Ég stend og fell með sjálfum mér!

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

„Í byrjun árs 2017 stend ég á nokkurs konar tímamótum. Enginn veit sín örlög sem virðast alltaf óvænt. Litið til baka eru þau ekki eins óvænt og mætti halda. Staðan mín í lífinu í september 2015 var súrrealísk eftir 2 ára hatramma baráttu við veikindi sem mannlegur máttur ræður ekki við. Samt reyndi ég. Nærri því of lengi. Ég efast um að okkar færustu rithöfundar hefðu hugmyndaflug í að skálda atburðarásina þessi 2 ár. Ég er búinn að skrifa þessa sögu sem reyndar tekur sífelldum breytingum í takt við batann minn. Ég hef í pistlum lýst sögunni í mjög grófum dráttum. Hef eðlilega treyst fáum fyrir öllu sem gekk á. Ætla ekki að fókusera á veikindasöguna í þessum pistli heldur endurhæfinguna,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli: 

Ég hef lent áður í erfiðleikum í lífinu. Óregla batt enda á góðan knattspyrnuferil áður en ég varð tvítugur. Knattspyrna var mitt líf og yndi og komst ekkert annað að. Þetta var minn lífsdraumur sem varð að engu. Ég náði mér á strik, kláraði háskólanám, eignaðist fjölskyldu og hef alla tíð verið í góðum vinnum og verið farsæll. Í 20 ár, til ársins 2013 er þetta í stuttu máli mín lífssaga. Alltaf verið ofvirkur, ör, hvatvís og gjarnan farið fram úr mér. Hefur orsakað mistök og ég brennt mig. Ekkert alvarlegt en stundum óþægilegt. Veganesti uppeldisins var m.a. meðvirkni og höfnunarótti ásamt kvíða og ótta. Ég var alltaf sannfærður um að þetta myndi ekki trufla mig í lífinu. Að horfa heiðarlega yfir sl. 20 ár sé ég annað. Að vera laus úr óreglu, klára nám og byrja að ná árangri í lífinu var svo kynngimagnað að annað komst ekkert á dagskrá. Kannski er það ástæðan að ég var alltaf að ögra mér vinnulega. Taka að mér verkefni sem ég í raun þorði ekki né hafði trú á að ég gæti leyst. Gerði það samt! Á meðan leið ég oft nánast vítiskvalir af stressi, kvíða og ótta við að mistakast! Það gleymdist um leið og árangrinum varð náð. Það sem ég er að segja er að mér tókst einhvern veginn að burðast með gamlan sársauka og lifa með undirliggjandi ofsakvíða og -ótta. Ómeðvitað. Sé nú hvað ég þurfti að leggja mikið á mig sem ég hefði annars ekki þurft. Ég vissi ekki betur og gerði mitt besta og fannst mér lifa hinu ágætasta lífi. Sem vissulega ég get tekið undir í dag.

Að sætta mig við mína stöðu í upphafi endurhæfingar í september 2015 var mjög erfitt. Mín reynsla og skoðun er að við eigum alltaf val bæði í velgengni og erfiðleikum. Valið mitt í upphafi var hvort ég væri tilbúinn að takast á við afleiðingar veikindanna eða ekki. Að gera það ekki var auðvelda ákvörðunin, en um leið lífsuppgjöf. Ég valdi hitt. Ímyndaðu þér þig útbrunninn og líða ósjálfbjarga og finnast allir geta séð um gegnum þig. Og þú getur ekkert gert! Í þessari stöðu varð lífslöngunin svo sterk og um leið varð ég auðmjúkur og tók allri leiðsögn um hvað ég þyrfti að gera. Hafði enga skoðun á því. Ég held að á svona stundu komi karaktereinkenni fólks í ljós. Ég er gamall keppnismaður og keppnisskapið blundað í mér. Það hefur komið að góðum notum við að gefast aldrei upp þótt stundum blási hressilega á móti.

Árið 2016 hefur verið lífsins skóli. Ekki síst hvað varðar samskipti við fólk. Hef aldrei upplifað jafnmikinn fjölda af fólki sem hefur bæði komið og farið úr lífinu mínu! Sumir að mínu frumkvæði en sumir að eigin frumkvæði. Á móti hef ég kynnst mörgu góðu fólki. Í september 2016 var ég kominn á of mikinn hraða og fékk bakslag í veikindunum. Endaði í ofsakvíða- og panikkasti. Um leið lenti ég upp á kant við fólk sem ég leyfði að særa mig einmitt þegar ég átti erfitt með að verja mig. Mér var ráðlagt að bakka og láta vera. Ég hlýddi. Þetta varð til þess að ég settist niður og hugsaði rækilega minn gang. Ég breytti um takt í lífinu. Bæði hvað ég gerði yfir daginn og ekki síst hverja mig langar að umgangast. Dró mig mikið til í hlé. Það var nauðsynlegt.

Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott á vel við því þrátt fyrir erfiða endurhæfingu spretta upp tækifæri. Ekki veraldleg heldur til að endurskoða mig og mitt líf. Hef ég aldrei sest niður og spáð í mig, lífið og tilveruna? Jú en tæplega djúpt við að lifa í góð 20 ár lífinu líkt og að vera á hlaupabretti stillt á hraðann 19! Hver einasti dagur endurhæfingarinnar hefur verið eins og lífsins skóli. Tækifæri til að læra. Námsefnið er lífshlaupið mitt. Sjálfshjálparaðferðin mín að skrifa mig í gegnum atburði og líðan hefur reynst mér dýrmæt. Þannig næ ég að horfast, eins heiðarlega og ég get, í augu við sjálfan mig. Það sama hef ég gert fyrir endurhæfingartímann. Það er lærdómur enda verið erfiðasta tímabilið á ævinni. Mér hefur tekist að halda mér á floti með mikilli elju og aga. Og auðvitað með dýrmætri hjálp fagaðila og vina.

Hvað hef ég þá lært? Ég kann betur að meta það sem ég á og ekki skapa væntingar að eignast það sem ég á ekki. Þakklætið til lífsins hefur margfaldast. Lífsviðhorfin og gildismat. Finna hvað skiptir mig mestu máli í lífinu. Upplifa hvað heilsan er dýrmæt. Horfast heiðarlega í augu við veikindin mín og mína fortíð. Samskipti mín við annað fólk og öfugt. Komast að því hverjir eru raunverulegir vinir. Öðlast kjark og hæfni til að setja fólki mörk og ákveða hverja ég vil umgangast. Fyrir meðvirkan mann er það meiri háttar mál! Allt mikilvæg atriði sem hefur ekki verið létt að vinna í en gert í einum tilgangi. Hver ætli hann sé? Í upphafi endurhæfingarinnar nefndi ég í Pollýönnuleik að ef ég verð betri manneskja að lokinni endurhæfingu yrði það sársaukans virði úr ofsakvíða- og panikköstunum. Það var óhugnanlegur sársauki! Allt sem ég taldi upp eykur líkur á að ég nái að verða betri manneskja. Er eitthvað verðmætara? Er ekki að tala um manneskju sem öllum líkar vel við og þóknast öllum! Að vera góð manneskja þýðir að vera líka góður við sjálfan sig. Það er ég ekki ef ég fer að þóknast eða passa upp á að fólki líki ekki illa við mig! Að vera góð manneskja þýðir að ég á ekki samleið með öllum. Það er eðlilegt.

Ég bið á hverjum degi um að halda því hugarfari að líta á mig sem manneskju sem er hvorki betri né verri en aðrir. Hvað þá að dæma fólk sem hrasar í lífinu. Endurhæfingunni er ekki lokið en sé ljósið við enda ganganna. Ég stefni enn á að verða betri manneskja. Það er eftirsóknarvert. Ég stend með sjálfum mér. Þá verð ég enn betri manneskja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál