„Fyrir 3 vikum gekk kona mín út“

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni svarar spurningum lesenda. Hér fær hann spurningu frá manni sem er að ganga í gegnum sambandsslit. Stóra spurningin er, er möguleiki að bjarga sambandinu. 

Sæll

Ég og kona mín erum að ganga í gegnum sambandsslit sem endar líklega með skilnaði. Við erum búinn að vera gift 10 ár. Við eigum 4 börn.  

Við erum búin að eiga yndislegt samband og höfum verið bestu vinir síðan við kynntumst. Við höfum samt því miður fengið okkuar skerf af áföllum sem við höfum þurft að díla við en höfum aldrei farið til hjónabandsráðgjafa eða neitt slíkt. 

Núna er þetta komið að þessu að fyrir 3 vikum gekk kona mín út. Ég vissi að það væru erfiðleikar hjá okkur en ekki að staðan væri svona. Hún segir við mig að hún elski mig og elski tímann okkar saman en hún finni ekki þessa ást sem þarf, hún nenni ekki að laga sambandið og vill vera ein til að vinna í sjálfri sér.

Ég á erfitt með að skilja hvernig hægt sé að labba út frá 10 árum á einni viku án þess að blikka og vilja ekki reyna í það minnsta að laga hlutina áður en farið er í skilnað og slíta fjölskyldunni í sundur. Þá sérstaklega þegar hún segir að hún hafi verið hamingjusöm.

Þannig spurning mín til þín er líklega þessi. 

1. Hvað get ég gert í svona stöðu? Er möguleiki að þessar breytingar hjá henni hafi kveikt á einhverri spennu hjá henni í að fara í aðra átt?

2. Er möguleiki á því að það sé annar í spilinu þrátt fyrir að hún afneiti því?

3. Er hjónabandið í raun búið eða er möguleiki í þessari stöðu að við fengum hjálp að sjá hlutina í réttu ljósi?

Ég er með svo miklu fleiri spurningar fyrir þig en læt kannski þetta vera nóg.

Með fyrirfram þökk, 

einn áhyggjufullur

Góðan daginn og takk fyrir spurningarnar.

Það er leitt að heyra hvernig staðan er hjá ykkur og reynir skiljanlega mikið á ykkur bæði.

Ég hef tekið út nokkrar upplýsingar úr fyrirspurn þinni þar sem þær innihéldu óþarflega nákvæmar upplýsingar um þriðja aðila og engum greiði gerður með að opinbera hverjir eiga hlut að máli.

Mjög algengt er að álagi sé kennt um sambandsslit og það má auðvitað segja að það reyni á öll sambönd þegar lífið er ekki bein lína. Það mætti engu að síður færa rök fyrir því að ef sambönd byggja á góðum grunni þar sem vinátta og virðing er á milli aðila, þá geta erfiðleikar og álag orðið til þess að styrkja sambandið enn betur við að leysa þau verkefni sem upp koma.

Í raun er ómögulegt fyrir mig að koma með hugmyndir varðandi spurningum eitt og tvö þar sem þær snúa að því hvað er að gerast hjá konunni þinni og ég yrði að ræða við hana til að fá svör við þeim. Ef grunur þinn reynist réttur þá er spurning hvað veldur því að hún leiti út úr sambandinu og byggi upp trúnaðarsamband við annan aðila, í stað þess að leita lausna innan sambandsins. Heiðarleiki og traust eru mikilvægir lyklar í samböndum og ljóst að þar vantar eitthvað uppá ef frásögn þín er rétt varðandi fyrirspurnir konu þinnar um að reyna við yfirmann sinn.

Hvað þriðju spurninguna varðar þá er einfalda svarið það að oftast er hægt að vinna með sambönd, svo fremi sem báðir aðilar hafa áhuga á því. Ef konan þín vill ekki taka þátt í slíkri uppbyggingu þá er augljóslega erfitt að vinna í ykkar sambandi. Vonandi náið þið að ræða saman og gera atlögu að því að snúa þróuninni við. Einnig hvet ég alla til að styrkja sig persónulega þegar svona erfið mál koma upp. Í þessu tilviki mæli ég eindregið með faglegri ráðgjöf í formi samtalsmeðferðar þar sem málið virðist flókið og snertir ykkur tvö og fjögur börn.

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál