Ég hef verið svikin og fólk hefur valdið mér vonbrigðum

Linda Baldvinsdóttir.
Linda Baldvinsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Uppgjör og breytingar af ýmsu tagi hafa átt sér stað í mínu lífi þetta ár sem nú er að hverfa í aldanna skaut og líklega hefur það einnig verið þannig hjá ykkur mörgum,“ segir Linda Baldvinsdóttir í sínum nýjasta pistli: 

Sorg, áhyggjur, stöðnun og erfiðleikar af ýmsu tagi hafa bankað upp á hjá mér þetta blessaða ár, og allt þetta hefur kennt mér að nýta betur það sem ég kann og kenni öðrum, líklega betur en oft áður. Það hefur einnig kennt mér að meta betur það góða sem þó er til staðar í lífi mínu.

Ég hef þurft að hafa fyrir því að halda hugsunum mínum jákvæðum og að halda í ró mína. Hef einnig þurft að passa mig á því að gefast ekki upp en þess í stað einbeitt mér við að treysta Guði og efla von mína.

Ég hef skrifað mig inn í gleðina og hef búið til gæða- og glimmerstundir sem hafa eflt hamingju mína þrátt fyrir aðstæður en ekki vegna þess að aðstæður hafi verið svo góðar oft.

Ég hef skoðað sjálfa mig betur og lært betur að meta það hver ég er og fyrir hvað ég stend.

Ég hef misst fólk sem skipti mig máli út úr lífi mínu á þessu ári og það hefur valdið mér sorg og vanlíðan en ég hef valið að meta minningarnar meira en sorgina og gleðja mig við þær.

Ég hef verið svikin og fólk hefur valdið mér vonbrigðum á árinu, en ég hef fyrir löngu lært að fyrirgefa og bið því fólki einfaldlega blessunar (það er svo gott að leysa málið þannig finnst mér).

Ekki vegna þess að mér geti ekki liðið illa og verið sár, heldur vegna þess að ég veit að oft kann fólk ekki betur og kannski ætlaði það ekki að vera mér vont. Og svo er fyrirgefningin líka bara svo góð fyrir mitt sálartetur svo að ég leyfi nú eigingirninni aðeins að komast að.

Þetta þýðir þó alls ekki að ég láti allt yfir mig ganga! Ég hef stundum valið að hafa ekki fólk inni í mínu lífi sem ég tel að geti verið mér skaðlegt með einhverjum hætti jafnvel þó að mér þyki vænt um það. Við ættum aldrei að láta bjóða okkur ljóta framkomu eða ofbeldi, hvorki í orði né á borði.

Ég hef lært að sýna þrautseigju og æðruleysi þetta ár sem aldrei fyrr og hef þurft að finna leiðir og lausnir þar sem þær hafa ekki verið svo auðsæjar oft.

Ég hef einnig lært betur en nokkru sinni fyrr að hlusta á innsæi mitt og efla það til muna. Því að það er einfaldlega þannig að við eigum þetta innbyggða GPS-tæki sem sýnir okkur réttu leiðirnar og lausnirnar. Oft poppa upp litlar hugarmyndir eða jafnvel persónur í huga okkar sem verið er að benda okkur á. Hlustum á þessar hugarmyndir og rödd hjarta okkar, það reynist oft happadrjúgt.

Þannig að þegar ég set þetta svona niður á blað sé ég að líklega hefur þetta verið afar gott og lærdómsríkt ár eftir allt saman, líklega verið á við mastersklassagráðu sem ég vona að ég hafi náð með sóma. 

Og þegar allt kemur til alls eru það ekki fyrirhafnarlausu stundirnar sem skapa okkur sem þær dásamlegu persónur sem við erum, heldur þær erfiðu sem kenna okkur að meta hversu ljúft og gleðiríkt lífið er þegar vel gengur (eftir regnið skín sólin sem aldrei fyrr).

Ég óska ykkur elskurnar og bið að árið 2017 verið ykkur gott og glimmerríkt og munið –  

þetta verður allt í lagi allt saman, lífið sér fyrir okkur með einum eða öðrum hætti eins og alltaf þó að lífsstormarnir geisi stundum! 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál