Ætluðu að búa en hann slaufaði því

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá 46 ára gamalli konu. 

Góðan dag.

Ég er 46 ára kona og hann er 50 ára karlmaður, við höfum verið saman í tæp 2 ár.

Ég var búin að vera ein í 6 ár áður en við kynntumst og hann í nokkra mánuði eftir stutt samband . En hann var áður einn í 6 ár. Við búum ekki saman enn. Hann er með kvíða yfir því að flytja til mín. Ég hefði flutt til hans en hann er ekki í öruggu húsnæði. Bæði eigum við uppkomin börn sem eru flutt að heiman. Ég bý í Reykjavik en hann ekki. Það tekur ca. 30 mín. að keyra á milli heimila okkar. Þetta hefur verið haltu mér slepptu mér hjá okkur næstum allan tímann. Þegar við erum saman þá líður okkur mjög vel saman en þegar við erum ekki stödd á sama stað þá hverf ég aðeins úr huga hans. Svona out of sight out of mind. Honum líkar illa að keyra á milli, hreinlega hatar það að eigin sögn. Við vorum búin að ákveða dagsetningu að flytja saman en hann er búinn að slaufa því. Segist koma þegar hann er tilbúinn. Sjálf er ég að glíma við andleg veikindi ásamt fleiru og hann kvíða sem hann á erfitt með að viðurkenna. Honum finnst þunglyndi vera aumingjaskapur og ég eigi að harka af mér. Mér finnst núna þegar ég rita þetta að þetta sé dauðadæmt. Við höfum oft talað um að fara saman til útlanda en aldrei orðið af því. Ég hef tvisvar farið án hans því að hann vildi ekki fara á þann stað sem ég var að fara á. En ég var að heimsækja fjölskyldu mína í BNA. Hann ætlaði síðan með vinnufélaga á sólarströnd í afslöppun. Ég er mjög tætt og er þreytt á þessu limbói að vita í raun aldrei hvar ég hef hann. Hann er góður og fyndinn og yndislegur og við getum talað um allt þó að við séum nú ekki alltaf sammála og getum rökrætt málin í þaula.

Á eitthvað eftir að breytast? Eða verð ég í limbó það sem eftir er?

Takk, takk.

Góðan daginn og takk fyrir spurninguna.

Ef ég dreg þetta saman sem þú skrifar þá hljómar það eins og þú sért í sambandi við aðila sem er til í að vera í sambandi við þig, svo lengi sem það er á hans forsendum. Ef áhugi hans er ekki meiri en svo að þú hverfir úr huga hans, að hann vilji ekki hafa fyrir hálftíma akstri til að hitta þig og lætur að því liggja að þú sért aumingi af því þú eigir við andleg veikindi að stríða, þá gefur það tilnefni til að skoða mjög vel hvort þú ert að fjárfesta í sambandi við rétta aðilann fyrir þig. Ég er ekki að fella neinn dóm yfir aðilanum sem þú ert að hitta en spurningin er hvað þú vilt fyrir þig.

Það er mjög algengt að við reynum að þóknast þeim sem við erum í sambandi við. Það er vondur grunnur til að byggja á og leiðir gjarnan til frekari sársauka. Eitt sinn heyrði ég viðtal við þekkta íslenska konu sem þekkist vel af því að vera sterk og sjálfstæð kona. Hún sagði frá því hvernig eitt augnablik í lífi hennar hafði breytt afstöðu hennar til hennar sjálfrar og þá ekki síst gagnvart karlmönnum. Sagan var nokkurn veginn þannig að þegar hún var unglingur og ætlaði á skólaball þá mátaði hún hverja flíkina á fætur annarri og fylltist stöðugt meiri kvíða og angist yfir því að ekkert væri nógu gott. Faðir hennar tók eftir því að henni var farið að líða illa og spurði hvað amaði að? Þá sagði stelpan honum að hún óttaðist að hún liti ekki nógu vel út til þess að neinum stráknum á ballinu þætti hún nógu góð. Þá sagði faðir hennar þessa lykilsetningu við hana sem breytti viðhorfi hennar um ókomna tíð. Hann sagði: „Af hverju ferð þú ekki á skólaballið og athugar, hvort einhver af strákunum sé nógu góður fyrir þig?“

Þetta er nokkuð góð saga um það hvernig mismunandi viðhorf gagnvart okkur sjálfum getur gjörbreytt viðmiðunum um hvað við sættum okkur við. Eflaust hinn besti maður sem þú ert að hitta en er hann nógu góður fyrir þig?

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál