Tapaði ég peningunum á Karolina Fund?

Íslensk kona er gröm yfir því að hafa ekki fengið …
Íslensk kona er gröm yfir því að hafa ekki fengið tvær bækur afhentar sem hún keypti í gegnum Karolina Fund. mbl.is/Thinkstockphotos

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem keypti tvær bækur í gegnum Karolina Fund vorið 2017. Bókin hefur aldrei komið út. 

Sæl Heiðrún,

Þekkir þú reglur Karolina Fund? Vorið 2017 „keypti ég“ tvær bækur á hópfjármögnun á Karolina Fund eða rúmlega 14.000 krónur. Bókin átti að koma út þá um haustið en hefur ekki ennþá komið út. Hvernig virkar svona, er hægt að fá endurgreitt eða eru þetta bara tapaðir peningar?

Kveðja, S

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður.
Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður. mbl.is/Valgarður Gíslason

Heil og sæl S!

Áhugaverð spurning hjá þér.

Fyrirkomulagið á vefsíðunni hjá Karolina fund virkar þannig að sá sem stendur að baki hugmynd eða verkefni kynnir verkefnið eða hugmyndina á síðunni. Hann ákveður einhverja lágmarksfjárhæð sem hann vill safna til að koma verkefninu af stað og lágmarkstíma sem hann hyggst safna fjárhæðinni á. Þeir sem vilja styðja við bakið á verkefninu eða hugmyndinni gera það með því að greiða ákveðna fjárhæð af kreditkorti sínu. Karolina fund er ekki aðili að neinum viðskiptum sem eiga sér stað í gegnum vefsíðuna heldur er síðan einungis sett upp sem vettvangur fyrir viðskipti. Þegar fjárhæðir eru greiddar til ákveðinna verkefna er það fyrir milligöngu kreditkortafyrirtækja og því ekki í gegnum reikninga Karolina fund. Fjárhæðin er þó ekki skuldfærð af kreditkorti fyrr en fyrir liggur að lágmarksfjárhæð fyrir verkefnið muni safnast. Náist það ekki ber kreditkortafyrirtækinu að endurgreiða peninginn.

Samkvæmt notendaskilmálum Karolina fund á vefsíðan ekki lengur aðkomu að málinu eftir að sá sem styður verkefni eða hugmynd  hefur innt fjárhæð af hendi. Fjármögnunarsíðan ber þar af leiðandi ekki ábyrgð á því að vara sé afhent eða greiðsla berist fyrir hana.

Eins og þú orðar spurninguna þína geri ég ráð fyrir því að nægileg fjárhæð hafi safnast til þess að verkefninu hafi verið hrundið í framkvæmd. Samkvæmt skilmálum vefsíðunnar ber þeim sem stendur að baki verkefni að gera allt sem í hans valdi stendur til þess að standa skil á verkefninu á fyrirhuguðum tíma. Sú tímasetning telst hins vegar ekki loforð í sjálfu sér og á vefsíðunni er ekki að finna upplýsingar um hvaða afleiðingar það hefur ef viðkomandi stendur ekki við sinn hluta samningsins. Heimasíðan hefur þó einhverjar heimildir til þess að banna ákveðna notendur og spurning hvort að það sé úrræði sem þeir grípa til í tilvikum eins og því sem þú lýsir. Það leysir þó ekki þinn vanda.

Í þínu tilviki tel ég að almennar reglur kröfuréttar um réttar efndir eigi við. Þú hefur greitt fyrir vöruna og átt þar af leiðandi heimtingu á að fá vöruna afhenta og á réttum tíma. Það á jafnframt við um plakatið, pennann og útgáfuhófsboðið. Líkt og áður sagði er þó fyrirvari í skilmálum vefsíðunnar um að uppgefin lokadagsetning, í þínu tilviki útgáfudagur, þurfi ekki endilega að standast.

Hvað sem þessu líður þarft þú að beina kröfu þinni um réttar efndir, eða endurgreiðslu, að þeim sem þú styrktir í gegnum síðuna, rithöfundinum sjálfum.

Gangi þér vel!

Kveðja, 

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Heiðrúnu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál