Systir mín hatar mig

mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hann er hér spurður út í erjur íslenskra systra. 

Sæll,

Ég veit ekki alveg hvort þú getir hjálpað mér en málið er að það er mjög slæmt samband á milli mín og systur minnar. Við systurnar erum báðar 30 plús og höfum alltaf verið nokkuð nánar. Síðasta árið eða svo hefur sambandið farið versnandi, hún er uppstökk, sinnulaus og einhvern veginn áhugalaus um allt og þá sérstaklega um mig og mína hagi. Hún spyr mig aldrei hvernig líf mitt gangi og gengur alltaf út frá því að ég hafi það svo gott. Hún kvartar mikið yfir blankheitum og sér ofsjónir yfir því hvað ég hafi það gott (maðurinn minn er í mjög góðu starfi). Það gerir það að verkum að ég get keypt nánast allt sem hugurinn girnist. Mér finnst eitthvað rangt við það að gauka pening að systur minni því þá finnst mér eins og ég sé að kaupa hana. Allt sem ég geri, sem kostar peninga, fer í taugarnar á henni og ég held bara að hún þoli mig ekki lengur. Ég hef ekki treyst mér til að ræða þetta við hana því ég held hún verði reið. Þessi hegðun hennar gerir það að verkum að mér finnst ég ekki geta verið ég sjálf í kringum systur mína. Heldur þú að við getum lagað þetta?

Kveðja, stóra systir

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Góðan daginn „stóra systir“ og takk fyrir spurninguna.

Ástandið sem þú ert að lýsa er klassískt dæmi um það sem fellur undir hugtakið meðvirkni. Þú nefnir eitt atriði sem er í raun fyrsta skrefið til þess að vinna með þetta ástand.

„Ég hef ekki treyst mér til að ræða þetta við hana því ég held hún verði reið.“

Ég hvet þig til þess að ræða við hana um það sem þú ert að upplifa. Við erum mjög gjarnan óttaslegin við samskipti af þessu tagi sem rekja má til þess að við treystum öðru fólki ekki fyrir eigin tilfinningum. Með því meina ég að við óttumst að fólk bregðist við í tilfinningalegu ójafnvægi, svo sem í reiði. En með því að ræða ekki málin erum við í raun að ákveða að við viljum frekar að okkur líði sjálfum illa og tökum ábyrgðina á tilfinningum beggja aðila á okkur sjálf, í stað þess að ræða málin hreint út og gefa hverjum einstaklingi fyrir sig möguleika á að skoða sig og sínar tilfinningar. Það mætti segja að við gerumst „þroskaþjófar“ þegar við ákveðum fyrir aðra að þeir geti ekki farið í gegnum krefjandi samskipti. Með því að ræða saman af yfirvegun og kærleika kemur betur í ljós hver raunveruleg ástæða er bak við það sem við erum að upplifa, hvort sem það er það sem við höldum eða eitthvað allt annað. Ef við förum að tipla á tám og þorum ekki að ræða hlutina erum við orðin meðvirk og það bitnar verst á okkur sjálfum.

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál