Andlegt ofbeldi á vinnustað er dauðans alvara!

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

„Snemma í vor birtist pistill undir heitinu ÞAÐ LJÓTASTA OG FALLEGASTA Í FARI FÓLKS. Tilgangurinn með honum var að loka ákveðnu máli, og þar sem ég hef starfað og kynnst fjölmörgum vinnustöðum, vildi ég í leiðinni benda stjórnendum vinnustaða á mikilvægi góðrar stjórnunar og samskipta. Vitnaði því í gamla grein úr Harvard Business Review. Lengra hugsaði ég ekki,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli: 

Aldrei gat mig órað fyrir viðbrögðunum. Í stað þess að loka málinu opnaðist það upp á gátt. Fólk hafði strax samband við til að forvitnast meira um ofbeldið sem ég hafði orðið fyrir. Mér brá! Ofbeldi? Einelti? Hvarflaði ekki að mér enda nefni ég þau hugtök ekki í pistlinum. Já þannig túlkuðu margir innihald pistilsins. Það þurfti að benda mér á það og það gerðu margir. Svo blindur var ég.

Eftir að hafa rætt við fólk sem hefur persónulega reynslu af að vera fórnarlamb eineltis, fann ég fljótt að réttlætiskenndin mín sagði að ég gæti ekki látið sem ekkert sé. Sögurnar sem ég heyrði eru ljótar og afleiðingarnar mjög sárar fyrir fólk. Ég ræddi líka við mína fagaðila til að fá endurgjöf á hvað ég var að uppgötva og upplifa. Með þeim fékk ég að rifja upp atburðarrás á vinnustaðnum til að staðfesta að upplifun mín eigi við rök að styðjast. Vissulega fór ég fljótt að efast og gera minna úr þessu. Fagaðilar hvorki löttu mig né hvöttu enda ekki þeirra hlutverk. Eftir þá yfirferð var ég staðráðinn í fara með þetta mál eins langt og þyrfti.

Af hverju að fara af stað með þetta mál núna mörgum mánuðum eftir starfslok? Góð spurning. Ég skal reyna að útlista mín rök og byrja á því sem tengist ekki mér persónulega. Einelti né annað andlegt ofbeldi á ekki að líðast. Er einhver ósammála því? Ef ekki, af hverju er það þá látið líðast? Þreytist ekki að nefna að ef stjórnendur horfa framhjá staðreyndum um t.d. einelti, og gera ekkert, eru þeir um leið að gefa leyfi að fólk sé beitt andlegu ofbeldi! Nei aldrei! Myndu líklegast allir stjórnendur vinnustaða segja við þessari fullyrðingu. Ó jú. Hér gildir að þögn er sama og samþykki. Það getur nefnilega enginn stöðvað eða upprætt einelti nema þeir sem stjórna, ráða og bera ábyrgð á hegðun á vinnustaðnum. Ég veit að dæmin á mínum fyrrverandi vinnustað eru mörg á stuttum tíma. Veit því miður líka að þau hafa valdið fólki skaða og sárustu vanlíðan. Ef þetta viðgengst ennþá (sem ég hef heyrt) þá er því miður von á fleiri fórnarlömbum. Þetta verður að stoppa! Stjórnendur þessa vinnustaðar bera fulla ábyrgð á þessum málum. Því fyrr sem þeir opna augum þeim mun betra. Trúi ekki að þeir vilji hafa ofbeldi af þessu tagi á samviskunni!

Persónuleg rök. Ég hóf störf á þessum vinnustað snemma árs 2011. Rétt að rifja upp að fyrstu einkenni veikinda minna byrja sumarið 2013! Þá brýst fram gamall sársauki áfalla úr æsku sem hrindir af stað lífshættulegu veikindaferli sem ég barðist við í heil 2 ár, þar til ég fékk hjálp! Að verða fyrir alvarlegum áföllum t.d. sem barn og byrgja sársauka inni hefur líffræðileg áhrif á heila. Kannski það sem kallað er ör á sálinni? Vil ekki rifja upp alla söguna en skiptir máli í þessu samhengi að nefna hvað hratt þessu af stað. Ef þessi sársauki nær að brjótast fram þá er fjandinn laus eins og ég nefndi. Fyrir mér í dag skiptir öllu máli að vita hvað olli því að sársaukinn braust fram á þessum tíma. Ég veit nú að ég hefði alltaf getað átt von á því á lífsleiðinni. Hingað til hef ég haft aðrar kenningar um það. Að hafa gengið í gegnum ofbeldi í formi eineltis í 2 ár á undan var fyrir mér glænýtt innlegg! Hingað til hef ég aðeins horft á tiltekið ljótt atvik af hálfu geranda síðla sumars 2015 sem ég nefni í síðasta pistli. Það var ljótur ásetningur en var endirinn á vel rúmlega 4 ára atburðarrás.

Í dag get ég ekki sagt hversu mikið meint ofbeldi hafði áhrif á að ég veiktist en get fullyrt að það hafði áhrif! Er rétt að átta mig núna á því sem gekk á þessum vinnustað tímabilið fyrir veikindin. Var búinn að stroka úr minninu að ég fékk sterkt burnt out einkenni sumarið 2012 eftir mikið mótlæti. Munaði litlu að ég léti af störfum það sumar.

Það er alvarleiki málsins því afleiðingar minna veikinda hafa verið mér hrikalega erfiðar og settu mig og mitt líf á hvolf síðla sumars 2015. Það er óútskýranlegt að ég skuli tóra enn. Þetta er svo alvarlegt já. Á ég bara að sætta mig við það? Vona að fólk átti sig æ betur á hvers vegna ég get ekki látið þetta afskiptalaust.

Hvað ætla ég að gera? Stutta svarið er allt sem réttlætiskenndin segir mér!

Ég þekki ekki lagalegar hliðar á svona málum og veit ekki hvort eða hvað ég gert í því. En mín ríka réttlætiskennd segir mér að halda minni reynslu opinni. Ég get kannski í það minnsta forðað öðrum að vera fórnarlömb eineltis eða andlegs ofbeldis á vinnustðal. Tilgangurinn er einfaldur og þegar kominn fram. Ég mun segja frá atburðarrásinni, eins og ég upplifi hana, frá því snemma árs 2011 og þar til ég rita undir starfslok (fárveikur) haustið 2015. Hvernig ég kem því á framfæri hef ég ekki ákveðið enn þ.e.a.s fyrir utan þennan pistil. Eitt er víst að mig vantar ekki hvatninguna til að láta slag standa.

Er það þess virði að fást við það sem ég fæ ekki breytt úr fortíðinni? Hef velt þessu endalaust fyrir mér. Alltaf rýkur upp í mér títtnefnd réttlætiskennd. Ég held ég geti fullyrt að það blossar ekki í mér reiði, biturleiki eða heift. Skil ef fólki dettur það í hug.

Áður en ég birti fyrrnefndan pistil hafði ég farið ítarlega yfir það sem gerðist í aðdraganda starfsloka minna með sálfræðingi. Einmitt til að komast yfir þessar neikvæðu eitruðu tilfinningar. Þess vegna átti birtingin að vera lok en ekki upphaf!

Ég trúi að ég fái send lífsins verkefni er ég er tilbúinn að takast á við þau. Það virðist vera tilgangurinn með birtingu pistilsins. Svona eftir á. Ég hef ekki verið tilbúinn fyrr en núna að takast á við þetta verkefni. Er sagt að t.d. einelti snúist ekki einungis um þolendur og gerendur. Allir sem vita af því eru hlutaðeigandi, og eiga að sjá sóma sinn í því að upplýsa.

Það mun ég sannarlega gera. Fyrir mína hönd, annarra og til að leggja mitt af mörkum að koma í veg fyrir fleiri þolendur. Það eitt er þess virði að ég opinberi mína reynslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál