Er eðlilegt að sambandið sé svona?

Þarf ástarsamband að vera svona átakamikið?
Þarf ástarsamband að vera svona átakamikið? mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá íslenskri konu sem er í stormasömu sambandi. 

Sæll Valdimar

Ég hef verið í sambandi nú í næstum 6 ár og eigum við tvö yndisleg börn saman en mér finnst sambandið hafa verið endalaus barningur nánast frá byrjun. Sambandið hangir á þræði og erum við alltaf á barmi þess að slíta þessu en höngum saman fyrir börnin.

Það sem ég er alltaf að velta fyrir mér er hvort fólk þurfi virkilega að berjast svona svakalega til að láta sambandið/hjónabandið sitt ganga?

Ég veit að grasið er ekki endilega grænna annars staðar en ég hugsa oft að ég mundi mögulega frekar vilja vera bara ein.

Kveðja, ein áttavillt

Góðan daginn og takk fyrir spurninguna

Það er skiljanlegt að velta fyrir sér öðrum möguleikum þegar sambandið veitir okkur ekki gleði og hamingju, þótt því sé haldið til haga að flestir upplifa auðvitað upp og niður tíma hvað það varðar. Svarið við spurningunni er einfaldlega „nei“, það ætti ekki að þurfa að vera stöðugur barningur að vera í sambandi.

Það eru nokkur atriði sem mestu máli skipta til þess að sambönd gangi sem best fyrir sig og eitt þeirra er skuldbinding. Þegar sambönd eru „alltaf á barmi þess að slitna“ eins og þú orðar það, þá er verulega farið að reyna á skuldbindinguna sem snýst um að vera viss um að við erum í þessu saman, þrátt fyrir að verkefnin séu erfið. Spurningin er helst sú hvort þið hafið gert eitthvað til þess að rækta sambandið? Við erum mjög gjarnan upptekin í hversdagslegum hlutum, lífið snýst um að sinna börnum, vinnu og heimili og lítið svigrúm fyrir rómantík eða uppbyggingu sem nauðsynleg er fyrir sambönd til þess að blómstra. Við tökum gjarnan frá tíma til þess að sinna vinnunni eða öðrum mikilvægum hlutum en tökum sjaldnast tíma frá fyrir sambandið. Það að „taka frá tíma“ er mikilvægt atriði því við erum oft að bíða eftir því að tími gefist en í samkeppninni við allt annað í lífinu þá er eins víst að sá tími komi ekki af sjálfu sér, við þurfum að „taka“ hann frá fyrir sambandið.

Barneignir eru stór ástæða erfiðleika í samböndum og þar sem þið eigið 2 börn eftir 6 ára samband þá get ég mér þess til að það hefur verið talsvert álag þó ekki sé nema að sinna því hlutverki að sjá um börnin. Þess þá heldur er mikilvægt að skoða hve miklum tíma við verjum í að bæta sambandið og fjölga ánægjulegum stundum með makanum.

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari Þór spurningu HÉR. 

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál