„Ég skil ekki hvernig ég gat þetta“

Alda Jóhanna Hafnadóttir og Andrea dóttir hennar.
Alda Jóhanna Hafnadóttir og Andrea dóttir hennar. Ljósmynd/Kristín Jóna Guðjónsdóttir

Alda Jóhanna Hafnadóttir er ein yngsta móðir landsins en hún varð barnshafandi þegar hún var ósköp venjuleg 12 ára stelpa sem bjó í Grafarholti. Árið 2004 var Alda Jóhanna orðin 13 ára þegar dóttir hennar, Andrea, kom í heiminn. Í dag er dóttir hennar orðin 13 ára og búa þær mæðgur saman í Noregi ásamt unnusta Öldu Jóhönnu.

Ég hitti Öldu Jóhönnu fyrst þegar hún var nýbúin að eiga Andreu og þá til að taka viðtal við þessa ungu móður. Þá bjuggu þær tvær í foreldrahúsum og Alda Jóhanna var að finna út úr lífinu. Síðan eru liðin mörg ár en í dag eru mæðgurnar búsettar í Noregi þar sem Alda Jóhanna starfar á hóteli. Það að eignast barn 13 ára hefur haft mikil áhrif á líf Öldu Jóhönnu og þótt þetta hafi oft verið snúið þá eru þær mæðgur staddar á góðum stað í dag. Þegar ég spyr hana út í fyrstu viðbrögð á sínum tíma við óléttunni segir hún að þessi tími sé svolítið í móðu.

„Það eru komin svo mörg ár síðan ég fékk þær fréttir þannig að þetta er svolítið eins og óskýr draumur. En það fyrsta sem gerðist var að ég missti allan mátt í fótunum og datt niður á hné inni á baðherbergisgólfinu og grét. Það var nú alls ekki planið að fara verða ólétt í 7. bekk,“ segir Alda Jóhanna.

Það er ekki algengt að stúlkur verði barnshafandi í 7. bekk. Þegar ég spyr hana hvernig hún hafa tæklað það segist hún varla vita það.

„Nei, veistu það veit ég ekki, guð hefur viljað að ég myndi taka að mér þetta stóra hlutverk svona ung því ég skil ekki hvernig ég gat þetta, en hjálp og stuðningur frá fjölskyldu og vinum okkar er það sem hélt mér gangandi,“ segir hún.

Alda Jóhanna segir að hún sé mjög lánsöm því henni hafi verið hjálpað mjög mikið.

„Bæði móður- og föðurfjölskylda Andreu dóttur minnar hjálpuðu okkur mikið. Ég er endalaust þakklát fyrir allan stuðninginn sem ég fékk. Þetta var ekki verið létt fyrir báðar fjölskyldurnar að grunnskólabörnin þeirra væru að verða foreldrar,” segir hún en barnsfaðir hennar var 15 ára þegar hún varð ólétt.

Hvernig voru unglingsárin þín frábrugðin unglingsárum vinanna?

„Ég var mjög heppin með að fá alla þessa hjálp svo ég gæti verið örlítill unglingur í mér. Ég fékk alveg að fara út með vinum á kvöldin og um helgar þegar Andrea var sofnuð. Ég var líka með pabbahelgar sem var æði. Þær helgar sótti ég töluvert í að vera í Sandgerði með vinkonum mínum því amma einnar vinkonu minnar bjó þar. Þessi tími í Sandgerði stendur upp úr þegar ég horfi aftur til unglingsáranna,“ segir hún.

Það gefur auga leið að það hefur varla verið auðvelt að verða barnshafandi 12 ára gömul. Þegar ég spyr Öldu Jóhönnu hvað hafi verið erfiðast við að verða móðir svona ung segir hún að hún hafi þurft að berjast að alefli við fordóma.

„Það voru fordómarnir sem mér fannst erfiðast, þjóðin vildi sjá mér mistakast og þau létu mig vita af því. Öll ljótu kommentin sem komu nafnlaus inn á barnalandssíðuna hennar Andreu voru hræðileg. Það endaði með því að barnalandssíðunni var læst og fjölskyldan fékk lykilorð til að skoða síðuna og fylgjast með,“ segir hún.

Ljósmynd/Kristín Jóna Guðjónsdóttir

Þegar Alda Jóhanna horfir til baka segir hún að hún hafi þroskast á ógnarhraða við það að verða mamma svona ung.

„Ég fór fljótt úr því að vera barn yfir í að verða „fullorðin“. Ég lærði að bera ábyrgð og taka ákvarðanir sem er ekki óskastaða að 12-13 ára barn þurfi að taka. En Andrea gerði þetta allt svo auðvelt með að verða svo yndislegt barn.“

Andrea kom í heiminn 26. janúar 2004. Þá var Alda Jóhanna 13 og hálfs ár. Þegar ég spyr hana hvort hún hafi verið lengi að jafna sig eftir barnsburð segir hún svo ekki vera, en hún finni þó oft til í bakinu sem geri henni lífið leitt í dag. 

„Ég var fljót að ná mér og var komin í skólann tveimur vikum eftir barnsburð. Ég fékk heimakennslu sem gerði það að verkum að ég gat verið samferða krökkunum í mínum bekk og dróst því ekki aftur úr þrátt fyrir barnsburð,“ segir hún.

Eins og fyrr segir er Andrea orðin 13 ára. Þegar ég spyr Öldu Jóhönnu hvort þær séu eins og systur segir hún svo ekki vera.

„Við erum rosalega góðar vinkonur en við erum ekki eins og systur. Ég set mér mörk og er fyrst og fremst mamma Andreu. Núna þegar hún er komin á unglingaldur eru samskipti okkar erfiðari eins og gengur og gerist. Ég skil hana mjög vel því það er svo stutt síðan ég var 13 ára sjálf,“ segir Alda Jóhanna og brosir.

Alda Jóhanna flutti til Noregs með dóttur sína og fjölskyldu sinni árið 2013. Hún hefur ekki eignast fleiri börn en Andrea á tvö systkini pabba síns megin.

„Nú er meiriparturinn af fjölskyldu minni fluttur aftur til Íslands. Við Andrea búum í Suður-Noregi eða Lillesand sem er rétt fyrir utan Kristiansand ásamt kærasta mínum og hundinum okkar. Andrea var að byrja í gaggó eða 8. bekk og hún æfir fótbolta. Hennar áhugamál eru tónlist, make-up, vinirnir og Netflix. Hún vinnur sem barnapía fyrir íslenska fjölskyldu sem býr í sama bæ og við.

Lífið okkar í dag er alveg yndislegt og við höfum það rosalega gott hérna úti, en við söknum fólksins okkar heima en elskum að búa hér,“ segir hún. Alda Jóhanna starfar á hóteli í bænum og er á næturvöktum.

„Ég er reyndar í veikindafríi núna því eftir barnsburðinn hef ég átt við bakvandamál að stríða,“ segir hún.

Hverjir eru þínir framtíðardraumar?

„Ég er ekki búin með skólan ennþá, núna er ég orðin svo sleip í norskunni að ég ætti að fara sækja um í skóla og klára þetta litla sem ég á eftir,“ segir hún. 

Þegar talið berst að börnun og barnauppeldi spyr ég Öldu hvort hana langi til að eignast fleiri börn. 

„Eins og staðan er hjá mér núna þá er svarið nei. Ég varð svo ung mamma og búin að vera að ala upp barn í 13 ár og mig langar ekki að eyða mínu lífi í að ala upp börn. Það heillar mig meira að geta verið meira frjáls og fá að njóta að vera besta amman þegar kemur af því. En maður veit aldrei hvað skéður. Kannski skipti ég um skoðun eftir nokkur,“ segir hún. 

Hvernig sérðu þig fyrir þér eftir tíu ár?

„Hamingjusama, vel stadda og flotta píu og þá komin með háskólagráðuna mína.“

Þegar Andrea er spurð að því hvernig sé að eiga svona unga mömmu segist hún náttúrlega ekki þekkja neitt annað. 

„Ég tek ekki mikið eftir því, af því þetta er svo venjulegt fyrir mér. En hún hegðar sér eins og hún sé eldri en hún er. Það jákvæða er að ég get fengið skóna hennar lánaða og málningardótið hennar líka. Svo erum við með svipaðan tónlistarsmekk og bíómyndasmekk,“ segir Andrea.

Hvernig var uppeldi þitt frábrugðið uppeldi vina þinna?

„Ég á skemmtilegri minningar en vinkonur mínar, ég á svo unga fjölskyldu. Ég ólst upp með öllum systrum mömmu fyrstu átta árin og er mjög tengd þeim.Öllum vinum mínum fannst alltaf skemmtilegast að koma með mér heim eftir skóla af því það var alltaf svo margt fólk heima,“ segir hún.

Hvernig mamma er mamma þín?

„Hún er mjög ströng og stundum fyndin. Hún er góð mamma, jákvæð, mjög sterk andlega og góð húsmóðir. Svo eldar hún góðan mat og þrífur,“ segir Andrea.

Ef þið viljið fylgjast með mæðgunum á Snapchat og Instagram þá eru notendanöfnin þessi:

Snapchat: Aldajoh og Andreaoskk

Instagram: Aldajohanna og Andreaoskk

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál