Fulltrúi sýslumanns líktist strætóbílstjóra

Fulltrúi frá sýslumanninum líktist strætóbílstjóra.
Fulltrúi frá sýslumanninum líktist strætóbílstjóra.

Brúðkaup Ilmar Stefánsdóttur og Vals Freys Einarssonar í ágúst 2001 var ein allsherjar dans- og söngvaveisla í heilan sólarhring. 

Þetta er mjög neyðarleg saga,“ segir Ilmur Stefánsdóttir leikmyndahönnuður þegar hún er beðin að segja frá því þegar hún kynntist eiginmanni sínum, Vali Frey Einarssyni leikara.

„Þetta hefur sennilega verið árið 1991 og við hittumst í kvennaveislu hjá vinkonu minni. Vildi þannig til að Valur bjó á hæðinni fyrir ofan og báðum við stúlkurnar hann að koma og taka myndir af okkur í þessari miklu gleði, sem hann og gerði. Svo ætluðum við að þakka honum fyrir þessa frábæru myndatöku og stilltum okkur upp í röð til að kyssa hann á kinnina, nema hvað þegar röðin kom að mér staldraði Valur lengur við og komst raunar ekki lengra. Við þekktumst aðeins fyrir en þetta var upphafið að nánari kynnum,“ upplýsir Ilmur og bætir við að bæði hafi þau verið rétt orðin tvítug og ósköp ung og vitlaus.

Þriggja ára fjarbúð

Sambandið dafnaði vel og kom ekki að sök þó Ilmur og Valur yrðu viðskila í þrjú ár á meðan hann fór í leiklistarnám í Bretlandi.

„Það var ekkert Skype á þessum tíma og ekki einu sinni tölvupóstur. Einu sinni í viku heyrðumst við yfir síma og þess á milli sendum við hvort öðru gamaldags bréf með gamla góða póstinum. Svo hittumst við á um það bil þriggja mánaða fresti, í páskafríum, jólafríum og sumarfríum.“

Síðustu önnina í leiklistarnáminu flytur Ilmur út til Vals í Manchester, sem skiptinemi, og fjótlega var hún orðin ólétt að fyrsta barninu. Eftir veturinn flutti fjölskyldan til Íslands og barn númer tvö kom fljótlega í kjölfarið.

Bónorðið kom í París, en Ilmur segir atburðinn þó ekki hafa verið sérstaklega rómantískan.

„Hann hafði reyndar komið mér á óvart fljótlega eftir að við eignuðumst okkar annað barn og bað mig, upp á gamla mátann, að trúlofast sér. Til að innsigla trúlofunina gaf hann mér mjög fallegt hálsmen sem frænka mín, Ása Ólafsdóttir listakona, hafði smíðað. Bónorðið kom síðan í París.“

Þar var fjölskyldan í heimsókn hjá frændfólki, og voru Ilmur og Valur að spóka sig í borg ástarinnar með börnin í kerru. „Á einu götuhorninu spurði Valur mig ósköp einfaldlega hvort ég vildi giftast honum, og ég sagði já. Svo kom grænt ljós og við héldum ferðalaginu áfram.“

Eftir þeirra eigin höfði

Nokkur ár liðu þangað til brúðkaupsdagurinn rann upp. Ilmur og Valur giftu sig í Hveragerði 11. ágúst 2001. „Þetta var sveitabrúðkaup og fengum við fulltrúa sýslumannsins á Selfossi til að gefa okkur saman. Við spurðum hana hvort hún ætti ekki einhvern einkennisbúning til að klæðast í athöfninni, nema hvað á myndunum lítur út eins og við höfum verið gefin saman af strætóbílstjóra, og einkennisbúningurinn örugglega aldrei verið notaður í giftingu fyrr né síðar,“ segir Ilmur og hlær.

Veislan var einföld, falleg og lífleg. „Við vorum ekki mikið að spá í það hvað maður á að gera í brúðkaupi, heldur höfðum þetta eins og okkur langaði að gera,“ segir Ilmur.

Vígslan og veislan fór fram í sal í húsi í jaðri Hveragerðis og vinkona Ilmar skreytti salinn með hvönn úr nágrenninu. Hjónin elduðu kjötsúpu og gúllassúpu fyrir gestina, keyptu kynstrin öll af brauði frá Bernhöftsbakarí og röðuðu ýmsu öðru góðgæti á langborð. Hjónin voru gefin saman á hádegi og dunaði dansinn fram á næsta dag. Er enn þann dag í dag umtalað hvað veislan var skemmtileg.

Spurð um gildi hjónavígslunnar, núna þegar börnin eru orðin fjögur og nærri þrír áratugir liðnir frá rembingskossinum örlagaríka, segir Ilmur að brúðkaupið hafi ekki bara snúist um þau hjónin, heldur líka um vinina og ættingjana sem samglöddust þeim. „Þetta er athöfn sem snýst um vináttu, ást og kærleika, Brúðkaup eru líka ákveðin uppskeruhátíð fyrir öll þau sambönd sem maður hefur ræktað í gegnum tíðina.“

Valur og Ilmur á brúðkaupsdaginn.
Valur og Ilmur á brúðkaupsdaginn.
Halldóra Geirharðsdóttir og Halldór Gylfason skemmtu gestum.
Halldóra Geirharðsdóttir og Halldór Gylfason skemmtu gestum.
Guðmundur Steingrímsson í mikilli sveiflu með harmonikku í fanginu.
Guðmundur Steingrímsson í mikilli sveiflu með harmonikku í fanginu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál