Getum við orðið hamingjusöm?

Íslensk kona veltir því fyrir sér hvort hún sé í …
Íslensk kona veltir því fyrir sér hvort hún sé í draumasambandinu því kærastinn er svo afbrýðisamur. mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni, svarar spurningum lesenda Smartlands. Nú er hann spurður út í það hvort hægt sé að lækna afbrýðisemi.

Sæll,

Ég er nýbúin ađ ná í draumaprinsinn. Viđ kynntumst á samskiptaneti fyrir einhleypt fólk og nú treystir hann mér ekki. Telur ađ ég sé ađ tala viđ ađra karlmenn, ađ ég sé međ röđina á eftir mér (sem var en er ekki lengur) ég er búin ađ skrá mig út af öllum deitsíđum. Hann er samt svo tortrygginn og spyr endalaust viđ hvern ég sé ađ tala. Hvar ég hafi veriđ og hvert ég sé ađ fara.

Ég er nú farin ađ hugsa hvort þetta sé í raun draumaprinsinn? Telur þú ađ einhver framtíđ sé í ađ viđ getum orđiđ hamingjusöm? Er svona afbrýðisemi læknanleg?

Kveðja, PP

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Góðan daginn og takk fyrir að senda spurninguna.

Það er ekkert óalgengt að í upphafi sambands örli á óöryggi en mikilvægt er að það taki ekki stjórnina. Í samböndum er mikilvægt að báðir aðilar geti vaxið og notið sín í lífinu án þess að vera haldið niðri af ótta og óöryggi maka.

Afbrýðisemi er vond og getur auðveldlega leitt til mikilla ranghugmynda sem valda viðkomandi aðila miklum sálarkvölum. Undirrót afbrýðiseminnar er ótti. Óttinn stafar af óöryggi og undirliggjandi ótta um að verða yfirgefinn eða hafnað af einhverjum sem okkur þykir vænt um. Þessi höfnunarótti getur framkallað tilfinningu sem er mjög sársaukafull fyrir viðkomandi. Einnig getur verið að óttinn stafi af því að einstaklingar hafi sjálfir verið ótryggir í parasambandi og reikna þá með því að aðrir hljóti að vera það líka, þá er þeirra eigin raunveruleiki að ýta undir þeirra eigin vanlíðan. Hver sem ástæða óöryggisins er þá er hætt við að það birtist í ýmiss konar erfiðleikum í samskiptum sem geta þróast út í andlegt ofbeldi, þvinganir og jafnvel líkamlegt ofbeldi.

Það er sannarlega hægt að vinna með óöryggi af þessari gerð og í grunninn snýst sú vinna um að efla sjálfstraust og virðingu viðkoamdi aðila til þess að auka sjálfstæði og öryggi í parasambandi og lífinu í heild. Það er hins vegar frumskilyrði að aðilinn sem er að upplifa óöryggið vilji sjálfur vinna í málinu. Það er hægt að gera hjá ráðgjöfum sem hafa þekkingu á slíkri vinnu og eins mæli ég með tíma hjá pararáðgjafa þannig að þið getið bæði rætt málin frá ykkar hlið með þriðja aðila sem getur hjálpað ykkur í því samtali.

Hvað sem öðru líður hvet ég þig til að setja mörk á þessa hegðun þannig að hún þróist ekki út í að þú þurfir að sitja fyrir svörum við spurningum sem spretta af óörygginu. Ef þú setur mörk á kærleiksríkan máta og bendir maka þínum á að þetta sé eitthvað sem hann verði að vinna úr sjálfur, þá gæti það hjálpað honum að horfast í augu við vandann og um leið ert þú að sleppa tökunum og öðlast meira frelsi sjálf.

Gangi ykkur allt í haginn, 

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál