„Ég hef fundið fyrir áhuga á körlum“

mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdimar Þór Svavarsson svarar spurningu lesenda Smartlands. Hér er fær hann spurningu frá manni sem grunar að hann sé samkynhneigður. 

Sæll.

Ég er 53 ára karlmaður fráskilinn fyrir fáeinum árum og er í góðu sambandi við barnsmóður mína og 3 börn.  Ég hef fundið undanfarin ár áhuga fyrir öðrum karlmönnum. Þótt ótrúlegt sé er þetta bara enn áhugi en aldrei gert neitt enda ekki haft kjark. Tækifæri hafa gefist en ég ekki nýtt þau. Stundum leggst þetta þungt á mig. Ég spyr sjálfan mig af hverju er þetta að koma upp í hugann núna? Ég hafði aldrei fundið þessar kenndir á yngri árum. En löngunin er til staðar og líka svolítil skömm sem þessari tilfinningu fylgir. Ég er hræddur um hvað fjölskyldan segir ef ég hef samband við karlmann eða með öðrum orðum kem út úr skápnum þessum fræga.  Mig langar til að hitta mann og eiga við hann samband ef þannig færi að við ættum vel saman. Ég er ekki hrifinn af stefnumótasíðum né þá heldur að vera hitta menn hingað og þangað í felum. Ertu með eitthvert ráð á takteinum fyrir mig?

Kveðja, 

einn á röngunni. 

Góðan daginn og takk fyrir einlæga fyrirspurn.

Hugleiðingar þínar reyna eðlilega á þig þar sem þú ert að upplifa eitthvað sem er út fyrir „normið“ og þar af leiðandi verður álagið við tilhugsun um skoðanir annarra enn meira. Eitt af því sem staðið hefur upp úr í vitundarvakningu samkynhneigðra á síðustu árum er hve mikill sársauki fylgir því að afneita tilfinningum sínum hvað þetta varðar. Það á reyndar við um margt annað, við mannfólkið erum mjög gjarnan að þjást af því við göngumst ekki við tilfinningum okkar. Það er áhugavert að skoða spurningar þínar um hvað hefur orðið til þess að kenndir þínar hafa breyst í áranna rás og sjálfsagt að skoða allar hliðar þess. Það gætir þú rætt við góðan ráðgjafa áður en þú tekur stóru skrefin, einfaldlega til þess að þér líði betur með þá niðurstöðu sem þú kemst að.

Titillinn á gömlum íslenskum smell kemur upp í hugann á mér þegar ég hugleiði hvaða ráð ég ætti að gefa þér en það er einfaldlega: Vertu þú sjálfur. Á endanum erum það við sjálf sem þurfum að taka ákvarðanir fyrir okkar líf og svo lærum við einfaldlega eitthvað af þeim ákvörðunum. Ákveðir þú að „koma út úr skápnum“ þá er eðlilegt að þú takir fullt tillit til barnanna þinna og vandir þig við að undirbúa þau fyrir breytingar af þessu tagi. Það ættir þú að gera í samstarfi við barnsmóðurina, ef það er hægt, og tryggja að börnin séu ekki að frétta af breyttum áherslum hjá þér, úti í bæ.

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari Þór spurningu HÉR. 

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál