Hjónabandið er komið í þrot

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu, svarar spurningum lesenda. Hér fær hann spurningu þriggja barna móður sem er komin út í horn með ástarsamband sitt.

Hæ, ég er gift og á þrjú börn með eiginmanni mínum. Einu sinni vorum við óskaplega ástfangin en sú tíð virðist vera löngu liðin. Við höfum varla sofið saman í sex ár og hann er alveg hættur að reyna við mig og reyna að fá mig til við sig. Sambandið er allt annað en kærleiksríkt.

Mér finnst hann einfaldlega leiðinlegur. Hann gerir fátt annað en að öskra á krakkana okkar og satt best að segja þá gengur allt mun betur þegar hann er að heiman, sem hann er mjög oft.

Auðvitað hugsa ég oft um að skilja við hann en einhvern veginn hef ég ekki kjark til þess. Hvað er eiginlega að mér?

Kær kveðja, H

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

 

Góðan daginn og takk fyrir spurninguna.

Ég vil byrja á því að segja að það er ekkert óeðlilegt við að óttast skrefin við að fara í gegnum skilnað, þú ert ekkert frábrugðin öðrum hvað það varðar. Sambandið sem þú lýsir hljómar eins og það skorti margt sem æskilegt er að hafa til staðar í parasambandi sem vex og dafnar.

Sambönd eru stundum sett í samhengi við ræktun ávaxta. Ef ekki er hlúð að jarðveginum, hann vökvaður og nærður, þá er hætt við að uppskeran verði rýr. Eins getur það verið í samböndunum okkar, ef við hlúum ekki að þeim með gæðastundum, nánd og vináttu, þá getur verið að útkoman sé á þann veg sem þú lýsir.

Báðir aðilar í parasambandi þurfa að leggja sitt af mörkum til þess að byggja upp samband og það er mikilvægt að hafa í huga að það tekur tíma. Ef þú ert ekki búin að gefast upp á sambandinu, þá mæli ég með því að þú ræðir málin við maka þinn og athugir hvort hann vilji taka þátt í að byggja sambandið upp að nýju.

Þið gætuð hafist handa með því að taka frá tíma fyrir ykkur tvö, þar sem þið eigið stefnumót án truflunar og getið rætt málin, hvað þið viljið gera til þess að bæta sambandið og hvert þið viljið stefna í framtíðinni. Ég mæli með því að það sé ekki sjaldnar en einu sinni í viku sem þið eigið tíma sem er tileinkaður ykkur og þessari vinnu. Það þarf ekki að fara langt, kertaljós og tebolli heima í stofu getur alveg dugað svo lengi sem þið fáið frið til að tala saman án áreitis frá farsímum, tölvum og öðru fólki.

Það getur verið sniðugt að ákveða einhvern dag í framtíðinni þar sem þið ætlið að ræða sérstaklega hvernig ykkur finnst ganga í þessari vinnu. Þetta gæti verið eftir þrjá til sex mánuði og þá getið þið litið til baka og séð hvort báðir aðilar hafi lagt sitt af mörkum og hver staðan er eftir þann tíma. Er sambandið að lagast? Er það óbreytt eða hefur það jafnvel versnað?

Ef svarið er að það hafi ekki lagast að neinu leyti þá er hægt að ræða næstu skref, hvort sem það væri til dæmis að leita til pararáðgjafa, sem ég mæli reyndar með að þið gerið sem fyrst, og/eða ræða það hvort sambandið sé svo slæmt að hugsanlega komi til skilnaðar.

Með því að leggja á sig vinnu við að bæta sambandið gerist annað af tvennu. Annaðhvort gerist það sem væri best, að sambandið yrði innihaldsríkara og betra fyrir ykkur bæði og þið nýttuð ykkur reynsluna til að koma í veg fyrir að sambandið fari aftur í fyrra horf. Hinn möguleikinn er að það lagist ekki þrátt fyrir vinnuna en þá væri í það minnsta búið að reyna og hugsanlega meiri sátt við að taka afdrifaríkari skref. Ég vona að ykkur gangi vel að styrkja sambandið og fjölskylduna í heild.

Með bestu kveðju, Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál