Þolir sambandið þetta sinnuleysi?

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér er hann spurður að því hvað hægt sé að gera við áhugalausan og sinnulausan kærasta. 

Sæll Valdimar.

Unnusti minn og sambýlismaður til nokkurra ára er bæði sinnulaus og áhugalaus. Mun þetta samband halda út?

Við eigum bæði börn úr fyrra sambandi sem flest búa hjá okkur. Sinnuleysi hans og áhugaleysi beinist að nánast öllu, þ.e heimilinu, fjármálunum, börnunum og framtíðarplönum. Hann stundar vinnu en hefur ekki alltaf gert og hefur ekki gengið frá fyrri fjármálum svo að við getum gert okkar framtíðarplön. Get ekki rætt þessi mál við hann lengur. Það hefur lítið sem ekkert að segja. Ábyrgðin á ofantöldu varpast yfir á mig og hans nánustu en hann sér það ekki sjálfur. Hann segist ekki eiga við andlega vanlíðan né þunglyndi að stríða. Ég vildi gjarnan geta gert plön varðandi húsnæði og framtíðarmarkmið með honum en er búin að gefast upp. Því spyr ég sjálfa mig og þig: Heldur sambandið þetta út?

Kv, Ein hugsandi.

Góðan daginn „ein hugsandi“ og takk fyrir spurninguna.

Sambönd eru eins og margt annað í lífinu, ef maður sinnir þeim vel þá eru meiri líkur á að þau gangi vel, en auðvitað þarf tvo til. Það er óspennandi staða að vera í sambandi þar sem markmiðið er „að halda út“. Samböndin okkar ganga misvel fyrir sig, allir fara í gegnum einhverjar sveiflur sem einstaklingar og það hefur gjarnan áhrif á samböndin sem við erum í. Það er eðlilegt að einhverjar sveiflur eigi sér stað en að sama skapi mikilvægt að við horfumst í augu við vandamálin sem upp koma og berum ábyrgð á að vinna að lausn þeirra.

Þú nefnir að þið séuð með flest ykkar börn á heimilinu sem segir mér að þið eigið nokkur börn í heildina. Það eitt að halda heimili með mörgum börnum er krefjandi verkefni. Þegar við það bætist að börnin eru úr fyrri samböndum þá eykur það gjarnan álagið. Langvarandi fjárhagsáhyggjur eru mjög lýjandi og geta verið áfall í sjálfu sér. Hugsanlega er maðurinn þinn einfaldlega orðinn batteríslaus og orkar ekki að taka skrefin sem þarf að taka til að breyta stöðunni, hvort sem skrefin eru lítil eða stór.

Lausnin ykkar getur verið að taka frá dag bara fyrir ykkur, dagur sem nýtist til þess að endurskipuleggja lífið. Dagur sem fer í að fá yfirlit yfir allt það sem þið eruð að takast á við og aðgreina aðalatriðin frá því sem skiptir minna máli. Með því að fá yfirsýn yfir stöðuna, lista niður allt sem þið eruð að takast á við, það sem þið óttist og hvað það er sem þið viljið gera, þá getið þið hafist handa við að forgangsraða verkefnum. Þetta þurfið þið að gera í sameiningu, vera opin fyrir tillögum hvort annars og gefa hvort öðru tíma til að tala um það sem þið eruð að upplifa.

Það kveikir eldmóðinn að setja niður raunhæf markmið og um leið að taka ákvörðun um það sem þarf að bíða eða jafnvel hætta að hugsa um. Þegar þið finnið frið fyrir þeim áætlunum sem þið setjið upp, þá eruð þið líklega á réttri braut.

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál