Sársaukinn er aldrei til friðs

Sigurbjörg Bergsdóttir ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð.
Sigurbjörg Bergsdóttir ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð. mbl

„Flest höfum við lent í einhverskonar áföllum, það er óumflýjanlegt.  Lífið er bara þannig, á hverju aldursskeiði fyrir sig upplifum við nýjar áskoranir. Sumir byrja að upplifa áföll sem börn aðrir byrja að upplifa þau seinna á lífsleiðinni,“ segir Sigurbjörg Bergsdóttir ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldmiðstöð í sínum nýjasta pistli: 

Það breytast allir þegar áföll verða, við byrjum í afneitun sem er fyrsta breytingin.  Í kjölfarið byrjar áfallið að hafa meiri áhrif á einn eða annan hátt.  Það sem er mikilvægast af öllu er að yfirgefa ekki sjálfan sig. Það sem ég á við með því er að leyfa sér að finna þær tilfinningar sem koma upp hverju sinni.  Okkur finnst mjög eðlilegt að vera glöð og hugsum þá ekki innra með okkur „það má enginn sjá hvað ég er glöð/glaður“, en þegar við verðum sár, reið eða sorgmædd þá virðist það vera miklu erfiðara að viðurkenna og samþykkja „mikið er ég sormædd/ur, reið/ur eða sár. Annað sem við gerum er að hugsa, „ég ætla ekki að láta neinn sjá hvernig mér líður.“

Við felum gjarnan þær tilfinningar sem okkur finnast ekki vera í lagi, stundum einfaldlega kyngjum við þeim, eða gerum eitthvað til að hugga okkur eða fá útrás. Allir hafa sitt athvarf og leita í ákveðna huggun, en ýmsar birtingamyndir geta verið á því.  Dæmi um huggun getur t.d. verið að versla hvort sem við eigum fyrir því eða ekki, borða þannig að það er svona „gott vont“, gott á meðan ég borða og hugga mig, en vont á eftir og þá lemur maður sig niður fyrir að hafa huggað sig.  Sumir fara í tölvuna í stjórnleysi og eyða óhóflega miklum tíma þar, aðrir drekka til að gleyma eða til að deyfa sársaukann.  Enn aðrir missa stjórn á sér í umferðinni og fá útrás fyrir niðurbældar tilfinningar, sumir jafnvel elta annað fólk uppi einfaldlega til að láta einhvern heyra það og jafnvel beita hnefunum.

Á bak við luktar dyr heimilisins fá margir útrás með því að þrasa við maka sinn eða börn, sársaukinn vill út og finnur sér alltaf leið.

Það er heilbrigt að upplifa þetta allt saman. Það eru ekki til réttar eða rangar tilfinningar, þær eru bara og við þurfum að læra að þekkja þær og bera virðingu fyrir þeim. Ekki gildishlaða þær sem eitthvað rétt eða rangt.  Að því sögðu er mikilvægt að koma inn á það að okkur getur liðið allaveganna og upplifað alla flóruna af tilfinningum, en það sem hefur með rétt og rangt að gera er hvað við gerum með tilfinninguna.  Við getum verið mjög reið og langað að slíta hausinn af einhverjum, það er líðan sem á rétt á sér, en um leið og ég myndi reyna að slíta hausinn af manneskjunni þá er það rangt.

Öll atvik sem sitja föst í okkur þarf að vinna með, taka spennuna úr atburðinum þannig að við getum talað og hugsað um hluti án þess að líða illa. Það er vinna að sættast við sjálfan sig og söguna sína, alveg eins og það er vinna að koma sér í form, þetta gerist ekki á einum degi. Mikilvægt er að hafa rétt verkfæri til að vinna með.

Þeir sem hafa áhuga á að læra um áföll og afleiðingar þeirra geta skoðað ráðstefnu sem verður haldin 6. mars n.k. á Grand Hótel frá kl 9:00-17:00. Hér er á ferðinni heilsdags námskeið um áhrifamikla áfallatækni, The Community Resiliency Model™ (CRM) sem er einföld en mjög áhrifarík áfallafræði og tækni sem allir geta tileinkað sér. Meginmarkmiðið með þekkingu á CRM aðferðarfræðinni er að kenna einstaklingum að ná aftur jafnvægi á eigin taugakerfi eftir áföll, mynda viðnám gegn áföllum og kenna öðrum slíkt hið sama.  CRM aðferðarfræðin hjálpar einstaklingum að þekkja virkni taugakerfisins og að skynja og skilja líkamleg einkenni til að bæta líðan sína. Markmið CRM aðferðafræðinnar er að byggja upp og auka skilning á afleiðingum áfalla í tengslum við streituvaldandi þætti og hvernig þessir þættir geta haft alvarleg áhrif á taugakerfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál