það þarf enginn að tjá sig frekar en hann vill. Ég held fyrirlestra og fólk vinnur síðan með sínum maka. Margir eru stressaðir þegar þeir koma, en gleyma þó fljótt fólkinu í kring því hver og einn er í rauninni að vinna í sjálfum sér.“

Að rækta sambandið er vinna og fólk þarf að muna …
Að rækta sambandið er vinna og fólk þarf að muna eftir því að setja sambandið sitt í forgang. Ljósmynd / Getty Images

Námskeiðin byggjast upp á stuttum fyrirlestrum og verkefnavinnu, þar sem farið er í gegnum algeng vandamál og leiðir til að bæta úr þeim.

 „Fólk leggst í sjálfsskoðun og tekur sjálfspróf, bæði sem einstaklingar og sem par. Svo velti ég upp leiðum hvernig má bregðast við ýmsu sem upp getur komið og hvaða ráðum má beita. Síðan skoðum við hvernig má beita þessu til frambúðar, svo þetta sé ekki einhver skyndilausn. Námskeiðin enda síðan með því að ég sendi fólk heim með sjö vikna heimanámskeið, þar sem fólk heldur áfram að tileinka sér það sem við höfum verið að vinna með,“ segir Þórhallur.

Ekki hægt að rækta sambandið með pillu

 „Það getur allt mögulegt komið upp á, til að mynda áfengisneysla, framhjáhald og deilur um allt mögulegt. Oft er búið að hlaða svo mörgum vandamálum á ástina að fólk hefur tapað neistanum. Þá reynum við að ýta öllu þessu til hliðar og komast að því hvað varð um þennan neista. Þegar fólk gefur sér tíma, sest niður og talar opinskátt saman án þess að rífast, finnur það gjarnan kjarnann sem það vildi passa betur upp á. Þá gerist kraftaverkið, ef svo má segja. Ótrúlega margir finna aftur sína ást, og oft er það þannig að þegar maður hefur lent í hremmingum er maður tilbúinn að leggja ýmislegt á sig til þess að halda áfram að byggja hana upp. Ef það hefur til að mynda orðið framhjáhald segir fólk gjarnan að sambandið sé dauðadæmt, en það er ekki mín reynsla. Ef báðir aðilar eru reiðubúnir að vinna í málinu er oft hægt að bjarga sambandinu,“ segir Þórhallur, en er hann með einhver skotheld ráð sem pör geta tileinkað sér til þess að halda neistanum í sambandinu gangandi?

 „Fyrsta þumalputtareglan er sú að það eru ekki til neinar þumalputtareglur. Maður getur ekki ræktað sambandið með einhverri pillu. Þetta er ekki eitthvað sem þú gerir einu sinni og aldrei aftur. Að rækta sambandið er vinna og maður þarf að muna eftir að setja sambandið sitt í forgang. Líka þegar maður er þreyttur, börnin eru veik og vinnan er leiðinleg. Það er svo auðvelt að láta sambandið mæta afgangi og þá er það bara farið,“ segir Þórhallur að endingu.

Nánari upplýsingar um paranámskeiðin veitir Þórhallur í gegnum tölvupóst, en hægt er að senda honum línu á netfangið thorhallur33@gmail.com.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál