Skylda mín að segja frá

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

„Ég birti grein hér fyrir stuttu með yfirskriftinni Ljótasta og fallegasta í fari fólks.

Aldrei óraði mig fyrir hvers konar áhrif greinin myndi hafa. Fyrir mér var ég að segja frá atburði, já áfalli, sem tengdist viðskilnaði við fyrrverandi vinnustað en var búinn að gera upp innra með mér. Annars hefði ég ekki birt greinina. Þetta var samt erfitt uppgjör, tek það fram,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli: 

Einelti og andlegt ofbeldi. Kannski hljómar það skringilega en það hvarflaði ekki að mér enda nota ég ekki þessi orð. Var bersýnilega svo blindur á atburðarásina sem var í gangi þarna. Það var fólk, þ.m.t. fyrrverandi vinnufélagar, sem opnuðu augun mín því þau lásu þetta út úr greininni. Mér var töluvert brugðið og hef hugsað mikið um þetta síðan í rólegheitum. Setti mig ekkert á hliðina og í raun fínn mælikvarði á andlega jafnvægi mitt sem hefur ekki verið betra síðan í móðurkviði!

Ég hef þarna störf í byrjun árs 2011. Er þá í fínum málum í lífinu. Andlega, líkamlega og fjárhagslega með mitt „under control“ líkt og alltaf í gegnum tíðina. Hætti í fínu starfi því mér þótti fyrirliggjandi verkefni á þessum stað vera svo áhugavert. Verkefnið mitt á þessum stað var frá fyrsta degi gríðarlega erfitt og barátta við vindmyllur hvern dag.

Sumarið 2013 fæ ég fyrstu einkenni ofsakvíða- og ótta af því eitthvað „triggeraði“ gamlan sársauka áfalla úr æsku. Með „ég get allt, veit allt og kann allt“-viðhorfið gerði ég ekki neitt og hélt áfram og barðist um á hæl og hnakka. Ég byrja þá að þróa veikindi svokallaðrar fjölþættrar áfallastreituröskunar. Mín stóru einkenni voru ofsakvíða- og panikköst sem orsökuðust af endurupplifun á erfiðum sársauka áfalla. Fann sársaukann en sá ekki atburðina. Þetta var lúmskt og kom aftan að mér. Það var svo mikill hraði í lífinu á þessum tíma að ég líklega gat ekki staldrað við og spáð í hvað væri að gerast. Óð áfram í blindni því ég skyldi standa mína plikt. Ég gat heldur ekki tengt það sem var að gerast á vinnustaðnum við þróun veikindanna. Enda var ég ómeðvitaður um að ég væri að veikjast og hugsaði ekkert út í það.

Eftir því sem dagarnir hafa liðið, frá birtingu greinarinnar, hef ég hugsað hvort ég ætti að láta kyrrt liggja eða gera eitthvað í þessu. Afleiðingarnar af veikindum frá 2013 eru svo alvarlegar að ég get ekki horft fram hjá því sem hófst á vinnustaðnum 2011 og endaði með þeim atburði sem ég lýsi í greininni. Lífið mitt rústaðist á alla vegu og ég var kominn í lífshættu. Ég lagði líf og sál og greinilega heilsu í þetta verkefni! Þetta voru afleiðingar því ekki reyndi ég að koma mér í þessa stöðu. Þetta kostaði mig gríðarlegan sársauka og erfiðleika sem gerði mig að auki óvinnufæran. Hef síðan haustið 2015 lagt mig mikið fram við að endurhæfa mig.

Að hugsa um þetta núna og vega og meta það sem hefur verið sagt við mig eftir að greinin birtist finnst mér það nánast skylda mín að segja frá. Ég hef síðan getað rakið frá árinu 2011 atburðarás eineltis, sem ég áttaði mig ekki á að væri einelti. Og einelti er andlegt ofbeldi. Auðvitað breyti ég engu héðan í frá. En fyrir mig skiptir það máli að horfast í augu við þetta því ég er búinn að leggja mikið á mig í batanum og vill ekki lenda í þessu aftur. Það vill svo til að ég er ekkert einsdæmi og þarna gerðist ýmislegt ekki par fallegt. Þar fyrir utan vil ég þá nota mína reynslu til að aðrir geti nýtt sér hana og opnað umræðu um þessi mál. 

Mér blöskrar að árið 2017 skuli það sem þarna gerist (og tilfellin hafa verið nokkur) látið viðgangast. Held að þessi vinnustaður sé ekkert einsdæmi. Í greininni minni kom ég inn á hvernig stjórnendur á vinnustöðum geta orðið þegar baráttan um völdin hefst. Þeir eru svo uppteknir af því, að það er lítið gert til að innleiða tæki og tól til að greina hvort einelti eigi sér stað með það að markmiði að geta gripið inn í sem fyrst. Ég segi að ef æðsti stjórnandi í fyrirtæki gerir ekkert í þessum málum er hann um leið að veita samþykki sitt fyrir því að andlegt ofbeldi á vinnustaðnum sé leyfilegt! Ég á erfitt með að trúa því að það sé viðhorf flestra stjórnenda en ekki hægt að túlka annað miðað við framkvæmdarleysið!

Já ég ætla að vinna í því að greina mína atburðarás á þessu tímabili 2011 til 2015 og koma upp á yfirborðið. Ekki ákveðið hvernig ég fer að því en mjög líklegt að ég opinberi það. Líkt og ég nefndi er það lágmarkið sem ég get gert sem innlegg í umræðuna og kannski gefið einhverjum eitthvað af minni reynslu.

Einelti er andstyggileg leið til að beita fólki ofbeldi. Hvort sem það er í skólum, á vinnustöðum, heimilum eða annars staðar. Andlegt ofbeldi á ekki að líðast hvort sem það er af völdum eineltis eða annars. Ekki frekar en líkamlegt ofbeldi eigi að líðast.

Ég er viss um að fyrst ég birti þessa grein þá átti ég að komast að þessu. Á réttum tímapunkti því í dag hef ég öðlast nógu gott jafnvægi til að geta tekist á við þetta. Fyrir ári síðan hefði ég ekkert getað gert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál