Urðu ástfangin á netinu

Íris Björk og Joel giftu sig í haust eftir að …
Íris Björk og Joel giftu sig í haust eftir að þau kynntust á netinu.

Íris Björk Óskarsdóttir-Veil hætti sem yfirbakari í 17 sortum og flutti til Maine í Bandaríkjunum til að giftast eiginmanni sínum Joel Vail. Hjónin kynntust á netinu fyrir tæpum tveimur árum en þó ekki á venjulegri stefnumótasíðu heldur pennavinasíðu.

„Vinkona mín og bekkjarsystir í bakaranáminu manaði mig upp í að skrá mig á þessa síðu svona til gamans, tilgangurinn með síðunni er að kynnast fólki frá öðrum löndum og læra önnur tungumál. Ég var alls ekki að ætla mér að finna tilvonandi maka þar inni, en svo ákváðu örlögin að spila inn í þegar ég síst bjóst við,“ segir Íris Björk. 

Sagðist eiga ísbjörn

„Ég bý á Íslandi og ég á ísbjörn,“ skrifaði Íris Björk á síðuna sína í gríni og tók skilaboðin sem hún fékk ekki svo alvarlega til að byrja með. „Ég svaraði þeim skilaboðum sem mér bárust og þar voru flestir að dást að því að ég ætti ísbjörn fyrir gæludýr og voru ekkert að grínast með það og þá sá ég mér oft leik á borði,“ segir Íris Björk en segir þó að flest samtölin hafi ekki enst lengi.

Íris Björk elti ástina til Maine í Bandaríkjunum.
Íris Björk elti ástina til Maine í Bandaríkjunum.

Það síðasta sem Íris Björk bjóst við eftir að hún skráði sig á síðuna var að kynnast eiginmanni sínum þar. Sjálf var hún búin að gefast upp á stefnumótamenningunni. Joel var sömuleiðis ekki að leita að ást sinni enda var hann að ganga í gegnum erfiðan skilnað. Hann hafði samband við Írisi Björk vegna þess að hann hafði mikinn áhuga á Íslandi.

Samskipti þeirra Írisar Bjarkar og Joels undu fljótlega upp á sig. Þau hættu fljótlega að tala saman inni á síðunni og færðu sig yfir á Whatsapp-smáforritið. Þegar Joel fattaði að hann gæti hringt varð sambandið enn nánara. „Upp frá því hringdi hann í mig að minnsta kosti tvisvar til þrisvar sinnum á dag til að spjalla í einn til tvo tíma í einu þar til við byrjuðum svo að nota Skype. Fyrst byrjaði þetta sem vinátta og eftir því sem við kynntumst betur og betur þá féllum við fyrir hvort öðru. Hvorugt okkar hafði þó trú á því að hitt hefði raunverulegan áhuga og hann reyndi meira að segja að kynna mig fyrir vini sínum og koma okkur saman,“ segir Íris Björk sem segir það hafa verið dauðadæmt frá byrjun enda hafði hún augastað á Joel.“

Sagði já

Íris Björk ákvað að fara til Bandaríkjanna í sumarfríinu sínu í fyrra þar sem Joel var kominn inn í myndina. „Vinahópurinn hélt að ég væri orðin eitthvað klikkuð að fara að ferðast ein til þess að hitta mann sem ég hafði aldrei hitt í persónu áður, en ég gerði mitt besta til að róa þau,“ segir Íris Björk en heimsóknin tókst vel. „Ég eyddi tveimur vikum með honum og hitti vini hans og börnin hans. Hann á tvær yndislegar litlar dætur sem tóku mér með opnum örmum og spurðu mig undir lok heimsóknarinnar hvort ég væri að fara til Íslands til að sækja dótið mitt til að geta flutt til þeirra. Þær vildu helst fá að baka með mér kökur á hverjum einasta degi og hafa báðar mikinn áhuga á því að gerast bakarar eins og ég þegar þær verða stórar.“

Í ferð Írisar Bjarkar til Bandaríkjanna bað Joel hana um að giftast sér og hún sagði já. „Hann hafði talað um það áður en ég kom í heimsókn að hann langaði til að giftast mér, ég tók því ekki of alvarlega því viðhorf Bandaríkjamanna og Íslendinga til hjónabands eru svolítið ólík. En svo þegar við loksins hittumst í persónu og hann spurði mig formlega þá var svarið já, sem hljómar svolítið klikkað en við vorum viss [um] að þetta væri rétt ákvörðun. Svo spilaði líka inn í að auðveldasti möguleikinn fyrir okkur til að geta verið saman og ég gæti flutt til Bandaríkjanna var að sækja um svokallað fiancé visa.“

Á svartbjarnaveiðum í Maine.
Á svartbjarnaveiðum í Maine.

Brúðkaupsveislan fékk að bíða

Þann 27. september síðastliðinn gengu þau Íris Björk og Joel í hjónaband á bæjarskrifstofu. Planið er þó að halda aðra athöfn og veislu eftir um það bil tvö ár. Bakarinn Íris Björk er að sjálfsögðu byrjuð að skipuleggja brúðartertuna sína. „Hún verður án efa samsetning af einhvers konar súkkulaðibombu og vanillu chantilly-köku með ferskum berjum og mascarpone-kremi sem er uppáhaldskakan hans Joels. Ég geri ráð fyrir að hún verði skreytt með smjörkremi og jafnvel marsipanblómum.“

Íris Björk er ánægð með nýja lífið í Maine og reynir hún að hafa nóg fyrir stafni þangað til hún fær atvinnuleyfi. Í haust fór hún meðal annars á svartbjarnaveiðar. Hún er spennt fyrir því að hrista upp í Bandaríkjamönnum með því að kynna þá fyrir bakkelsi með evrópskum áhrifum og íslensku handbragði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál