Konan mín ræðst reglulega á mig

mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdi­mar Þór Svavars­son ráðgjafi hjá Lausn­inni svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær Valdi­mar spurn­ingu frá manni sem á ofbeldisfulla konu. 

Kæri Valdimar,

Ég er maður á fimmtugsaldri. Ég er í mjög góðu líkamlegu formi, lyfti fjórum sinnum í viku með vinum mínum og hugsa almennt mikið um heilsuna.  Ég er búinn að vera með konu í tvö ár og er ég mjög ástfanginn af henni.  Hún er yndisleg á allan hátt nema þegar hún drekkur. Þá tekur hún ofsafengin æðisköst og niðurlægir mig bæði í orðum og líkamlega.  Þó hún sé lítil vexti er hún mjög hraust og nokkrum sinnum hefur hún ráðist að mér með þeim afleiðingum að á mér hefur sést verulega.  Ég hef ekki í mér að kæra þetta til lögreglu né gera annað í þessu en að ræða málin við hana þegar af henni rennur.  Ég hef velt fyrir mér að svara fyrir mig en hef ekki gert það þar sem ég tel ofbeldi ekki skila öðru en meira ofbeldi af þeim sem fyrir því verður.  Ég er algerlega ráðþrota og langar ekki að skilja við hana þrátt fyrir allt.  Hvað ráðleggur þú mér að gera?

Kveðja, einn hraustur

 

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

 

Góðan daginn „hraustur“ og takk fyrir spurninguna.

Þegar áfengismálin eru annars vegar koma upp ýmis verkefni sem erfitt getur verið að leysa. Flestir fara vel með áfengi og neysla þess hefur ekki teljandi áhrif á hegðun þeirra né framkomu. Aðrir „nota“ áfengi til þess að breyta líðan sinni og geta orðið hömlulausir við neyslu þess. Þessháttar neysla getur verið afdrifarík og leiðir í sumum tilvikum til ánetjunar eða fíknar sem erfitt getur verið að losna við. Hvort að þetta eigi við um konuna þína veit ég ekki en það er nokkuð auðvelt að komast að því hversu miklu máli áfengi skiptir í lífi fólks. Ef neysla áfengis leiðir til þess að við ráðumst að fólki með ofbeldi má sannarlega segja að um alvarlegt vandamál sé að ræða. Þá er spurningin einföld: Af hverju hættir viðkomandi ekki bara að drekka? Svörin við spurningunni gefa nokkuð góða mynd af því hvar fólk er statt með sína áfengisneyslu. Ef einstaklingur vill ekki hætta að drekka þrátt fyrir að neyslan valdi alvarlegum vanda, þá eru meiri líkur á að verið sé að „nota“ áfengi í stað þess að njóta þess á heilbrigðan hátt.

Ef einstaklingar vilja ekki gefa upp drykkjuna þrátt fyrir að hún valdi þeim og öðrum skaða, þá þurfa þeir sem eru í kringum þessa einstaklinga að ákveða hvort þeir vilji bíða og vona að ástandið lagist, sem gerist stundum og stundum ekki, eða að taka þá ákvörðun að fara úr skaðlegum aðstæðum. Þetta eru spurningar sem þú þarft að svara fyrir þig. Ég mæli eindregið með Al-anon fundum fyrir þá sem umgangast fólk sem hefur ekki stjórn á neyslu áfengis.

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál