Kulnun í sambandi – hvað er til ráða?

mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér er hann spurður út í kulnun í ástarsambandi. 

Kæri Valdimar,

Ég hef verið í sambandi með manni í tæplega 6 ár og við eigum eitt barn saman. Sambandið hefur alltaf verið rosalega gott fyrir utan að maðurinn minn vinnur frekar mikið sem hefur bitnað mikið á mínum starfsferli þar sem við höfum haft lítinn aðgang að barnapössun. Hrifning og ást okkar á milli hefur ávallt verið frekar auðveld en hefur farið minnkandi undanfarin ár, sérstaklega eftir barneignir líkt og algengt er. Undanfarið hefur áhugi minn þó farið meira út á við og ég finn þörfina til að tala við aðra karlmenn og fara meira út á lífið með vinkonum mínum. Ég er ekki á þeim stað ég myndi halda fram hjá eða neitt slíkt, en ég fæ þessa sterku þörf til að vera með öðrum mönnum og sveiflast fram og til baka hvort ég vilji áfram vera með mínum manni. Þegar við erum þrjú saman, ég, maðurinn minn og barnið, er alltaf ótrúlega yndislegt hjá okkur en það er ekkert að frétta af okkar ástarsambandi. Ég stend hreinlega svolítið á krossgötum um hvað er best fyrir mig að gera í þessari stöðu, hvort ég geti farið til baka þegar hugurinn á mér er kominn svona langt í burtu.

Kærar, X

Góðan daginn og takk fyrir þessa spurningu.

Til þess að sambönd vaxi og dafni þarf að sinna þeim, rétt eins og svo mörgu öðru í lífinu. Við erum mjög gjörn á að „taka“ tíma fyrir vinnuna, við tökum tíma fyrir áhugamálin, tökum tíma til að sinna námi og þar fram eftir götunum. Í mörgum tilvikum tökum við hins vegar ekki tíma frá fyrir sambandið okkar. Við ætlum okkur að sinna sambandinu þegar tími „gefst“. Staðreyndin er sú að flestir hafa í mörgu að snúast og ef sambandið er ekki sett ofarlega á forgangslistann er hætt við því að þessi tími komi ekki og þar af leiðandi verði lítill sem enginn tími í að sinna sambandinu. Þá getur sambandið þróast í að verða einhvers konar praktískt atriði sem snýst um að láta hlutina ganga upp í tengslum við vinnu, börnin, fjármál og annað í þeim dúr. Þegar það hefur viðgengist í ákveðinn tíma kemur að þeim degi að annar eða báðir aðilar í sambandinu finna að innistæða þess er lítil og þörfina fyrir nánd og tilfinningalega næringu vantar. Í þeirri stöðu er versti möguleikinn að leita eftir því út fyrir sambandið. Best er að vinna að því að styrkja sambandið sem við erum í þá þegar.

Til þess að styrkja sambönd þarf að taka frá tíma fyrir þá vinnu, leita aðstoðar ef þess þarf, fá hugmyndir að því hvernig hægt er að kveikja neistann á ný og síðast en ekki síst að vera heiðarleg gagnvart þessari vinnu og sambandinu sjálfu. Upphafspunkturinn felst í að eiga samtal við makann, að tala saman um stöðuna, hvernig ykkur líður í sambandinu og hvaða atriði það eru sem þið viljið vinna með. Út frá því er hægt að setja upp aðgerðaáætlun og vinna að henni til þess að freista þess að gera sambandið gott og nærandi í stað þess að leita annað, þar sem sömu verkefnin munu hvort eð er bíða.

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál