Misheppnaður og kominn á Tinder

mbl.is/ThinkstockPhotos.

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni, svarar spurningum lesenda. Hér fær hann spurningu frá ráðvilltum nýfráskildum manni. 

Hæ!

Ég er nýskilinn og misheppnaður að eigin mati. Búnn að fara svolítið langt niður eftir að ég skildi. Hjónabandið fór í vaskinn því ég var sinnulaus og áhugalaus um allt. Nú er svo komið að ég er fluttur út. Miðað við aldur og fyrri störf hélt ég mögulega að um mig yrði slegist þegar ég kæmi út á markaðinn, en það virðist ekki alveg vera raunin.

Ég er kominn á Tinder og það virðist einhvern veginn vera þannig að allar stelpurnar sem ég læka líta mjög vel út á mynd en þegar ég hitti þær þá eru þær yfirleitt ekki mjög spennandi.

Núna er staðan þannig að mig langar bara í mitt gamla líf til baka. Ég veit að ég var fáviti og konan mín er aldrei að fara að taka mig aftur heim. En ertu með einhver ráð hvernig ég gæti mögulega klórað mig inn aftur?

Kær kveðja,

X

Góðan daginn X og takk fyrir spurninguna.

Það er góð leið að einbeita sér að því að bæta sjálfan sig og vinna með það sem stendur manni fyrir þrifum. Það er í raun ekki hægt að tapa á slíkri vinnu af því að sama hver útkoman verður hvað aðra hluti varðar, svo sem samböndin, þá ertu alla vega búinn að vinna að því að vera besta útgáfan af sjálfum þér. Slík vinna ætti alltaf að vera með það fyrir augum að þér líði betur en ekki bara til þess að ná í fyrrverandi konuna aftur.

Hluti af því sem ég mæli með að þú styrkir er þín eigin sjálfsmynd. Þó svo að þú hafir ekki alltaf gert það sem best væri á kosið er langur vegur frá því að þú sért „misheppnaður“ eða „fáviti“ eins og þú nefnir. Þú ert bara fullkomlega ófullkominn eins og við hin, ert jafnmikils virði og allir aðrir og hefur jafnan möguleika og aðrir að líða betur með sjálfan þig.

Þú nefnir nokkur atriði í þínu fari sem þú ert meðvitaður um að mættu betur fara og þá góð byrjun að vinna að því að bæta þau. Þrátt fyrir að þú viljir þitt gamla líf aftur er ekki víst að fyrrverandi konan þín vilji það miðað við lýsinguna sem þú gefur. Ef hún veltir því fyrir sér á einhverjum tímapunkti að hefja sambandið aftur, þá er líklegra að hún líti það jákvæðum augum ef þú hefur lagt þig fram við að styrkja þig og bæta. Það væri auðvitað hægt að mæla með klassískum rómantískum leiðum eins og að koma á framfæri fallegum orðum, blómum, gjöfum og öðru þess háttar en ef því fylgir ekki einlægur ásetningur um að breyta óæskilegri hegðun, er líklegt að fljótt sjáist í gegnum plottið.

Allar konur eiga skilið að mennirnir þeirra sýni þeim virðingu, áhuga og traust. Ef þú vilt fá fyrrverandi konuna þína aftur, þá ættir þú að sýna það í verki og leggja þig allan fram. Hvort þú náir að „klóra þig inn aftur“ er svo hennar að ákveða.

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál