Lífið er of stutt fyrir óhamingju

Linda Baldvinsdóttir.
Linda Baldvinsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er svo margt sem stuðlar að hamingju og óhamingju okkar, en eftirtalin atriði ákvað ég að setja hér inn sem mína útgáfu af því sem stuðlar að daglegri hamingju og vellíðan okkar. Líklega er mín uppskrift ekkert ólík öðrum hamingjuuppskriftum en aldrei er góð vísa of oft kveðin svo hér kemur mín hamingjuútgáfa,“ segir Linda Baldvinsdóttir, samskiptaráðgjafi, sambandsráðgjafi og markþjálfi hjá Manngildi, í sínum nýjasta pistli: 

Lífið er of sutt og dýrmætt til að eyða því í að vera óhamingjusamur. Að vera fúll út í einhvern eða eitthvað er sóun á hamingju og vellíðan. Svo væri kannski ráð að muna að allir eru líklega að gera sitt besta hverju sinni, hvort sem það er nægjanlega gott eða ekki.
 
Notaðu hvert tækifæri sem þú finnur til að hlæja eins mikið og þú mögulega getur, og búðu til gleðistundir með þeim sem þér þykir vænt um.
 
Segðu fyrirgefðu þegar það á við, það stækkar þig bara sem persónu og gefur þér aukna sjálfsvirðingu, við erum því miður víst ekki fullkomin og höfum jafnvel stundum rangt fyrir okkur og þá er gott að segja bara fyrirgefðu.
 
Slepptu tökum á því sem þú getur ekki breytt en breyttu því sem þú getur breytt eins og segir í gömlu æðruleysisbæninni. Og í guðanna bænum ekki eyða lífinu í áhyggjur af morgundeginum því áhyggjurnar ræna okkur gleðinni og styrknum sem nauðsynlegur er inn í þau viðfangsefni sem ollu okkur áhyggjunum í upphafi.
 
Elskaðu alltaf djúpt og innilega, faðmaðu og kysstu oft, hrósaðu og byggðu alla sem þú hittir á lífsveginum upp til góðra verka, og fyrirgefðu mannlega breyskleika í fari annarra fljótt, eins fljótt og þú vilt að aðrir fyrirgefi þér þína.
 
Taktu áhættur og gefðu allt sem þú hefur að gefa, því aðeins þannig nærðu árangri í lífinu eða lærir af ef árangur næst ekki. 
 
Ekki sjá eftir neinu í lífinu, það samverkar hvort sem er allt til góðs að lokum með einum eða öðrum hætti, og þú gerir bara betur næst.
 
Við komumst því miður ekki hjá því að það blási um okkur í lífinu því að lífið er eins og íslenska veðrið. Sól í dag, rok og rigning á morgun og snjór þriðja daginn, þannig að njóttu þess þegar vel gengur og þakkaðu fallega fyrir það. Mundu samt að allt tekur enda og við þurfum víst að taka því slæma með hinu góða.
 
Brostu breiðast þegar þú hefur minnstu ástæðuna til þess, því að heilinn þinn hjálpar þér að komast í gott skap með því framleiða góð boðefni við brosið þitt þar sem hann skilur ekki mun á raunveruleikanum og óraunveruleikanum, hann bara bregst við brosinu.
 
Fyllstu alltaf þakklæti fyrir allt sem þú hefur.
Þakklætið hefur tilhneigingu til að vaxa og eftir því sem við þökkum oftar fyrir það sem við höfum fáum við meira til að þakka fyrir, eitthvert lögmál þarna á ferð.
Og merkilegt nokk, öll spekirit sem ég hef lesið leggja áherslu á að það fallega sem til okkar kemur tengist þakklátum huga. Svo þökkum fyrir fram fyrir það sem við viljum sjá og fá inn í líf okkar.
 
Fyrirgefðu alltaf þín vegna (til að frelsa þig) en ekki vegna þess aðila sem á þér braut, en ekki gefa þeim sem meiða þig tækifæri á því að endurtaka sama ljóta leikinn gegn þér, forðaðu þér sem lengst í burtu frá öllu slíku.
 
Fordómar eru vondir fyrir alla og koma engu góðu til leiðar í veröldinni svo reynum að sleppa þeim.
Ekkert okkar vill vera fordæmt fyrir það eitt að vera þau sem við erum. Hvort sem við erum hvít, svört, kristin, ótrúuð, samkynhneigð, gagnkynhneigð, grönn, feit, ung, gömul, íslensk eða útlend, rík eða fátæk.
Virðing er það sem við vorum kölluð til að sýna sjálfum okkur og öllum hinum sem við ferðumst með hér á jörðu. Munum að saga okkar allra er ólík og við sjáum ekki inn í hjörtu annarra, sem er þó eina færa leiðin svo að við getum dæmt réttlátlega.
 
Pössum orðin okkar, því að orð meiða stundum og notkun okkar á þeim getur einnig valdið misskilningi. Notum falleg uppbyggjandi orð og komum fallega fram við alla (okkur sjálf þar á meðal), byggjum upp, leysum úr misskilningi en rífum ekki hvert annað niður. 
 
Lærðu af verkefnum þeim sem þú færð til að kljást við í lífinu, en sjáðu aldrei eftir einu einasta andartaki lífs þíns. Njóttu þess að vera hér og nú og á lífi. Gerðu þitt besta alla daga og sæktu bara allt það sem þig langar til að upplifa í lífinu, þakkaðu svo pent fyrir daginn að kvöldi og svífðu inn í svefninn með ró í hjarta vitandi að þú gerðir allt þitt besta í öllum kringumstæðum – og það er alltaf nægjanlegt.
 
 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál