„Dætur okkar eiga ekki pabba“

Tótla og Sigga eiga dæturnar Eyrúnu og Úlfhildi.
Tótla og Sigga eiga dæturnar Eyrúnu og Úlfhildi.

Sigríður Eir Zophoníasardóttir og eiginkona hennar Anna Þórhildur Sæmundsdóttir eiga saman tvær dætur þær Úlfhildi sem er að verða þriggja ára og Eyrúnu sem er þriggja mánaða. Þær Sigga og Tótla eins og þær eru kallaðar eru oft spurðar út í pabba stelpnanna en Sigga segir að stelpurnar eigi ekki pabba og fólk eigi stundum erfitt með að meðtaka það.

„Dætur okkar eiga ekki pabba. Þær voru búnar til úr eggjum okkar hjóna og karla-frumum sem við keyptum af einhverjum andlitslausum manni í Danmörku með millilendingu í sæðisbanka,” skrifuðu Sigga og Tótla á Facebook-pistli um málið. 

Sigga og Tótla hafa alltaf lagt upp með að útskýra fyrir stelpunum sínum hvernig þær urðu til enda segja fræðin það að það sé besta segja sannleikann allt frá byrjun. Sigga segir að Úa eins og eldri dóttir þeirra er kölluð hafi varla verið byrjuð að mynda heila setningu þegar hún áttaði sig á að hennar fjölskylda væri öðruvísi en margar aðrar enda segja flestar barnabækur frá barni sem á mömmu og pabba og lítið er um hinsegin fjölskyldur eða einstæða foreldra. „Nema kannski Einar Áskell, hann á bara einn pabba,“ segir Sigga.

Systurnar eru góðar vinkonur.
Systurnar eru góðar vinkonur.

Sigga segir að þær Tótla hafi ekki mætt fordómum þegar þær voru að stofna fjölskyldu fólk hafi aðallega samgleðst þeim. Spurningar um uppruna stelpnanna sé því ekki sprottið af fordómum heldur frekar af vanþekkingu. Sigga skilur vel að spurt sé út í hvernig dætur þeirra urðu til enda er ekki svo langt síðan að tvær konur byrjuðu að geta átt börn saman. Sigga og Tótla hafa því svarað spurningum með glöðu geði og munu halda áfram að svara slíkum spurningum.

Þær eru hinsvegar orðnar þreyttar á því að það sé verið að spyrja um pabba stelpnanna. „Það eiga allir pabba,“ sagði kona við Siggu og þurfti Sigga að benda konunni á að það væri bara ekki rétt enda líta þær á föðurhlutverkið sem félagslegt hlutverk. ,,Við berum meiri virðingu fyrir föðurhlutverkinu en svo að það að gefa sæði geri einhvern að pabba. Vitur kona sagði nefnilega einu sinni við mig; Þú verður móðir með því að mæðra einhvern, með því að sinna móðurhlutverkinu og það sama á við um feður. Þannig er þetta hlutverk og titill sem þú ávinnur þér með tengslum.“

Spurningar eins og þessar geta verið afdrifaríkar þegar barn heyrir til. Sigga segir að þetta sé ekki enn farið að hafa særandi áhrif á Úu en hún getur vel ímyndað sér að það geri ef þessu heldur áfram. „Orð geta haft mótandi áhrif á börn,“ segir Sigga.

 „Vá hvað þær eru heppnar að eiga tvær mömmur,“ eru athugasemdir sem þær heyra stundum og segir Sigga það ekkert betra. Hún leggur áherslu á að það sé ekkert betra að eiga tvær mömmur frekar en eina mömmu og einn pabba. Athugasemdir sem þessar gefa það í skyn að mömmur séu betri og gera lítið úr föðurhlutverkinu „Stelpurnar eru í raun bara heppnar að eiga foreldra sem elska þær skilyrðislaust,“ segir Sigga.

Sigga leggur áherslu á að fólk tali við annað fólk af virðingu. Í því felst kannski að fólk þurfi að kynna sér málefni hinsegin fólks. Þrátt fyrir að vera hluti af hinsegin samfélaginu þarf Sigga sjálf að vera dugleg að kynna sér málefnið því hinsegin regnbogin er sífellt að taka breytingum. Mikilvægt er að muna að öll erum við fólk sem eigum skilið virðingu.

Sigga ásamt dætrum sínum.
Sigga ásamt dætrum sínum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál