Þakklátur fyrir að missa allt!

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

Einar Áskelsson hefur leyft lesendum Smartlands að fylgjast með bataferli sínu en hann vann yfir sig 2015 sem hafði alvarlegar afleiðingar í för með sér. Í sínum nýjasta pistli talar hann um þakklætið: 

Saga um þakklæti í lok árs 2016.

Ég hef aldrei átt eins lítið af peningum og veraldlegum hlutum og í dag. Sl. 15 mánuðir hafa farið í erfiða vinnu að ná heilsu á ný og ég mátt þakka fyrir að geta búið einn í herbergi úti í bæ. Á þessum 15 mánuðum hefur margt breyst og ekki síst mitt hugarfar til lífsins og tilverunnar. Langar að útskýra það og hvernig mér er að takast að breyta gildismatinu og lífsviðhorfum. Verð í stuttu máli að rifja upp veikindasöguna í þessu skyni.

Flutti til Hafnarfjarðar frá Mosó í byrjun árs 2013 og hóf sambúð. Ég var fyrir sambúðina á þessum tímapunkti í góðu formi andlega og líkamlega, bjó í eigin íbúð undir mig og börnin, átti bíl, í góðri vinnu og fjármálin stabíl. Leið vel og á góðu róli í lífinu. Sumarið 2013 byrja einkenni veikindanna með kvíða- og óttaköstum. Ég trúði ekki að það væri ástæða að hafa áhyggjur. Gerði ekkert nema að skrifa mig frá þessu. Fljótlega byrjuðu veikindin að grassera, meðvirknin og höfnunaróttinn líka. Mjög lúmskt og ég tók ekki eftir neinu. Mér fór að líða tilfinningalega nákvæmlega eins og ég var sem barn. Þessi veikindi eru háalvarleg og lífshættuleg ef ekkert er gert. Fólk tekur eigið líf í örvæntingu til að losna undan hræðilegum kvölum sem fylgja t.d. ofsakvíða- og óttaköstum

Sambúðinni var slitið í mars 2015. Ég var þá orðinn fárveikur án þess að átta mig. Fer ekki nánar í það en þrjóskast við þar til í byrjun september 2015. Þá var staðan mín orðin andstæðan við þegar ég flutti til Hafnarfjarðar. Ég var búinn að missa allt. Sambúðin, húsnæðislaus, peningalaus, fjármál í uppnámi, fárveikur og heilsulaus, atvinnulaus, ekki sinnt börnunum og algjörlega vonlaus út í tilveruna. Hvað gerðist? Hvernig gat þetta gerst? Ekki var ég fullur! Átti eftir mig og börnin og logandi hræddur að missa þau. Staðan mín í lífinu hafði aldrei verið erfiðari. Hef ég þó þurft að rífa mig upp af rassgatinu áður.

Auðveldast hefði verið að leggjast í sjálfsvorkunn og líklega fengið skilning á því. Gat talið upp óralangan lista yfir það sem ég hafði tapað á þessum stutta tíma. Ekkert til að þakka fyrir. Ekkert?

Mig langaði ekki að deyja en áður en ég vissi ég væri veikur þá virtist það skársta leiðin og best fyrir alla. Ég var svo mikið flak að það blés í gegnum mig. Orkulaus og varnarkerfið brunnið. Þoldi enga streitu né áreiti. Fékk skilaboð um að það myndi taka mig allt að 2 árum að ná heilsu. Fyrstu 3 mánuðina var ég í bómull. Mínir nánustu tóku yfir öll samskipti við fólk í kringum og mér bannað að vera í samskiptum við tiltekna aðila. Nú 15 mánuðum síðar hefur, eins og ég nefndi, veraldleg staða mín ekkert breyst. Listinn sem ég nefndi ekkert minnkað. Hef getað staðið í skilum með meðlag og húsaleigu og getað aðstoðað börnin líka. Hef lifað spart og neitað mér um flest s.s. keypt sáralítið af fötum. Ég náði m.a.s. frá hausti 2015 til sumars 2016 að safna pening svo ég gæti keypt bílskrjóð til að geta sinnt börnunum. Það endaði í áfalli. Bíllinn ónýtur á innan við mánuði og um 200 þús kr. töpuðust. Seljandinn með dólg og leiðindi. Setti fjármálin mín á hliðina. Fékk óvænta aðstoð svo ég gæti klofið það erfiðasta, húsaleigu og meðlag. Nú fyrir þessi jól er ég nánast peningalaus en get keypt gjafir handa börnunum sem verða í ódýrara lagi. Annað ræð ég ekki við. Ef þau verða ánægð verð ég það.

Þrátt fyrir þetta hef ég aldrei verið þakklátari á ævinni. Aldrei! Af hverju? Jú ég er að fá til baka heilsuna og næ að gera mitt besta til að sinna mínum börnum. Þetta tvennt er í forgangi og það mikilvægasta í mínu lífi. Annað er aukaatriði og bónus í tilveruna. Mitt gildismat og mín lífsviðhorf hafa gjörbreyst. Það sem mér þótti áður sjálfsagt er það ekki í dag. Mér batnar. Er til staðar fyrir börnin. Punktur. Þetta er lífsins jólagjöf. Þarf ekki meira og vil ekki meira.

Þegar auðveldast er að vorkenna sér að geta ekki leyft sér eitt og annað né geta haldið jól með börnunum, er ég þakklátari sem aldrei fyrr. Fyrir það sem ég þó á en ekki með rörsýn á það sem ég á ekki og get ekki leyft mér. Ég mun ná bata og mín staða breytast ef ég held mínu striki og legg á mig sem þarf. Það er minn hvati. Á meðan þakka ég fyrir hvern dag og lifi í núinu. Tekst á við lífsins verkefni eins og þau koma og vinn í minni endurhæfingu.

Viðurkenni að mér verður við að rita þessi orð því ég er mikil tilfinningavera og það snertir mig eðlilega djúpt að rifja upp og hugsa um þetta. Á jákvæðan hátt samt. Upplifi enn meira þakklæti og stoltur að vera kominn þetta langt í batanum. Nauðsynlegt fyrir mig að rifja söguna upp annað slagið. Ekki síst rétt fyrir jól sem kallar fram ýmiss konar tilfinningar.

Elsku ættingjar og vinir.

Ég óska þér og þínum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Guð blessi þig og þína.

Með kveðju. Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál