Á ég að sætta mig við sambandið?

Íslensk kona er ráðþrota með ástarsamband sitt. Unnustinn hefur ekkert frumkvæði og vill ekki breyta neinu þótt allt sé á herðum konunnar. Hún spurði Valdimar Þór Svavarsson hjá Lausninni ráða.

Sæll kæri Valdimar

Samband mitt veldur mér meira hugarangri en ánægju. Hef nokkrum sinnum ætlað að enda það en kjarkurinn brást á síðustu stundu. Óttinn við að vera einhleyp, fjármál, börnin og tilfinningaflækjur höfðu þar úrslitaáhrif. Ég og unnusti minn eigum oft góðar stundir og hann er góður maður og góð sál. En ég er þreytt á að allt frumkvæði og öll ábyrgð à fjármálum hvíli á mér. Hann leggur til fé en virðist ekki hafa vilja né orku til að vinna í því að breyta neinu er kemur að fjármálum okkur til heilla þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir og inngrip af minni hálfu.

Við eigum hvort sitt barnið sem búa bæði hjá okkur. Ég upplifi okkur ekki sem fjölskyldu. Ég ber ábyrgð á minni stúlku en móðir hans meira og minna á hans stúlku og ég yfirtók ekki þá ábyrgð þrátt fyrir okkar samband.

Ég upplifi oft að þau íþyngi mér á einhvern hátt og hvort að ég sé ekki betur sett án þeirra og þau án mín. Á hinn bóginn reyni ég að líta á kostina umfram gallana. Enginn sé fullkominn og ég megi vera þakklát fyrir það sem ég hef. Hugur minn er ókyrr og ég þrái hugarró hvað þetta varðar og veit ekki hvað ég á að gera til þess. Enda sambandið eða sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt?

Kveðja G

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Góðan daginn G og takk fyrir spurninguna.

Það er algengt að einstaklingar eru óánægðir í sambandi og oftar en ekki er talsverður munur á upplifun fólks um hversu fullnægjandi sambandið er sem þeir búa við. Það sem öðrum aðilanum þykir bara nokkuð gott getur verið ástand sem hinum þykir verulega ófullnægjandi. Í sumum tilvikum eru málin þannig að nokkuð auðvelt er að koma með tillögur að úrlausn mála en í öðrum tilvikum eru viðbótarupplýsingar mikilvægar til þess að hægt sé að sjá hver raunverulegur vandi er.

Ef vandinn sneri bara að fjármálum þá væri til dæmis hugmynd að vera með aðskilin fjármál. Á þann hátt gætir þú ákveðið hvernig þú verð þínum hluta teknanna. Þá væri líka ákveðið hver sér um að greiða hvaða reikninga og þá þurfa báðir aðilar að axla ábyrgð. Ef vandinn er annað og meira en fjármálin, þá mæli ég með því að þið takið frá tíma og ræðið hvernig ykkur raunverulega líður með sambandið, hvað þið eruð ánægð með og hverju þið viljið breyta. Þetta er sniðugt að gera með því að skrifa niður helstu atriði og skiptast svo á að lesa það upp. Þá fáið þið hvort um sig tíma og svigrúm til að útskýra ykkar upplifun án þess að fara í rökræður eða þögn. Með því að fara yfir málin gætuð þið rætt það sem ykkur greinir á um og hvort það er vilji til að vinna að þeim hlutum og sambandinu almennt. Ef niðurstaðan úr þeirri vinnu er jákvæð, þá líður þér vonandi betur með að halda sambandinu áfram og vinna að því sem upp á vantar. Ef niðurstaðan er sú að þið eruð hvort á sínu máli um hvað er að og/eða hvort það skipti máli að lagfæra eitthvað, þá hefur þú ástæðu til að skoða stöðu þína í sambandinu og hvort það er eitthvað sem þú getur gert sem einstaklingur til að líða betur, óháð sambandinu sem þú ert í. Hvor leiðin sem farin er, þá mæli ég með því að þið leitið til sambandsráðgjafa til þess að hjálpa ykkur að vinna að því að bæta sambandið.

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi Lausninni fjölskyldumiðstöð. 

 Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál