Uppeldið tók U-beygju við þessi ráð

Auður Rakel Georgsdóttir með börnum sínum tveimur.
Auður Rakel Georgsdóttir með börnum sínum tveimur.

„Ég kynntist RIE (Respectful Parenting) 14. apríl 2017, það var vinkona mín sem spurði mig hvort ég þekkti þessa aðferð og sendi mér snapchat nafnið hjá Kristín Maríellu (kmariella) og ég ákvað að horfa. Mér fannst það svo áhugavert að ég ákvað að glósa upp úr því. Mér finnst ég hafa uppgötvað Respectful Parenting á akkúrat réttum tíma því ég og maðurinn minn vorum orðin ráðalaus við hegðuninni hjá 6 ára dóttur okkar, því var ég mjög spennt að fara að prufa eitthvað nýtt. Við eigum 6 ára dóttur og 3 ára son. En 6 ára dóttir okkar var byrjuð að taka hvert kastið á eftir öðru á hverjum degi yfir minnstu hlutunum. Hún var alltaf að prófa mig og við foreldrarnir vorum fljót að verða pirruð og sögðum henni iðulega bara „að hætta þessu“, „ekki láta svona“ eða „þú ert svo frek“. Við sögðum henni að það væri „bannað að grenja yfir öllu“ og við gáfum henni tíma til að hætta með því að telja upp á 3. Ef ekkert gekk  var það skammarkrókurinn. Sömu trixin áttu að virka á bróður hennar líka sem er 3 ára. En þessi „trix“ virkuðu bara engan veginn og höfðu bara þveröfug áhrif,“ segir Auður Rakel Georgsdóttir móðir í pistli inni á síðunni Respectful Mom.

Á þessum eina mánuði eftir að hafa kynnst RIE erum við alltaf að sjá betur og betur hvernig við gerðum allt rangt. Við erum líka að taka eftir því betur og betur, alls staðar í kringum okkur, hvað það eru ALLIR að skamma börnin sín mikið og hóta. Ég heyri ekkert nema mútur og það sorglega er að þetta virkar einfaldlega ekki. Hinsvegnar hefur RIE svo ótrúlega góð áhrif á bæði börnin mín.

Á þessum eina mánuði hefur svo margt breyst í sambandi við hegðun dóttur minnar. Hún tekur ekki eins mörg köst á dag, þeim hefur fækkað úr sirka 8-10 yfir í 2-3 á dag, sem léttir þvílíkt á heimilinu. En á okkar heimili er andrúmsloftið orðið allt annað. Minni pirringur, börnin eru betri við hvort annað en þau rifust rosalega mikið og klöguðu hvort annað mikið fyrir RIE. En með RIE hefur það minnkað slatta á svona stuttum tíma. Börnin leika sér betur saman og lengur. Allt þetta með því að sýna skilning, traust og virðingu gagnvart börnunum!

Mig langaði að deila nokkrum sögum um það hvernig áhrif RIE hefur haft á hin ýmsu atriði í okkar daglega lífi:

Við vorum að túristast úti á landi og börnin voru með bakpoka með nesti sitt. Þegar þau fengu sér smá kex úr nestisboxinu sínu spurði ég hana hvort ég mætti fá. Ég tók 4 litlar kexkökur sem áttu vera fyrir mig og pabbann. Hún trylltist því henni fannst ég taka of mikið. Hún byrjaði að gráta og sagði þú tókst of mikið, mamma. Svo ætlaði hún að henda nestisboxinu í mig. En þá sagði ég: já, ég skil, þér fannst ég taka of mikið. En þú sagðir mér að ég mætti fá mér þess vegna fékk ég mér. Vanalega hefði ég sagt hættu þessu væli. En af því að ég notaði þessa auðveldu aðferð þá hafði það öfug áhrif á dóttur mína. Þetta snerist allt við og hafði öfug áhrif. Hún horfði á mig og sagði: mamma, viltu meira kex? Allt í einu fór það úr að vilja ekki deila í að vilja gefa mér meira. Við foreldrarnir áttum ekki til orð en vorum svo hissa og glöð með þetta. Bara út af því að þetta virkaði svo vel hef ég tileinkað mér Rie ennþá meira. Og ég sé ekkert eftir þvi.

Fruss í bílnum

3 ára strákurinn okkar var að frussa á systur sína í bílnum. Hún bað hann ítrekað að hætta og öskraði á hann því hún varð svo pirruð. Við gleymdum okkur og sögðum hættu að frussa en ég ákvað svo að reyna að bregðast öðruvísi við. Þá sagði ég: „Mér sýnist systur þinni finnast óþægilegt að láta frussa á sig.“ Pabbinn bætti svo við „ég veit að þér finnst gaman að frussa en pabba finnst erfitt að hlusta á fruss þegar pabbi er að keyra“. Sonur okkar sagði þá „ok, pabbi, frussið er búið“. Þegar maður fær svona flott svar frá barninu hugsar maður bara YESS þetta er að virka.

Rifrildi milli systkina

Vanalega skipti ég mér rosalega mikið af þeim og segi þetta klassíska: „segðu fyrirgefðu“ eða „þið verðið að hætta rífast og vera góð við hvort annað“ – rifrildin þeirra voru löng og komu upp aftur og aftur. Núna segi ég voða lítið en ef þau klaga hvort annað, ég segi „já, ég skil, eða já, ég sá það“. En svo leyfi ég þeim að klára og skipti mér bara af ef þau lemja hvort annað, þá segi ég rólega „ég ætla ekki að leyfa þér að lemja systur/bróður“ og er tilbúin til þess að fylgja eftir með því að „blocka“ höndina, svo stuttu seinna þá hætta þau og hætta oftast með því að segja eitthvað eins og, „hey, sjáðu þennan bangsa!“, „viltu prufa?“ eða „hey, ég gleymdi að klæða barbie í kjólinn…“

Suð í búðum / sníkja

Nánast í hvert sinn sem við förum í búðir sníkja krakkarnir eitthvað, oftast er það tyggjó eða spiderman munnskolið sem virðist alltaf vera við kassann (haha) en ég segi vanalega bara „nei“, og þá kemur alltaf „en af hverju?“ Þá segi ég vanalega „því það er ekki nammidagur“, eða „þú mátt ekki fá“. En þessi svör hjá mér höfðu þau áhrif á börnin að í staðinn fyrir að hætta að sníkja byrjuðu þau frekar að gráta úr „frekju“ og við sögðum oft við börnin „ef þú hættir þessu ekki þá ferð þú út í bíl“. Við reyndar stóðum alltaf við það og fórum með annaðhvort annað eða bæði börnin út í bíl á meðan hitt foreldrið kláraði að versla. Hitt foreldrið var svo með grenjandi börn eða barn í bílnum þar til heim var komið. En með RIE  segi ég bara „já, þig langar í tyggjó, en ég ætla ekki að kaupa tyggjó, í dag ætla ég að kaupa mjólk og kvöldmat“. Eða „já, þig langar svo mikið í spiderman-munnskol, já, þú segir að það sé svo flott flaska, já, ég sé að það er spiderman, þig langar í svona djús… En við ætlum ekki að kaupa svona. En veistu hvað, þetta er ekki djús heldur munnskol, sem á ekki að drekka heldur er það til að skola tennurnar… Já, þig langar í munnskol, þig langar að prufa að skola tennurnar, ég skil, þú mátt gráta eins og þú vilt en ég ætla ekki að kaupa munnskol í dag. Já þú ert að gráta, þú mátt gráta, mamma hjálpar þér að líða betur þegar þú ert tilbúin.“ Eftir að ég byrjaði að viðurkenna tilfinningar barnanna og svara þeim á þennan hátt hefur suðið í búðinni snarminnkað og þau sýna því miklu meiri skilning að eitthvað sé ekki keypt.

Það er nánast enginn grátur lengur þegar ég tala svona við börnin. Ég er hætt að kvíða fyrir búðarferðum.

Gleraugnavesen

Dóttir mín er með gleraugu en hún þolir ekki vera með gleraugu því henni finnst hún ekki falleg með þau. Þetta hefur verið ströggl í heilt ár. Ég hef vanalega sagt henni að hún verði að hafa gleraugun því annars geti hún ekki farið að gera hitt eða þetta… (smá hótun í gangi), en ég vissi ekki betur því þetta er aðferð sem ég þekkti og hafði séð mikið notaða á börn í kringum mig – en auðvitað virkar hún ekki og hefur bara öfug áhrif! Barnið vill ekki hlusta á mig. En núna segi ég „já, ég skil að þú vilt ekki hafa gleraugun, þér finnst þú ekki falleg með gleraugun, já, ég skil. En mömmu finnst það ekki. Mömmu finnst svo gott að vita að stelpan sín sjái betur með gleraugun sín. Þá veit mamma að þér líður betur í augunum.“

Þá segir hún „já, mamma, mér líður betur í augunum með gleraugun“ og segir „ok, mamma, ég skal hafa gleraugun en nennirðu að þrífa þau fyrir mig.“ Áður þurfti ég að þræta við hana endalaust en núna þarf ég bara rétt aðeins að sýna henni skilning og þá er þetta ekkert mál.

Meiða sig / plástur

Eins og gengur og gerist þá meiða börnin sig eða detta og fá smá rispu. Börnin mín vilja alltaf strax plástur og gráta frekar lengi og þetta hefur oft pirrað okkur foreldrana. Vanalega sögðum við „hættið þessu væli“, „hættu að skæla“ eða „nei, þú þarft ekki plástur“. „Ertu ekki sterk eða sterkur?“ „Þú þarft ekki að gráta því þú ert svo sterkur.“ En þetta virkar ekki á börnin því þau eru lengur að jafna sig. Núna segjum við „já, ég sé að þú dast, þú meiddir þig, það er smá rispa á þér. Já, þig langar í plástur. Þú mátt fá einn plástur, já, þú mátt gráta, þetta getur verið vont“. Og þau fá að klára að gráta. Og plásturinn er eitthvað sem þau vilja til að hugga sig og ég hef ákveðið að leyfa það bara. En eitt sinn voru plástranir búnir og ég sagði „já, þig langar í plástur en nú eru plástrarnir búnir. Það var bara ekkert mál og barnið sagði bara já allt í lagi mamma, við getum keypt plástra næst í búðinni.

Deila dóti

Börnin mín eiga vanalega ekki erfitt með að deila en það eru sum leikföng sem þau passa betur upp á en önnur. Þá hef ég alltaf skipt mér af og sagt, „leyfðu honum eða henni að prófa, þú færð dótið aftur“. Segi það sama ef það eru vinir í heimsókn og oftast verða börnin mín mjög sár að þurfa að vera neydd til að deila og eiga mjög erfitt með það. Ég hef oft endað á því að þurfa hugga barnið mitt því ÉG neyddi það til þess að láta frá sér dótið sem hann eða hún voru ekki tilbúin að láta frá sér. En núna segi ég bara, „já, þú vilt ekki sleppa dótinu. Þú vilt ekki sýna dótið. Það er allt í lagi, þú ert ekki tilbúin/nn“. Og segi við hitt barnið, „þú færð að prófa dótið seinna því að hún/hann er ekki tilbúin/nn að sýna þér.“ Og oftast er þetta bara ekkert mál. Ekkert rifrildi eða neitt. Miklu einfaldara og sanngjarnara en gamla aðferðin.

Fá ekki það sem hún vill/ frekja/ lemur frá sér eða kastar sér í gólfið

Dóttir mín á það til að henda sér í gólfið, lemja sparka og öskra á okkur þegar hún fær ekki það sem hún vill. Fyrir RIE settum við hana vanalega í skammarkrók. Hún sat úti í horni og átti að skammast sín þar til hún var tilbúin að biðjast afsökunar. Það er ömurlegt að hugsa til baka og sjá hversu slæmt þetta var fyrir barnið. En þetta hafði þau áhrif á hana að hún endaði á að biðjast afsökunar útgrátin og þetta dugði í kannski í mesta lagi í klukkustund en svo endurtók hún hegðunina aftur og aftur. Ég get sagt það að núna, á þessum eina mánuði þá hefur hún ekki farið í neinn skammarkrók og hefur bara tekið örfá svona köst. Ég tækla það þegar hún verður ósátt með því að viðurkenna tilfinningar hennar eins og ég lærði í gegnum RIE og segi. „Já, ég sé að þú ert ekki glöð. Þú mátt gráta. Þú vilt fá ís en ég ætla ekki að gefa þér ís. Já, ég veit að þér finnst ís góður, þér finnst súkkulaði best, ég veit, ástin mín. Ég ætla ekki að leyfa þér að lemja mig, mér finnst það óþægilegt. Ég ætla ekki leyfa þér að sparka í mig. Ég sé að þú getur ekki hætt að lemja mig. Ég þarf að hjálpa þér að hætta ef þú getur það ekki sjálf. Mamma ætlar að færa þig því þú getur ekki hætt, (og færi hana smá frá mér.) Ég veit að þú vilt ís í dag en í dag ætlum við ekki að borða ís. Kannski fáum við ís seinna um helgina. Stundum fáum við ís en stundum ekki…” Fyrst tók þetta smátíma að venjast, bæði fyrir mig og barnið. En núna rétt svo reynir hún að lemja eða sparka og þegar ég segi henni að ég ætli ekki að leyfa henni að lemja þá hættir hún bara sjálf. Og svo snýr hún út úr því að greinilega er hún tilbúin að hætta og segir til dæmis. „Mamma, sjáðu þetta og bendir á einhvern hlut.“ Stundum fæ ég bara gott knús eftir þetta allt saman. Svoleiðis sýnir hún mér líkamlega að hún sé leið yfir þessu eða bara tilbúin að halda áfram. Og þá segi ég henni „ahh það er svo gott að fá knús“. Í staðinn fyrir að segja þú varst dugleg. Ég sé það á henni að hún náði að klára að tjá sig og líður miklu betur.

Foreldrar fá allt í einu hrós frá börnunum

Ég er byrjuð að hrósa öðruvísi eftir að hafa kynnst RIE, ég passa mig að nota ekki „label“ og setja ekki minn „dóm“ á atriðið (þó að það sé jákvæður dómur). Ég reyni hrósa með að segja bara það sem ég sé: „ég sé að þú klæddir þig í bleikan kjól“. Þá fæ ég bros frá stelpunni. Eða „Þú gast reimað skóna alveg sjálf.“ Þá fæ ég stoltan svip frá henni. Eða „þú gast bremsað á hjólinu“. Þá fæ ég glott frá stráknum sem segir bara ég er montinn. Ég finn að börnin meta þessi hrós mikið og jafnvel meira en það hvernig við hrósuðum þeim áður en við kynntumst RIE. Við getum alveg gleymt okkur ennþá og sagt „vá, flott!“, það tekur tíma að venja sig á að segja það sem maður sér og taka eftir vinnunni sem liggur á bak við eitthvað.

En eftir að við breyttum þessu eru börnin farin að hrósa okkur! Eins og til dæmis: 

Mamma, ég sé að þú settir fléttu í þig.“ Eða „mamma, ég sé að þú eldaðir uppáhaldsmatinn minn“ og brosir út að eyrum. Ég finn síðan hvernig ég er farin að segja þeim meira hvernig mér líður og tala við þau „út frá sjálfri mér“ eins og „mér finnst svo gaman að leika við þig“ eða „mér finnst svo gott að knúsa þig“. Þau eru farin að segja það sama við okkur. „Mamma, mér finnst svo gott að vera með þér.“ „Pabbi, þú kannt að keyra bílinn svo vel.“ Eða „pabbi, þú kannt að vinna svo mikið“. Svo er dóttir mín farin að segja reglulega. „Mamma, þú skammaðir mig aldrei í dag, það er svo gaman að allir eru alltaf í góðu skapi“ eða „mamma, þú varst í góðu skapi í dag“. Ég heyri þetta nánast daglega að ég hafi verið í góðu skapi og það gleður aldeilis mömmuhjartað.

Yfir höfuð hefur RIE ótrúlega góð áhrif á alla fjölskylduna, það er minni pirringur og við gefum hvert öðru meiri tíma. Allir njóta meira. Það tekur alveg tíma að venjast því að skipta um uppeldisaðfeð. En munurinn á okkur er ótrúlega mikill. Með að sýna skilning og traust fáum við það til baka frá börnunum. Börnin eru kurteisari og biðja meira um leyfi til að gera hlutina sem þau vilja gera. Þau taka betri tíma til að leika sér og dunda sér meira því að við foreldrarnir erum ekki að trufla þau jafn mikið og áður. Við gefum þeim rými og þau elska það.

Mér sem foreldri er farið að líða asnalega að hrósa eins og ég gerði áður fyrr, eða ef ég skamma óvart þá líður mér illa með það. Eftir að hafa kynnst RIE sé ég svo mikið hvað þessi aðferð er heilbrigð og góð. Á sama tíma sé ég að allt hitt sem ég hef notað var alls ekki að gera mér eða börnunum mínum gott, en ég var einfaldlega að gera það sem svo margir nota, eitthvað sem ég sé alls staðar í kringum mig, mér finnst gamla aðferðin hræðileg. Ég á erfitt með mig þegar ég heyri annað fólk skamma börnin sín eða hóta/múta. Það er ekki nema mánuður síðan ég notaði gömlu aðferðina sjálf en ég áttaði mig ekki á því að þetta hefði svona slæm áhrif. En á einum mánuði getur margt breyst. Á mínu heimili koma núna allir fram hver við annan eins og þeir vilja láta koma fram við sig. Ég hlakka svo til að læra meira og tileinka mér Respectful Parenting ennþá betur.

Ég er ótrúlega þakklát fyrir að hafa kynnst RIE því þetta er einfaldlega eintóm snilld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál