„Hann fer út í bræði og lætur sem ég sé ekki til“

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni svarar spurningum lesenda. Hér er hann spurður út í vítahring í sambandi fjölskyldufólks. 

Sæll Valdimar, 

Við erum föst í vítahring, erum í 3 vikur í senn góðir vinir og sálufélagar, lausnarmiðuð og styðjum hvort annað, erum á stað í lífinu þar sem álag er í vinnu, fjárhagsáhyggjur, álag frá stórfjölskyldu og stórt heimili að sjá um 2 stelpur og einn dreng, mikil ábyrgð. Á 3-4 vikna fresti brestur allt, byrjar sem lítill bolti út af hversdagslegu máli, einhverju utanaðkomandi áreiti, mistökum, gagnrýni eða ólíkum skoðunum. Mér finnst hann ekki virða mínar skoðanir eða ákvarðanir og hann skilur ekki að ég get ekki alltaf verið á hans skoðun. Hann reynir í all nokkur skipti að rökræða sína skoðun þó að ég hafi gefið mína skoðun ítrekað, fer jafnvel í hótanir í ljótustu rifrildum, hótar skilnaði eða notar ljót orð um mig, ljót orð hafa þó farið minnkandi því ég hef barist hart fyrir því. Við þessar aðstæður líður mér eins og sé verið að þvinga mig og ég fer í vörn og læt hann heyra það þegar mér finnst ég vera komin útí horn, hækka róminn og reyni að segja aftur í 100 skipti hver mín skoðun er. Hann fer út í bræði og lætur sem ég sé ekki til í margar klukkustundir, ég sýni alltaf frumkvæði að sáttum. Þá færast samskiptin yfir í skilaboð og þar reynum við bæði að koma okkar sjónarmiði á framfæri, ef ég reyni að hringja þá ansar hann ekki eða skellir á og stýrir því samskiptunum yfir í smáskilaboð. Þá er kannski staðan þannig að hann sér ekkert rangt við sína hegðun, sem ég túlka sem kúgun eða vanvirðingu við mínar skoðanir. Ég enda á því að reka hann á dyr og segja honum að koma ekki heim fyrr en hann sýnir iðrun og viðurkennir hvað hann gerði rangt. (Innst inni veit ég að ég glími við ótta um höfnun og hafna honum um leið og mér finnst ég ekki skipta máli eða skoðanir mínar). Yfirleitt er ég fljót að biðjast afsökunar ef ég beiti orðum sem ég skammast mín fyrir. Þá líða nokkrir dagar þar sem börnin okkar og  við erum í þjáningu þó ég reyni að fela það, en það fer ekki framhjá neinum að pabbi er ekki heima. Ég upplifi þennan tíma sem dofinn tíma og set í „survival mode“. Svo á endanum gef ég eftir mínar skoðanir og reyni allt hvað ég get að sættast. Það tekur yfirleitt 3 til 4 daga að brjóta mig eða þannig líður mér, eða þá reyni ég að finna alla þætti í mínu fari eða samskiptum við hann sem ég gæti bætt. Sjálfsvirðing mín hefur farið minnkandi síðustu ár og ég hugsa reglulega um skilnað en fæ yfir mig örmagnandi kvíða og sársauka tilfinningu við tilhugsun um líf án hans þrátt fyrir þessa miklu bresti í sambandinu. Við elskum hvort annað, höfum vanrækt sambandið í hringiðu lífsins, hef afsakað það vegna barneigna og álags í vinnu en undirliggjandi er vandamál sem ég skil ekki. Við höfum farið í ráðgjöf og virðumst ekki finna rétta leið eða ráðgjöf. Höfum verið saman í 9 ár en fyrir nokkrum árum komst ég að einnar nætur framhjáhaldi sem tók 2 ár að komast yfir og fyrirgefa. Það var mikið áfall en við ákváðum þá að horfast í augu við botninn og hann hefur á okkar sambandstíma tekið sig í gegn varðandi klámfíkn sem hann faldi lengi fyrir mér og grunar mig að sum hegðun tengist því en get ekki sett fingurinn á hvað í samskiptum er að og hvernig megi bæta það svo að hægt sé að lifa friðsömu lífi. Eða hvort það sé von um ég geti breytt mér og hann sér svo að við getum átt uppbyggileg samskipti þegar erum ósammála eða verðum fyrir vonbrigðum með hvort annað. Ég á erfitt með að trúa að þessi hringrás eða vítahringur hætti, ég vona það í hvert skipti sem við sættumst en farið að verða erfiðara og erfiðara að trúa því.

Kveðja, ein valsæl

Góðan daginn og takk fyrir þessar hugleiðingar.

Það er fjölmargt í frásögninni sem tengist mjög sterkt fyrirbæri sem í daglegu tali er kallað meðvirkni. Misræmi í verðmæti í sambandinu, fíkn, skapgerðabrestir, ótti við að verða yfirgefin, tilfærsla á gildum, mörk og markaleysi eru meðal þeirra atriða sem fram koma í samskiptum ykkar. Samskiptamynstrið sem þú þú lýsir er sprottið út frá ákveðnum undirliggjandi skekkjum sem að mestu leiti verða til í uppvextinum og þú bendir réttilega á orðið „höfnun“ sem spilar þar stórt hlutverk. Við erum í raun að takast á við ákveðinn vanþroska sem lýsir sér gjarnan þannig að við verðum „barnaleg“ í samskiptum. Það er mjög algengt og ástæðurnar nokkuð skiljanlegar þegar maður útskýrir þær.

Ég hef séð fjölmörg sambönd ná undraverðum breytingum þegar báðir aðilar eru tilbúnir til þess að fara í gegnum ákveðna vinnu þar sem komist er til botns í því af hverju samskiptin eru á þennan hátt. Í þessu tilviki er mikilvægt að þið leitið aðstoðar hjá aðila sem hefur góða þekkingu á meðvirkni og því sem henni fylgir.

Gangi ykkur allt í haginn.

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar Þór spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál