„Einmanaleikinn er að buga mig“

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér er hann spurður út í einmanaleika og höfnun. 

Sæll Valdimar.

Er rúmlega þrítugur og aldrei verið í sambandi og hef verið að berjast við gífurlegan einmanaleika. Hef reynt allnokkrum sinnum að tengjast einhverjum en fæ höfnun á eftir höfnun. Reyni að halda höfði en það er farið að reynast erfitt.

Er þetta eitthvað sem ég þarf að reyna að sætta mig við, eða er eitthvað sem ég gæti gert?

Kveðja, J.

Góðan daginn J og takk fyrir spurninguna.

Tilfinningin sem kemur þegar fólk upplifir höfnun getur tengst sárum upplifunum alveg frá barnæsku. Ótti við að verða hafnað er af sama meiði og óttinn við að verða yfirgefinn og mjög mismunandi í hve miklum mæli sá ótti er hjá fólki. Ef þú hefur upplifað þessa tilfinningu oft, eins og þú nefnir, þá er skiljanlegt að það reynist stöðugt erfiðara að gera tilraun til þess að tengjast öðrum, sérstaklega ef þú ert jafnvel innst inni farinn að gera ráð fyrir þeim möguleika. Ég er handviss um að það er ýmislegt sem þú getur gert og ættir ekki að þurfa að sætta þig við þessa stöðu.

Þetta hljómar eins og kjörið verkefni fyrir þig til þess að vinna að uppbyggingu sjálfsvirðingarinnar og styrkja þig á þann hátt að þú getur farið að tengjast öðru fólki án þess að óttast að verða hafnað. Ég mæli með viðtali við ráðgjafa sem getur aðstoðað þig að þessu leyti og jafnvel sjálfsstyrkingarnámskeiðum á borð við Dale Carnegie.

Talsvert er um að fólk upplifi sig einmana og því eru margir að leita að öðru fólki sem vill koma á frekari tengslum. Rafræn samskipti hafa stóraukist, oft á kostnað annarra samskipta en tæknin getur engu að síður verið gagnleg hvað þetta varðar því oft má finna einstaklinga eða hópa sem eru að leita eftir félagskap í tengslum við ákveðið áhugamál, s.s. göngur, íþróttir, tölvuleiki og annað þess háttar. Það er um að gera að skoða vel hvort þú finnir einhvern félagsskap sem þér líkar í gegnum samskiptamiðla og setja þig í samband við þá sem þér líst vel á.

Gangi þér allt í haginn. 

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál