Áfallastreituröskun getur drepið þig!

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

„Júní er alþjóðlegur mánuður Post Traumatic Stress Disorder (PTSD) og Complex Post Traumatic Stress Disorder (CPTSD). Á Íslandi kallað einu nafni áfallastreituröskun og/eða áfallastreita. Af þessu tilefni langar mig að deila reynslu af mínu megineinkenni, ofsakvíða- og panikkasti. Ég hafði þróað veikindin 2 ár þegar dæmið sem ég tek gerðist. Á þessum 2 árum stigversnuðu veikindin en mér tókst að standa plikt í lífi og starfi fram á sumar 2015. Þá háði ég harða baráttu og ágúst 2015 er mánuður sem ég vil aldrei upplifa á ný. Þetta gerðist síðla í ágúst 2015 í blálok veikindanna,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli: 

Hvað er áfallastreituröskun?

Aðeins um PTSD og CPTSD. Þar er munur en ekki flókinn. PTSD á við þá sem veikjast eftir stakt áfall, t.d. slys. CPSTD á við þá sem hafa orðið fyrir endurteknum áföllum og ná ekki að vinna úr sársaukanum. Þetta eru lífshættuleg veikindi ef ekkert er gert. Endurupplifun á sársauka (emotional flaschback) í gegnum ofsakvíða- og panikkast er kvalræði. Þess vegna er tíðni sjálfsvíga há. Fólk gefst upp því það veit ekki hvað eða hvort eitthvað sé að.

Ég var greindur með CPTSD vegna endurtekinna áfalla. Ég byrgði sársaukann inni og gat ekki annað. Ég gat ekki vitað að sársaukinn myndi marka heilann sem líffræðilegur áverki. Ég vissi ekki að einhvern tímann á lífsleiðinni væru miklar líkur á að sársaukinn brytist fram. Ég gat ekki heldur vitað að ef sársaukinn brytist út væri ég orðinn lífshættulega veikur. Einkennin geta verið mismunandi en í mínu tilfelli var þetta líkt og baktería sem framkallaði sama ofsakvíða, ótta og annað er ég gekk í gegnum áföllin á sínum tíma.

Inngangur að reynslusögunni

Daginn áður en þetta gerðist varð enn eitt áfallið. Vinnan mín. Síðasta hálmstráið. Mannauðsstjóri tilkynnti mér að það hefði verið reynt að fá mig áminntan í starfi af tilefnislausu og ég í veikindaleyfi. Með ásetningi sparkað í mig! Hann sagði að þessi átök biðu mín! Fékk afarkosti. Mæta í þennan slag eða segja upp því ekki var hægt að reka mig! Vissi að ég gæti ekki tekist á við þetta. Vinnan farin! Ég átti börnin og mig eftir. Allt annað farið frá því ég flutti til Hafnarfjarðar og hóf sambúð rúmlega 2 árum fyrr. Þá í góðum málum og leið vel. Þarna í lánsíbúð og yrði húsnæðislaus eftir viku!

Reynslusagan:

Fimmtudagur. Leið skelfilega. Búinn að lofa mér í Mosó um kvöldið. Ekki að meika það en óð af stað með stigvaxandi hausverk sem versnar á leiðinni. Fór líka að líða illa í augunum og höfuð, herðar og háls stífnuðu upp. Komst upp í Mosó en fljótt jókst verkurinn og fannst hausinn vera að klofna og byrjaði að svitna. Ég fór. Á leiðinni til baka varð mér óglatt. Við Smáralind komst ég ekki lengra. Næ aðreininni fyrir neðan bílaapótekið og rétt næ að stoppa áður en gusast upp úr mér. Kastaði margsinnis upp. Held áfram og rétt ókominn heim þegar mér verður aftur óglatt. Kemst inn áður en ég kasta aftur upp. Fékk mér kaldan bakstur á ennið og beið. Höfuðið var að springa og ég fann hvernig maginn og líkaminn herptust saman. Ég lagðist í fósturstellingu upp í rúm með æludall og kvaldist. Alla nóttina kastaði ég upp. Fékk heitt og kalt svitakast til skiptis, skalf og titraði. Man lítið fyrr en vel er liðið á næsta dag. Var svo stirður í líkamanum að ég gat ekki hreyft mig. Leið skár um kvöldið og kom niður vökva. Tók mig tíma að fatta að þetta væri ofsakvíða- og panikkast. Það hræðilegasta fram að þessu. Næstu dagar eru í móðu í minningunni. Ég var örmagna andlega og líkamlega.

Eftir þetta gat ég ekki og langaði ekki að tala við neinn. Þorði ekki að fara út úr húsi. Mér leið líkt og ég gæti hvergi verið og ekkert gert. Fastur. Ég dróst lengra inn í myrkrið. Man ekki hvað ég hugsaði enda forðaðist ég það. Svona leið heil vika. Fór ekki inn á Facebook og svaraði engum. Ég fékk 2 - 4 ofsakvíða- og panikköst á dag. Reglulegur skammtur. Öll skelfileg og dagarnir fóru í að fara í gegnum þau og jafna mig. Ég gat ekki meir. Ég tók ákvörðun. Þrái að frá frið. Hugurinn er skrýtinn. Eftir ákvörðunina leið mér betur!

Þessi dagur var í byrjun september 2015. Ef atburðarásin hefði verið rökrétt væri ég ekki að skrifa þessi orð í dag.  Það er kraftaverk að ég finni hjartað enn slá. Veit það og endalaust þakklátur í dag.

Mín reynsla er ekki einstök

Mín reynsla er algeng lýsing þeirra sem glíma við áfallastreituröskun, sér í lagi CPTSD. Ég er búinn að fræðast mikið. Lesið fjölmargar reynslusögur og upplýsingar frá fagaðilum. Þess vegna veit ég nákvæmlega hvað ég gekk í gegnum og hvers vegna.

Að lokum...

Ég óska engum að ganga í gegnum sársauka eins og ég heldur leiti sér fyrr hjálpar. Mér er sagt að það sé ótrúlegt hversu lengi ég harkaði af mér. Ég var mótaður af viðhorfinu að vera harður og kvarta ekki! Þar sem ég gat ekki vitað hvað væri að og ekkert sást utan á mér kveinkaði ég mér ekki. Þetta fáranlega viðhorf kom mér nærri því í gröfina. Hvaða hetjudáð felst í því? Hetjurnar í mínum huga er fólk sem nær að beygja sem fyrst af og fá hjálp.

Tek fram að þetta snertir mig djúpt. En unnið vel úr þessu og tilbúinn að gefa reynslu minna til þeirra sem vilja nýta. Ef hún verður til að hjálpa einhverjum til góðs þá er tilganginum náð. Takk!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál