„Í lagi að vera einn á aðfangadagskvöld“

Kristín Linda Jónsdóttir.
Kristín Linda Jónsdóttir.

„Já, það er meira en í lagi, það getur verið hátíðlegt, notalegt og skemmtilegt. Í samfélaginu er oftast ofan á umræðan um samveru fjölskyldunnar á jólum, sem auðvitað er dásemd og dýrð, ef fólk á fjölskyldu sem er því náin og nærstödd og það kýs að vera með – og ef fólk er gott hvort við annað, friður, samkennd og notalegheit við völd í samverunni. Við vitum öll að þannig er það sannarlega ekki alltaf þegar fjölskyldur koma saman en þessi orð fjalla ekki um það. Þau fjalla um það að vera einn á aðfangadag og þess vegna líka jóladag,“ Kristín Linda Jónsdóttir, sálfræðingur og ritstjóri Húsfreyjunnar. 

Það er alveg ljóst að sífellt fleiri búa einir. Bæði vegna þess að þeir kjósa það og vegna þess að þeir lentu í þeirri stöðu og hafa ekki breytt henni. Yfirleitt hefur fólk búið sér notalegt heimili miðað við efni og aðstæður og líður því vel heima hjá sér og því þá ekki líka á aðfangadagskvöld?

Gætum þess að dæma ekki val þeirra sem vilja vera einir heima. Að falla ekki í þá gryfju að líta á það sem einhvers konar eymd, vanmátt eða tap og sýna ranglega einhvers konar vorkunn eða jafnvel hneykslun þegar fólk er að undirbúa sitt hátíðlega aðfangadagskvöld með sjálfu sér heima í kotinu sínu eða höll og réttara er að samgleðjast. Ég hef heyrt fólk lýsa dásamlegu aðfangadagskvöldi sem það hefur átt eitt heima og skipulagt af tilhlökkun og gleði. Ég hef líka heyrt fólk sem sér fram á að vera eitt, en vildi gjarnan vera annars staðar eða með öðrum, finna sína leið til að njóta kvöldsins og gera það.

Það er alveg úrelt að aðfangadagskvöld þurfi alltaf að vera einhvern veginn. Til þess erum við nútímafólk of fjölbreytt og margs konar og aðstæður okkar og vilji of mismunandi. Virðum val hvert annars og aðstæður. Setjum okkur af áhuga og gleði hvert í annars spor til að öðlast samkennd og skilning og styðjum og hvetjum fólk í að velja sína leið og samgleðjumst því.
Aðfangadagskvöld er hátíð út af fyrir sig, eins og einhvers staðar er sagt, en það er líka svo sem eins og 4-6 klukkutímar að kvöldi laugardags í desember. Veljum að nýta þá og njóta á þann veg sem við teljum skynsamlegast, réttast og ánægjulegast í ár og skrúfum okkur ekki upp í óþarfa kvíða, áhyggjur, vansæld eða streitu – því að svo lengi sem við lifum kemur alltaf nýr dagur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál