Vill konan losna við mig?

mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð svarar spurningum lesenda. Hér spyr íslenskur maður út samband sitt við eiginkonu sína. 

Sæll Valdimar.

Hef lengi langað að koma þessu frá mér en hef aldrei gert það, þrátt fyrir mikinn vilja og já oft í sálarangist sem hefur níst svo mikið að hugsanir um að flýja vandann á skjótan hátt hefur nokkrum sinnum skotið upp í kollinn. Málið er að ég hef verið giftur sömu konunni í 30 ár, saman eigum við 3 uppkominn börn. Lif okkar hefur verið misgott en það sem hefur valdið titringi og óánægju eru skapsveifur makans. Þær lýsa sér í því að hún finnur fyrir þeirri þörf að niðurlægja mig á hvern þann hátt sem hún mögulega getur. Setja útá klæðnað, holdafar, talsmáta, aksturslag (hef aldrei lent í árekstri og hraðsekir 2 á ævinni), gjafir mínar til hennar hafa nær aldrei hitt í mark þannig að ég hreinlega er nervus við að gefa henni gjafir, vinnuframlag mitt á heimilinu og áfram mætti telja.

Mér hefur oft fundist þetta vera einhver þörf fyrir að minnka mig til að upphefja sig. En sú hugsun hefur ágerst hjá mér að hún sé í raun að biðja um skilnað og þetta sé leiðin, að ég gefist upp. Ég er að verða algjörlega ráðlaus en svona ofbeldi getur enginn búið við og því er ég kominn á brúnina og get þetta ekki lengur.  Hvað er til ráða er mér ráðgáta sem ég hef ekki svar við.

Með kveðju,   Kúgaður.

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

 

Sæll vertu „kúgaður“ og takk fyrir að senda inn spurninguna.

Ástandið sem þú lýsir kalla ég ójafnvægi með verðmæti í sambandi. Í stuttu máli hefur það með það að gera að sambönd eru stundum þannig að annar aðilinn kemur fram við hinn af óvirðingu og jafnvel yfirlæti sem birtist til dæmis með niðrandi ummælum, skömmum og öðru slíku sem ekki getur talist virðingarvert. Þetta er því miður mjög algengt birtingarform sambanda og veldur sálarangist hjá þeim sem verða fyrir slíkri framkomu sem í mörgum tilvikum má kalla andlegt ofbeldi. Parasamband byggir á tveimur aðilum og eins og sagt er um að dansa tangó, það þarf tvo til. Spurningin er alltaf: af hverju látum við bjóða okkur að komið sé illa fram við okkur? Við höfum val um að fara úr slíkum aðstæðum, þó það geti verið mjög erfitt að hugsa þá hugsun til enda. Með þessu er ég alls ekki að réttlæta ofbeldisfulla framkomu heldur að leggja áherslu á að fullorðnar manneskjur ættu ekki að láta bjóða sér upp á hana.

Það er ekki hægt að ætlast til þess að aðrir séu fullkomnir, ekki frekar en við sjálf og stundum komum við illa fram við aðra af hugsanaleysi eða hreinlega vitum ekki betur. Það getur alltaf gerst og þá er mikilvægt fyrir þá sem verða fyrir því, að setja skýr mörk og láta vita hvað þeir sætta sig við og hvað ekki. Ef ástandið er hinsvegar viðvarandi og mörkin sem við setjum, eru ekki virt, þá má segja að um sé að ræða skaðlegar aðstæður fyrir okkur. Skaðlegar aðstæður eru aðstæður sem við getum ekki breytt og eru að valda okkur skaða. Við sem fullorðið fólk höfum val um að fara úr slíkum aðstæðum og ættum að gera það ef annað virðist ekki virka.

Eins og með öll önnur vandamál þá mæli ég með að þau séu rædd, að þú segir hvað þér finnst og hvað þú vilt. Með því að ræða málin kemur betur í ljós hvort aðilar sjái málin sömu augum, hvort vilji er til að breyta einhverju eða ekki. Út frá slíkri vinnu er betra að meta það hvort samband geti gengið eða hvort það falli undir skaðlegar aðstæður sem nauðsynlegt er að fara úr.

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar Þór spurningu HÉR.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál