Getur samband við 22 árum eldri gengið?

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Árni Sæberg

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér er hann spurður að því hvort 22 ára aldursmunur í ástarsambandi geti gengið. 

Hæ,

ég er 28 kona og er nýbyrjuð í sambandi með manni sem er 22 árum eldri en ég. Við erum ekki komin á það stig að deila okkar sambandi með umheiminum, en hann er farið að langa til þess að segja fólki frá okkur. Hann á 2 börn á unglingsaldri og ég er pínu stressuð hvað þeim muni finnast um mig og hvað mín fjölskylda muni segja. Við erum sammála um mörg lykilatriði í sambandinu eins og barneignir og fleira. Við erum bæði 110% i þessu sambandi og viljum lata þetta ganga. Þegar við erum saman pæli ég ekkert í hans 22 ára forskoti a mig en ég er samt pínu hrædd um að þessi aldursmunur muni verða okkur að falli á endanum. Er eitthvað sem við getum gert til að auka líkurnar á heilbrigðu og hamingjusömu sambandi þrátt fyrir stóran aldursmun?

Kær kveðja, 

ein sem óttast aldursmuninn

Góðan daginn og takk fyrir spurninguna.

Þú segir að þið séuð nýbyrjuð saman og að hann vilji gera samband ykkar opinbert. Hvað vilt þú?

Miðað við það sem þú segir þá er ótti hjá þér í tengslum við opinberun sambandsins, bæði gagnvart börnum hans og fjölskyldunni þinni auk þess sem þú óttast að aldursmunurinn verði vandamál þegar fram í sækir. Ég mæli með því að þú skoðir mjög vel af hverju þessar tilfinningar eru þarna. Tilfinningar okkar hafa tilgang, þær eru þarna til þess að leiðbeina okkur. Er sambandið eitthvað sem þú raunverulega vilt? Er það að þróast á þeim hraða sem þú kærir þig um? Ertu sammála því að fara út í frekari kynni við börnin hans að svo stöddu? Hvers vegna óttast þú skoðanir annarra? Með því að finna svörin við þessum spurningum getur þú fundið betur hvað þú vilt og hvað ekki.

Það er mikilvæg regla þegar börn og unglingar eiga í hlut að láta hagsmuni þeirra ganga fyrir. Unglingar geta verið afar viðkvæmir fyrir breytingum í tengslum við skilnað foreldra og þegar nýir makar koma til sögunnar. Þess vegna er almennt mælt með því að gefa sambandi góðan tíma og vera fullviss um að báðir aðilar vilji langtímaskuldbindingu, áður en farið er að kynna börnin fyrir nýjum maka. Hver þessi tími á að vera er afstætt mat en á meðan þú ert enn hrædd við að aldursmunurinn gæti verið fyrirstaða mæli ég með því að skoða það hvort þetta sé tímabært.

Varðandi það hvað hægt sé að gera til að auka líkur á heilbrigðu sambandi þá mæli ég með bók sem heitir „The Seven Principles for Making Marriage Work“ eftir John Gottman. Í henni koma fram upplýsingar um þau fjölmörgu atriði sem talin eru auka líkur á góðu hjónabandi. Þar er meðal annars lögð áhersla á mikilvægi góðrar vináttu, að traust þarf að vera til staðar, að báðir aðilar séu tilbúnir að vera skuldbundnir sambandinu og hve mikilvægt það er fyrir pör að eiga sameiginlega framtíðarsýn.

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál