Kærastinn á erfitt með að fá fullnægingu

Konan upplifir höfnun.
Konan upplifir höfnun. mbl.is/Thinkstockphotos

Sæll Valdimar

Kærastinn minn á mjög erfitt með að fá fullnægingu. Hann segist vera áhugasamur um mig og mína velferð og sýnir mér mikla umhyggju. Þegar við erum saman í rúminu hefur hann enga sérstaka löngun í venjulegar samfarir. Besta leiðin fyrir hann virðist vera að fróa sér sjálfur. Þannig eru meiri líkur á fullnægingu hjá honum og sáðláti. Mér finnst ég vera aukahlutur við hliðina á honum og upplifi höfnun. Hvað er til ráða?

Góðan daginn og takk fyrir að senda þessa fyrirspurn.

Ofangreint vandamál er þekkt og ýmsar ástæður sem geta legið þar að baki. Nýlega svaraði ég sambærilegri fyrirspurn og hér kemur svarið við henni.

Til er fyrirbæri sem kallast „seinkað eða hamlað sáðlát“ (e. delayed or inhibited ejaculation) og fellur undir kynlífsröskun. Það á við þegar karlmenn eru mjög lengi að fá fullnægingu eða fá hana jafnvel ekki við venjulegar samfarir. Miðað við lýsinguna þína þá gæti það vel átt við um maka þinn.

Ástæða þessarar röskunar getur bæði verið líffræðileg og/eða andleg. Veikindi, lyf og neysla vímuefna eru meðal þeirra atriða sem geta haft áhrif á getuna til þess að fá fullnægingu. Eins getur vandinn legið í því að viðkomandi hafi notast við klám eða aðrar leiðir til þess að upplifa örvun og þar af leiðandi dugi ekki „hefðbundið“ kynlíf til þess að kalla fram fullnægingu. Að sama skapi er talað um að þeir sem nota sjálfsfróun reglulega geti átt í erfiðleikum með að upplifa næga ertingu við samfarir.

Andleg vandamál hafa einnig mikil áhrif. Ef einstaklingur á erfitt með að tengjast tilfinningum sínum, er annars hugar eða er að kljást við þunglyndi eða kvíða, þá hefur það áhrif á kynlífið. Oft verður þetta ástand til þess að þrýstingur eykst á viðkomandi að fá fullnægingu, sem ýtir undir streitu og kvíða sem eykur enn á vandann.

Hver sem upprunaleg ástæða vandans er þá mæli ég með því að þið ræðið hreinskilningslega saman um það hvað ykkur finnst og verið heiðarleg með hvaða væntingar þið hafið og hvað það er sem þið óttist. Með því að skilja hvort annað betur hvað þetta varðar, gæti það létt á þrýstingnum sem kominn er. Ég mæli með því að gera núvitundaræfingar þannig að ykkur gangi betur að tengjast tilfinningunum og hvort öðru sem gæti leitt til þess að þið náið að slaka betur á og njóta sambandsins á nýjan hátt. Þannig getið þið leitað nýrra leiða til þess að upplifa nánd og tilfinningar án þess að það þurfi endilega að leiða til kynlífs, en ef það gerist þá er það hið besta mál.

Að lokum vil ég benda á að leita til ráðgjafa sem vinnur með tilfinningaleg vandamál og/eða kynlífsráðgjafa til þess að fá aðstoð við að sjá hvaða ástæður gætu legið að baki þessu vandamáli og fleiri mögulegar leiðir til úrbóta.

Með bestu kveðju – Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent Valdi­mari spurn­ingu hér.

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál