Niðurlæging að verða óvinnufær

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

„Í tveimur pistlum mun ég deila minni reynslu af því að detta út af vinnumarkaði, byggja mig upp og reyna að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Í þessum pistli fer ég yfir upplifunina að detta af vinnumarkaði. Í næsta segi ég frá endurhæfingunni og hvernig er að reyna að komast aftur út á vinnumarkaðinn,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli: 

Eru líkamleg veikindi algengari orsök...eða hvað?

Hef orðið vitni að og heyrt dæmi um að fólk þurfi að taka sér frí frá störfum. Ef ástæðan var líkamleg veikindi fannst mér það eðlilegt. Hef líka heyrt og lesið um fólk sem lendir í kulnun (burn out) í starfi og verður óvinnuhæft. Flest dæmin sem ég þekki koma frá stjórnendum fyrirtækja og fannst auðvelt að tengja kulnun við þeirra starf. Hef líka heyrt dæmi um fólk sem hefur þurft að hverfa frá vinnu vegna andlegra veikinda. Ég viðurkenni að ef ég heyrði um slíkt kom það mér miklu meira á óvart. Fordómar? Má vera en vegna þekkingaleysis. Á mínum starfsferli get ég ekki munað eftir að hafa orðið vitni að því að starfsmaður né stjórnandi hafi farið í veikindaleyfi vegna þunglyndis, kvíða, geðhvarfasýki eða annarra andlegra veikinda. Af hverju? Ef ég má svara eftir bestu vitund í dag þá grunar mig að ástæðan liggi í ríkjandi viðhorfum á muninum á líkamlegum og andlegum veikindum. Fólk hefur átt erfitt með að skilja andleg veikindi, hvað þá að það eigi afturkvæmt á vinnnumarkað. Eins og að verða þunglyndur séu sama og starfslok! Annað (byggt á reynslu sl. mánaða) er að fólk dregur til lengdar að þora að viðurkenna gagnvart vinnuveitendum að það sé andlega veikt. Af ótta við hvað? Jú það upplifir skömm og óttast viðbrögð því þekkingar- og skilningsleysi fólks er töluvert. Óttast að fá á sig neikvæðan stimpil um að það sé talið ekki nógu hæft lengur. Ég vona að ég sé að nefna undantekningatilfelli en of mörg dæmi hef ég heyrt. Það versta er ótti fólks að viðurkenna andleg veikindi og þurfa frí til að leita sér lækninga. Það er atriði sem við öll ættum að íhuga því þetta er ekki eðlilegt og í raun stórhættulegt fyrir viðkomandi. 

Ég

Frá því ég vann 12 ára gamall á bensínstöð í Þorpinu á Akureyri í sumarvinnu, hef ég unnið og/eða verið í skóla. Aldrei ímyndað hvernig það væri að fara í veikindaleyfi. Líklegast hugsað eins og margir... þetta kemur ekki fyrir mig! Líkamlega hef ég verið heppinn að vera hraustur hvað varðar sjúkdóma. Skyndilega var ég kominn í þá stöðu að vera orðinn fárveikur... já andlega. Í mínu tilfelli ómeðvitaður og hélt að ekkert væri að. Fyrstu einkenni voru þess eðlis að flest skynsamt fólk hefði staldrað við og látið athuga hvað væri í gangi. Jú ég hugsaði það en ákvað að þess þyrfti ég ekki! Kannast einhver við það? Ég veit betur og ég ræð við þetta. Þetta ríkjandi viðhorf sem ég ólst upp við að kvarta ekki og berjast. Það var mitt viðhorf til vinnu frá því ég var 12 ára á bensíndælunni til hausts 2015. Ég viðurkenni að ég var haldinn fordómum út í andleg veikindi en ekki af illri hugsun til fólks. Minn skilningur var ekki þroskaðri en að fólk sem veikist andlega er... já úr leik! Eins og með margt í lífinu þá vil ég ekki skilja fyrr en ég lendi í því sjálfur og neyðist til að skilja! Það er heldur ekki eðilegt! 

Stoltið drepur!

Haustið 2015 er ég fárveikur og óvinnufær sem mér þótti hræðilega niðurlægjandi! Svo niðurlægjandi að ég barðist við veikindi sem mannlegur máttur ræður ekki við í 2 ár! Ætlaði ekki láta spyrjast að svona (sem ég reyndar vissi ekki hvað var!) biti á mig. Guð minn góður hvað mannshugurinn (minn) getur verið súrrealískur, óraunsær og má ég nota orðið heimskur sem nafn yfir dómgreindarleysi? Spáið í ástæðuna fyrir þessari þrjósku. Stolt! Ekki láta spyrjast að ég hafi gefist upp fyrir verkefni eins og vinnu! Nei fyrr skal ég dauður liggja (hugsaði ég en ekki í bókstaflegri merkingu) en gefast upp. Kaldhæðnin í þessu er sú sorglega staðreynd að undir lokin var ég kominn á þann stað! Verri stað hafði ég ekki kynnst í lífinu en kynnst mörgum slæmum. Hvað gerir Einsi litli í þeirri stöðu á þessum stað? Vita að ég get ekki...veit ekki... kann ekki... skil ekki... þori ekki... og alls ekki! Stoltið? Eina sem ég þurfti að gera var að biðja um hjálp!! Gerði ég það? Nei. Samt komst ég ekki út úr húsi vegna ofsakvíða- og panikkasta, örmagna á líkama og sál. Blés í gegnum mig og allar varnir farnar. Nei það er ekkert að. Nú veit ég ekki hvað þú hugsar sem þetta lest? Hvers konar bilun það er að óska ekki eftir alla vega hjálp! Skil vel ef þú hugsar það. Mér var bjargað og fékk hjálp. Er löngu hættur að spá í hvernig það atvikaðist en veit það er ekki mér að þakka. Þegar búið var að fá mig til að skilja hvernig ástand mitt var orðið... þá beygði Einsi litli fyrst af. Við tók hræðslan við að deyja og ég varð auðmjúkur og þáði alla hjálp. Aldrei verið skoðanalaus en hafði enga skoðun. Gat það ekki. Hlýddi bara. 

Mitt langstærsta verkefni í lífinu beið

Ég datt út af vinnumarkaðinum og mín beið 18 - 24 mánaða endurhæfingartími. Útbrunninn eða í kulnun (burn out), áfallastreituröskun á lokastigi (endurupplifun á sársauka áfalla í ofsakvíða- og panikköstum), sjúkleg meðvirkni blossaði upp og höfnunarótti. Uppgötvaði að ég hefði lifað með öll ADHD-einkenni rauðglóandi. Þetta var mitt nýja verkefni í lífinu. Það langstærsta og mikilvægasta. 

Þú nýtur uppskerunnar af því góða sem þú sáir í lífinu...

Þótt ég þakki mér ekki fyrir að hafa fengið hjálp þá varð það mér gæfa að vera opinn á samskiptamiðlum eins og Facebook. Sumarið 2015 var ég að ýja að og segja frá hvernig mér liði en ekki í tilganginum að biðja um hjálp. Voru spontant statusar þegar mér leið illa. Birti líklega því ég fékk viðbrögð sem sefuðu mig. Innst inni var ég sjálfsagt í örvæntingu að öskra á hjálp. Kunni það ekki betur, en gat þó gert þetta sem, eins og ég nefndi, varð mér til happs. Þessir statusar urðu til þess að fólk fór að fylgjast með mér, m.a. gamlir skólafélagar. Sumir höfðu beint samband því fólk skynjaði eitthvað alvarlegt á seyði. Snemma í september var haldið árgangsmót grunnskóla á Akureyri og víðar úr Eyjafirði. Ég komt eðlilega ekki. Margir úr hópnum höfðu fylgst með mér og barst ég í tal. Varð til þess að ég fékk risastóra hvatningarkveðju frá hópnum. Mér leið eins og mörg hundruð manns klöppuðu mér á bakið. Hélt engum tárum af þakklæti. Svo hringdu í mig m.a. æskufélagi og sögðu mér frá hvernig fólk hugsaði til mín. Eins og minn æskufélagi orðaði það (ef ég man rétt)... á svona stundum í lífinu kemur í ljós að á lífsleiðinni hefur maður stráð góðum fræjum hér og þar. Uppskeran var að upplifa stuðninginn sem ég fékk. Ég hugsa oft um þetta og verð alltaf meyr. Ég á eftir að þakka fyrir mig á betri hátt síðar. Ég var kominn með von. 

Takk fyrir mig og fljótlega birti ég seinni hlutann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál