Íslenskur maður vill fá eiginkonuna í „swing“

Konan giftist ekki manninum sínum til þess að prófa aðra.
Konan giftist ekki manninum sínum til þess að prófa aðra. mbl.is/Thinkstockphotos

Valdi­mar Þór Svavars­son, ráðgjafi hjá Fyrsta skref­inu, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér svarar hann spurningu frá íslenskri konu sem er ekki viss um að hún vilji krydda kynlífið á sama hátt og maðurinn hennar. 

Sæll Valdimar

Ég er í smá sambandskrísu. Málið er það að eiginmaður minn til næstum 10 ára vill nýtt krydd í kynlífið hjá okkur. Hann langar að prófa sving. Mér finnst það spennandi en samt hræðileg tilhugsun. Ég er föst á því að þegar ég gifti mig þá var ég að giftast þessum manni til að vera með þessum manni en ekki að prófa alla hina sem eru mögulega tilbúnir. Mér finnst þetta svakalega stórt skref að stíga og er ansi hrædd við afleiðingarnar. Það er frekar langt síðan hann stakk upp á þessu og ég er búin að hafa langan umhugsunartíma en þokast ekkert nær að stíga þetta skref. Er ég vond að taka ekki tillit til hans langana eða er hann vondur að stinga upp á þessu skrefi? Ég hreinlega veit ekki hvað ég á að gera.

Með kveðju, tepran

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Góðan daginn og takk fyrir þessa áleitnu spurningu.

Þessu er fljótsvarað í rauninni. Þú ættir ekki undir nokkrum kringumstæðum að gera eitthvað sem þú vilt ekki gera þegar að kynlífinu kemur, óháð því hverjar langanir mannsins þíns eru á þessu sviði. Það er sjálfsagt og í raun mikilvægt að ræða kynlífið og hverjum og einum frjálst að hafa sínar þarfir og langanir, svo lengi sem þær eru ekki að valda öðrum skaða. Það mætti segja að það sé vanvirðing gagnvart sambandinu og makanum að leggja til að stunda kynlíf með öðru fólki, ef ljóst er að sá áhugi hefur ekki verið til staðar. Það er eitthvað sem ætti alla vega aldrei að þrýsta á.

Þú ert ekki að segja að maki þinn sé að þrýsta á þig að taka þessa ákvörðun en ef svo væri, þrátt fyrir að þú hafir sagt að þig langi það ekki, þá mætti segja að það væri orðið kynferðislegt áreiti eða jafnvel ofbeldi. Margir hafa deilt sögum sínum af markaleysi í sambandi við kynlíf innan sambanda og finnst þá mörgum erfitt að meta hvað er í lagi og hvað er jafnvel orðið einhvers konar þvingun. Þá geta einmitt komið upp hugleiðingar eins og þær sem þú veltir fyrir þér, hvað er eðlilegt, er ég að bregðast makanum með því að virða ekki hans langanir og er það bara tepruskapur að vilja ekki taka þátt?

Eins og áður sagði er það hið eðlilegasta mál að ræða opinskátt um hlutina og ekkert nema sjálfsagt að við höfum mismunandi langanir þegar að kynlífi kemur. Það breytir því þó ekki að ef við erum í sambandi þá erum við að samþykkja ákveðna skuldbindingu gagnvart maka okkar, ef annað hefur ekki verið ákveðið með vilja beggja aðila. Þú segir sjálf að þér þyki þetta „spennandi en hræðileg“ tilhugsun. Það er eitt að hugsa hluti og annað að framkvæma þá. Við getum ímyndað okkur hitt og þetta og upplifað spennu með ímynduninni einni saman. Eflaust gerum við þetta öll upp að vissu marki og gagnvart ýmsu í lífinu. Hvort sem það er tilhugsunin um að liggja á sólarströnd, að keyra fallegan bíl, að eiga mikla peninga eða jafnvel að stunda kynlíf með öðrum en maka okkar, þá eru eflaust flestir sem láta hugann reika öðru hverju og upplifa tilfinningar samhliða því. Það er að sama skapi algengt að við upplifum að raunveruleikinn sé allt öðruvísi en ímyndunin. Þegar fólk stígur spor í kynlífinu sem fara þvert gegn þeirra eigin siðferðiskennd og gildum er eðlilegt að það upplifi mikla sektarkennd og sársauka sem hefur langvarandi afleiðingar. Ég man í fljótu bragði ekki eftir neinu tilviki þar sem sambönd hafa batnað eða vaxið til langs tíma þar sem einstaklingar í sambúð hafa tekið ákvörðun um að stunda kynlíf með fólki utan sambandsins. Ég hef hins vegar ítrekað orðið vitni að því gagnstæða. Í svona málum er gott að fara lengra með hugsunina og segja: „Og hvað svo?“ Hvað tekur við ef þú stígur þessi spor, hvernig verður sambandið og líðanin í framhaldinu?

Hvað sem öðru líður þá máttu hafa í huga að þú mátt (og átt) að ákveða sjálf hvað þú vilt og best er að fylgja innsæi sínu þegar ákvarðanir eru teknar.    

Með bestu kveðju – Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent Valdi­mari spurn­ingu HÉR. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál